Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á Nýsköpunarþingi, 30. október 2018
Kæru fundargestir
Það er mér sönn ánægja að ávarpa Nýsköpunarþing í annað sinn. Þingið hefur fyrir löngu skipað sér sess sem mikilvægur viðburður í nýsköpunarsamfélaginu og með fundi sem þessum getum við tekið púlsinn á því öfluga nýsköpunarstarfi sem fer fram í landinu hverju sinni og hugað að framtíðinni.
Mikilvægur hluti þingsins eru Nýsköpunarverðlaunin, sem veitt hafa verið árlega frá árinu 1994, en tilgangur þeirra er meðal annars að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar, annars vegar, og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu, hins vegar. Segja má að handhafar nýsköpunarverðlaunanna séu fulltrúar þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem eru að vinna frábært starf í nýsköpun hér á landi og okkur þykir ákaflega gaman að sjá að mörg þeirra fyrirtækja sem hafa hlotið verðlaunin í gegnum tíðina gegna þýðingarmiklu hlutverki í atvinnulífi þjóðarinnar í dag.
Nýsköpunarþingið í ár ber yfirskriftina Nýjar lausnir - betri heilsa og sú yfirskrift á einmitt mjög vel við um þessar mundir. Það ríkir um það pólitísk sátt hér á landi að stefna beri að heilbrigðiskerfi sem er opið fyrir alla og á pari við það sem best gerist meðal vestrænna þjóða. Við viljum stuðla að góðri heilsu og tryggja öflugar forvarnir hjá öllum þegnum landsins; við viljum geta greint sjúkdóma með skjótvirkum og öruggum hætti; og í kjölfar sjúkdómsgreininga viljum við geta brugðist fljótt við með öflugri læknisþjónustu og bestu fáanlegu lyfjum.
Á sama tíma erum við fámenn þjóð í strjálbýlu landi og við vitum að það er dýrt að halda uppi góðri heilbrigðisþjónustu í svo litlu hagkerfi. Eftir því sem þjóðin eldist horfum við einnig fram á að það verða sífellt færri vinnandi hendur á bak við hvern eldri borgara, og samhliða þeirri þróun eykst hlutfallslegt umfang heilbrigðisþjónustunnar ár frá ári.
Til að svara þessum áskorunum þurfum við nýsköpun í heilbrigðismálum, snjallar lausnir, nýja sýn og nýja tækni. Við þurfum að nýta okkur til góðs þá styrkleika sem felast í því að vera lítil og landfræðilega afmörkuð þjóð, með háa tæknivæðingu og sterka gagnagrunna á sviði heilbrigðismála. Og við þurfum samhentar aðgerðir til að mæta þeim tækifærum og áskorunum sem felast í stafrænu byltingunni sem nú stendur yfir.
Við þurfum öflugt og gott samstarf, ekki aðeins meðal vísindamanna og heilbrigðisstarfsfólks, heldur einnig og ekki síður meðal sérfræðinga á sviði hugbúnaðar, verkfræði, lífupplýsingafræði, líftækni, viðskiptafræði, lögfræði og svo mætti áfram lengi telja.
Við þurfum einnig að byggja upp samvinnu milli hins opinbera og atvinnulífsins um skilvirkan stuðning við nýsköpun í þágu heilbrigðistækni og betra samfélags. Það er þekkt að þróun nýrrar tækni eða þjónustu á þessu sviði kallar oft á langvinnar rannsóknir og klínískar prófanir áður en tækni eða þjónusta er sett á markað, - við erum því í mörgum tilvikum að tala um þolinmótt fjármagn og mikla áhættu í fjárfestingum, sem þó getur skilað sér til baka með öflugum hætti síðar meir.
Fjármögnunarumhverfið fyrir nýsköpun hefur tekið stakkaskiptum hér á landi á undanförnum áratug eða svo, með tilkomu nýrra fagfjárfesta, stórauknum framlögum stjórnvalda í samkeppnissjóði, og stórauknum endurgreiðslum á rannsóknar- og þróunarkostnaði. Eins og þið vitið ætlum við okkur að ganga enn lengra á þeirri braut.
Ekki má heldur gleyma því að stjórnarsáttmálinn kveður á um að hluta af tekjum nýs Þjóðarsjóðs verði varið til að efla nýsköpun. Ég hef viðrað þá skoðun að einhvers konar áhersla á heilbrigðis- og velferðarmál í því samhengi myndi samræmast vel þeirri langtímahugsun sem kristallast í stofnun sjóðsins. Sú stefnumótun á þó eftir að fara fram.
Eins og þið vafalaust vitið hef ég sett af stað starfshóp um mótun heildstæðrar nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Sú stefnumótun verður unnin í nánu samstarfi við önnur ráðuneyti, þar á meðal ráðuneyti fjármála, velferðarmála, umhverfismála og menntamála og er gert ráð fyrir að drög að heildstæðri stefnu liggi fyrir á vordögum 2019. Í þessari vinnu leggjum við áherslu á samtal við frumkvöðla á mismunandi stigum nýsköpunar sem og samtal við þá aðila sem mynda stuðningsumhverfi nýsköpunar hér á landi. Skipulagning á stuðningsumhverfi nýsköpunar mun skipa veigamikinn sess í vinnunni, enda viljum við ná fram skilvirkni og sveigjanleika í stuðningi við nýsköpun og stuðla að aukinni samvinnu meðal þeirra aðila sem mynda vistkerfi nýsköpunar hér á landi.
Að lokum vil ég nefna að það er mikilvægt að við hugsum stórt og komum fram með lausnir sem gagnast ekki bara okkar litlu þjóð, heldur einnig á erlendum vettvangi. Það er með öðrum orðum mikilvægt að við hugum að því markmiði, að þær lausnir sem við komum fram með, nái markaði erlendis, í þágu sterkari samkeppnisstöðu Íslendinga á alþjóðlegum markaði.
Að þessu sögðu hlakka ég til að heyra þau erindi sem flutt verða hér á eftir og ég hvet til áframhaldandi samræðu um það hvernig við getum í krafti nýsköpunar komið fram með nýjar lausnir á sviði heilbrigðis; við erum svo sannarlega tilbúin í það samtal og ætlum okkur að leggjast á árarnar með ykkur í þessu verkefni.