Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. febrúar 2019 MatvælaráðuneytiðÞórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á ársfundi Landsvirkjunar 28. febrúar 2019

Ágætu stjórnendur og aðrir starfsmenn Landsvirkjunar, góðir gestir.

Áður en lengra er haldið langar mig til að óska fyrirtækinu, starfsfólki þess, og eigendum þess, til hamingju með glæsilega rekstrarniðurstöðu sem kynnt var í dag. Hún endurspeglar skynsamlegar ákvarðanir og framkvæmdir varðandi nýtingu á orkuauðlindum landsins á undanförnum árum og áratugum, sem og skynsamlega stýringu þessara mikilvægu þjóðarhagsmuna af hálfu fyrirtækisins.

Eins og þið vitið hefur um nokkurt skeið verið rætt um að ráðstafa arði af rekstri Landsvirkjunar í Þjóðarsjóð, sem nýttur verði til að bregðast við óvæntum áföllum í rekstri þjóðarbúsins. Frumvarp um Þjóðarsjóð hefur nú verið lagt fram á Alþingi og ég styð heilshugar að við Íslendingar sýnum ráðdeild og fyrirhyggju með þessum hætti.

Á þessum fundi ætla ég að fá að leyfa mér að ræða stuttlega um nokkur aðskilin orkutengd málefni sem eru misjafnlega ofarlega á baugi en skipta samt öll máli: Nýtingu og sóun, samkeppni, eignarhald, markaðsbúskap og „markaðspakka“, þjóðareign, vindorku og kannski fleira.

Í fyrsta lagi nokkur orð um samkeppni.

Þó að umræðan um þriðja orkupakkann hafi stundum farið út um víðan völl, þá má hún þó eiga það, að hún hefur beint sjónum að því sem fólst í fyrstu tveimur orkupökkunum.

Landsmenn hafa verið minntir á, að hér hefur verið komið á frjálsu markaðsumhverfi í framleiðslu og sölu á rafmagni, með svipuðum hætti og áður var gert á fjarskiptamarkaði, og að þeim er frjálst að kaupa rafmagn af hverjum sem þeir kjósa.

Orkupakkarnir voru ekkert annað en „markaðspakkar“, og sá þriðji er það líka.

Fyrirtæki hafa nýtt sér þetta í talsverðum mæli, jafnvel farið í útboð á rafmagnsþörf sinni, og þannig sparað sér töluvert fé. Einstaklingar hafa síður nýtt sér þetta, sennilega af því að fjárhæðirnar eru ekki stórar fyrir dæmigert heimili. Þó má færa rök fyrir því að bara möguleikinn á þessu stuðli að lægra verði. Munurinn á milli seljenda er ekki mjög mikill, eða um 10% nú um stundir, en það getur verið til marks um að samkeppnin virki, það er að segja: að enginn komist upp með að vera miklu dýrari en aðrir, vegna samkeppninnar.

Það er fagnaðarefni að fleiri og fleiri neytendur geri sér grein fyrir þessu, nýti sér þennan möguleika, og að fleiri aðilar komi inn á markaðinn til að auðvelda þeim það. Við eigum að stefna að því að auka samkeppnina enn frekar. Tækifærin til þess felast kannski ekki síst í smávirkjunum.

Í öðru lagi um eignarhald.

Orkupakkarnir fyrri – „markaðspakkar“ eitt og tvö – fólu í sér að skilið var á milli samkeppnisrekstrar og einkaleyfisrekstrar. Ekki að fullu, en að verulegu leyti. Þriðji markaðspakkinn gerir kröfu um fullan eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækis frá öðrum fyrirtækjum á orkumarkaði.

Ísland fékk undanþágu frá þessari kröfu.

Engu að síður liggur fyrir að öllum helstu hagsmunaaðilum hér á landi finnst slíkur eigenda-aðskilnaður skynsamlegur. Það er að segja: Að til lengri tíma litið sé óheppilegt að flutningsfyrirtækið Landsnet sé í eigu raforkuframleiðenda og dreifiveitna. Frá sjónarhóli neytenda er auðvitað augljóst að sjálfstæði flutningsfyrirtækisins stuðlar að jafnræði annarra aðila á markaði.

Ríkisstjórnin samþykkti fyrir nokkrum vikum að teknar yrðu upp viðræður um kaup ríkisins á eignarhlutum núverandi eigenda Landsnets. Nú stendur því fyrir dyrum að skipa starfshóp til að leiða þessar viðræður og stefna að viljayfirlýsingu aðila, ef viðræðurnar gefa tilefni til. Ég bind vonir við að í árslok verðum við vel á veg komin með þessar viðræður.

Ég tel að við eigum líka að huga að því að ganga með ríkari hætti á eftir því að í framkvæmd sé skilið með skýrum hætti á milli reksturs dreifiveitna og samkeppnisrekstrar eigenda þeirra, eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Það verður að vera skýrt og gagnsætt að samkeppnisreksturinn og sérleyfisreksturinn beri hvor sinn kostnað, í aðskildum fyrirtækjum. Aðhald með dreifingarkostnaði þarf líka að vera öflugt í gegnum ákvarðanir Orkustofnunar um tekjumörk.

Í þriðja lagi um auðlindir.

Umræðan um orkupakkana – eða markaðspakkana – hefur líka beint sjónum okkar að eðli orkuauðlindarinnar. Sumir hafa stigið fram í þessari umræðu og líkt auðlindinni við fiskistofnana; sagt að hér sé um að ræða auðlind í eigu að berjast gegn markaðspakkanum segist ætla að fara fram undir slagorðinu „Okkar orka“, sem virðist byggja á sömu hugsun.

Flestir hér inni vita væntanlega betur en það er samt full ástæða til að árétta þetta: Vatnsafl og jarðvarmi eru ekki þjóðareign líkt og fiskurinn í sjónum. Vatnsafl og jarðvarmi tilheyra eignarhaldi á landi, rétt eins og laxveiðiréttindi tilheyra jörðum. Ef Jón og Gunna eiga landið þá eiga Jón og Gunna viðkomandi orkuauðlind sem er á því landi, eða undir því. Ef ríkið á landið þá á ríkið viðkomandi orkuauðlind. Ef sveitarfélag á landið þá á sveitarfélagið viðkomandi orkuauðlind. Og hér má síðan minna á að samkvæmt lögum er ríki og sveitarfélögum óheimilt að framselja, beint eða óbeint, með varanlegum hætti rétt til umráða og hagnýtingar á virkjanlegum orkuauðlindum sínum.

Ef slagorðið gegn þriðja markaðspakkanum, „Okkar auðlind“, felur í sér að allar orkuauðlindir séu þjóðareign þá er það ríkisvæðing af sjaldséðri stærðargráðu.

Í fjórða lagi um nýtingu og sóun.

Einangrað orkukerfi sem byggir á sveiflukenndri náttúruauðlind eins og vatnsafli hefur alla jafna í för með sér töluverða sóun.

Sóunin felst í því að aðeins er hægt að selja versta vatnsárið á gefnu viðmiðunartímabili. Í meðalári fer afgangsorkan til spillis. Það er ekki hægt að selja hana af því að það er ekki hægt að tryggja að hún verði til reiðu í óvenjulega þurrum árum. Af því að við bárum orkuna saman við sjávarútveginn hér áðan mætti hæglega kalla þessa sóun brottkast – að vísu fullkomlega löglegt brottkast.

Í meðalári nemur árlegt brottkast um það bil tveimur teravatt-stundum. Það er meira en tvöföld ársnotkun allra heimila landsins. Ef það fengjust nú þrjú þúsund krónur fyrir hverja megavattstund á markaði, sem er ekki fráleitt, þá nemur verðmæti þessa löglega brottkasts sex milljörðum króna á ári, í meðalári.

Ein leið til að koma í veg fyrir þetta væri að leggja raforkustreng, og það hefur verið ein helsta röksemdin fyrir honum. Önnur leið væri að fá sveigjanlegan viðskiptavin, sem væri tilbúinn til að slaka á notkun sinni í slæmum vatnsárum, til að gera Landsvirkjun kleift að selja ekki bara versta vatnsárið heldur kannski það næstversta, þriðja versta, eða fjórða versta.

Það er ólíklegt að slíkur sveigjanleiki myndi útrýma sóuninni með öllu en hann gæti minnkað hana verulega. Það er allt að því borðleggjandi að þarna liggja nokkrir milljarðar sem bíða þess að vera teknir upp af gólfinu án mikillar fyrirhafnar; afgangsorka sem er hent og kallar ekki á nýjar virkjanir, heldur aðeins að aðilar séu tilbúnir til að veðja á líkurnar á lélegum vatnsárum og nái samningum um hvernig beri að skipta ávinningnum.

Í fimmta lagi aðeins um vindorku.

Áhugi á að reisa vindorkuver hér á landi hefur farið ört vaxandi undanfarin ár, ekki síst meðal erlendra aðila.

Fullyrt er að vindorka sé í mörgum tilfellum orðin hagkvæmari en nýjar vatnsaflsvirkjanir, og í sumum tilfellum jafnvel hagkvæmari en eldri vatnsaflsvirkjanir sem kalla ekki á neinn kostnað nema viðhald.

Rætt er um einstaka vindorkugarða sem geti skilað 100 megavöttum af orku og jafnvel meira, sem er auðvitað veruleg framleiðslugeta og gæti markað sýnileg spor á íslenskum raforkumarkaði.

Gallinn er að þessir aðilar fá misvísandi svör um það á Íslandi hvaða regluverk gildi um þessi áform, einkum hvort þau heyri undir rammaáætlun eða ekki, og Ísland hefur ekki markað sér stefnu um nýtingu þessarar orkulindar.

Við slíka óvissu verður auðvitað ekki unað. Það þarf að eyða henni og skýra regluverkið. Þeirri vinnu er verið að hleypa af stokkunum og ég sé fyrir mér að hún þurfi nú ekki að taka nema fáeina mánuði.

Ég ætla ekkert að gefa mér fyrirfram um niðurstöðuna. En ég tel ljóst að vindorka feli í sér umtalsverð tækifæri, meðal annars til að auka samkeppni á íslenskum raforkumarkaði.

Við verðum þó að nýta þessi tækifæri af varfærni og skynsemi, enda er útbreiðsla vindorku víða í Evrópu orðin slík að ætla má að það sé orðin ákveðin sérstaða að hafa ekki slík mannvirki við sjóndeildarhringinn hvert sem litið er.

Kæru gestir, ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri að þessu sinni.

Eins og þið vitið stendur yfir vinna við mótun fyrstu heildstæðu orkustefnunnar fyrir Ísland og ég vil hér nýta tækifærið og þakka öllum sem hafa komið að því verki fyrir sín störf, bæði orkustefnunefndinni sem og öllum þeim fjölmörgu hagsmunaaðilum sem hafa lagt hönd á plóg í störfum hennar nú þegar.

Þið munið líka væntanlega eftir því að nefnd er að störfum til að útfæra leiðir til að tryggja orkuöryggi á heildsölumarkaði raforku, sem er alls ekki tryggt í dag. Þetta er mikilsvert úrlausnarefni sem við leiðum vonandi til lykta innan tíðar.

Það eru spennandi tímar fram undan með orkuskiptum. Við gætum orðið eitt fyrsta landið til að losa okkur alfarið við jarðefnaeldsneyti til innanlandsnota. Og ekki er langsótt að það gæti orðið sérstakt aðdráttarafl fyrir ferðamenn að eiga nánast alveg kolefnislaust frí þegar þeir dvelja hér á landi eftir að hafa flogið. Höfum samt í huga að aukin meðvitund um loftslagsvandann veldur því líka að þeim fer fjölgandi sem sneiða hjá því í lengstu lög að fljúga þegar þeir fara í frí.

Hvað sem því líður munu Landsvirkjun og önnur orkufyrirtæki leika lykilhlutverk í grænni framtíð Íslands, þar sem græn orka er nýtt í þágu loftslagsmarkmiða heimsins.

Ég vil að lokum ítreka þakkir til Landsvirkjunar, stjórnenda og allra starfsmanna, fyrir vel unnin störf við að gæta gríðarlega mikilvægra hagsmuna fyrir land og þjóð.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta