Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. mars 2019 MatvælaráðuneytiðÞórdís Kolbrún R. Gylfadóttir

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á Iðnþingi 7. mars 2019

Forseti Íslands, kæru Iðnþingsgestir

Ég vil byrja á að óska Samtökum iðnaðarins til hamingju með tuttugu og fimm ára afmælið. Takk fyrir ykkar ómetanlega framlag við að efla íslenskan iðnað, og bæta þannig íslenskt samfélag.

Það er vel til fundið á þessum tímamótum, að yfirskrift Iðnþings gangi ekki aðeins út á að horfa fram á veginn heldur einnig til baka, og líta yfir farinn veg.

Iðnaður leikur auðvitað eitt af aðalhlutverkunum í sögu okkar samfélags og er órjúfanlegur hluti af henni. Og hlutur iðnaðar má að ósekju verða stærri hluti okkar sjálfsmyndar.

Þegar við horfum til baka yfir nokkrar síðustu aldir í sögu okkar sjáum við fyrir okkur bændur, sjómenn og skáld.

Þetta er kjarninn í Íslandi fyrri alda, í hugum okkar flestra.

Ef við ímyndum okkur að Ísland hafi verið að útskrifast úr „háskóla þjóðanna“ í upphafi tuttugustu aldar, í hvaða grein skyldi það hafa verið? Hvað myndum við kalla prófgráðu þeirrar þjóðar?

Jú, ætli það væri ekki nærtækt að segja að í háskóla þjóðanna hafi Ísland verið að útskrifast með meistaragráðu í „náttúruauðlindum og listum“.

Þetta er það sem við lögðum stund á í gegnum aldirnar. Þetta er það sem hélt í okkur lífinu, líkamlega og andlega.

En þetta er að sjálfsögðu einföldun og ákveðin staðalímynd, sem er sífellt fjær því að segja alla söguna eftir því sem við lítum okkur nær í tíma.

Saga okkar er nefnilega líka saga handverks, iðnaðar, orkuframkvæmda og hitaveituvæðingar, mannvirkjagerðar, áframvinnslu afurða, sköpunargleði í matargerð, vöruþróun, arkitektúr, fatahönnun, forritun og fleiru, hönnunar á ótal sviðum – og sífellt framsæknari nýtingar hugvits í vísindum og tækni.

Þessi merkilega saga – þessi iðnsaga okkar Íslendinga – vill stundum falla í skuggann af öðru í sjálfsmynd okkar. Það er einkar vel til fundið að halda henni vel og rækilega á lofti hér á þessu þingi, á þessum tímamótum.

Í ræðu minni hér fyrir ári gerði ég að umtalsefni hvort við lifðum í raun á tímum stöðugra framfara og sífellt betri lífskjara. Eða hvort eitthvert það áfall eða breytingar myndu hugsanlega verða innan tíðar sem gerðu það að verkum, að síðar meir myndu menn horfa til baka til okkar tíma með öfundaraugum og fortíðarþrá í brjósti, og hugsa með sér: „Veröld sem var“, líkt og Stefan Zweig gerði í hinni áhrifamiklu bók sinni þegar hann horfði til baka frá sjónarhóli tveggja heimsstyrjalda aftur til öryggisins sem einkenni aldamótaárið 1900.

Þessi spurning verður sífellt áleitnari eftir því sem umræðan vex og þroskast um fjórðu iðnbyltinguna og mögulegar afleiðingar hennar. Hversu björt er framtíðin sem hún boðar og höfum við fundið svörin við þeim áskorunum sem hún ber í skauti sér?

Annar þekktur höfundur, Yuval Noah Harari, kemur inn á þetta viðfangsefni í bók sinni „Tuttugu og ein lexía fyrir tuttugustu og fyrstu öldina“, þar sem hann setur fjórðu iðnbyltinguna í áhugavert og upplýsandi samhengi við hugmyndasögu síðustu áratuga.

Harari bendir á, að á fyrri hluta tuttugustu aldar kepptu í megindráttum þrjú kenningakerfi um hylli heimsbyggðarinnar: fasisminn, kommúnisminn, og frjálslyndisstefnan eða líberalisminn, með áherslu sína á frelsi einstaklingsins og frjáls viðskipti.

Á seinni hluta aldarinnar hafði fasisminn orðið undir og þá voru aðeins tvö kenningakerfi eftir: frjálslyndisstefnan og kommúnisminn.

Og undir lok aldarinnar, eftir hrun Berlínarmúrsins og fall Sovétríkjanna, var kommúnisminn afgreiddur og þá stóð frjálslyndisstefnan ein eftir sem trúverðugt leiðarljós mannkyns; leiðarljós sem allir myndu fyrr eða síðar fylgja. Það var aðeins talið tímaspursmál hvenær öll lönd tækju upp hennar merki. „Mannkynssögunni er lokið“ var sagt. „Frjálslyndisstefnan mun sigra og hún mun ríkja ein.“

Enda bar hún árangur og góðan ávöxt í formi sífellt betri lífskjara, öllum til handa. Framtíðin var björt og sífellt bjartari. Hver kynslóð myndi hafa það betra en sú næsta á undan. Árleg kaupmáttaraukning var náttúrulögmál. Þetta er nánast loforð líberalismans, eða hinnar klassísku frjálslyndisstefnu, sem byggir á einstaklingsréttindum John Lockes og hagfræði Adam Smiths.

En á allra síðustu árum, ekki síst eftir fjármálakrísuna 2008, hafa komið brestir í áður óhagganlega tiltrú manna á þessu leiðarljósi, eins og Harari bendir á. Sá grunur læðist að ákveðnum hópum að framtíðin sé ekki endilega björt og að frjálslyndisstefnan hafi ekki endilega lengur svör við áskorunum samtímans.

Fortíðarþrá er þannig í fyrsta sinn í langan tíma orðin allt að því ráðandi hugmyndafræði sums staðar, í stað bjartsýni á framtíðina. Beinlínis er hvatt til þess að klukkunni verði snúið við, fremur en að haldið verði áfram á þeirri braut sem hefur fært okkur þá miklu velmegun sem við búum við í dag.

Hér skulum við staldra við og líta á nýleg skilaboð frá Warren Buffett, í árlegu bréfi hans til hluthafa frá því fyrir nokkrum dögum. Hann gerði þar að umtalsefni ævintýralega verðmætasköpun Bandaríkjanna á sinni ævi. Hann benti á það, að sá sem hefði keypt hlutabréf í fullkomlega hlutlausum og óstýrðum sjóði stærstu fyrirtækjanna fyrir 77 árum – þegar hann sjálfur keypti sín fyrstu hlutabréf – og að ef sá einstaklingur hefði upp frá því varið öllum arðgreiðslum til kaupa á fleiri hlutabréfum í sama sjóði, þá stæði þessi einstaklingur í dag uppi með fimm þúsund og þrjú hundruð falda ávöxtun, á aðeins einum mannsaldri.

Með öðrum orðum þá væri ein milljón króna árið 1942 orðin að fimm komma þremur milljörðum í dag, án nokkurrar snilli eða sérfræðiaðstoð frá verðbréfaráðgjöfum, heldur eingöngu í krafti þess meðvinds sem felst í frjálsu framtaki.

Með þessu er ég ekki að fella dóma um hvort jöfnuður og velferð, skattar og skipting auðs séu með sanngjörnum hætti þar vestra eða ekki. Ég nefni þetta aðeins til að benda á þann mikla kraft til verðmætasköpunar sem hin klassíska frjálslyndisstefna hefur, og getur, leyst úr læðingi.

Nú mætti ætla að það þætti eitthvað spunnið í þá stefnu sem lagði grunninn að þessari gífurlegu verðmætasköpun, og að flestum þætti augljóst að rétt væri að halda áfram á sömu braut.

En þvert á móti virðist fortíðarþrá bera slík rök ofurliði. Margir virðast alls ekki samþykkja að Bandaríkjamenn séu betur staddir í dag en fyrir 77 árum. Fullyrt er að þeir hafi einhvern tímann í fortíðinni verið betur staddir en þeir eru í dag, þó að rökin fyrir því séu óljós. Þessari fortíðarþrá fylgja efasemdir um gildi frjálsra viðskipta og alþjóðasamskipta. Með öðrum orðum: tilhneiging til að einangra sig, jafnvel á bak við múra.

Og þetta eru ekki bara einhverjar jaðarhreyfingar í fáeinum löndum heldur hafa fulltrúar þessara viðhorfa unnið stóra kosningasigra í sjálfum höfuðvígjum hinnar klassísku frjálslyndisstefnu, Bandaríkjunum og Bretlandi.

Svo virðist sem það sé mögulegt að þessi lönd, og fleiri, hverfi í auknum mæli frá stuðningi við klassíska frjálslyndisstefnu og leiti í staðinn nýrra svara, mögulega í aukinni þjóðerniskennd og aukinni einangrun.

En hvað kemur þetta fjórðu iðnbyltingunni við?

Jú, fjórða iðnbyltingin mun nefnilega vekja enn fleiri og áleitnari spurningar um það hvort leiðarljós okkar í dag, hin klassíska frjálslyndisstefna, hafi ennþá svörin og geti tryggt okkur áframhaldandi bætt lífskjör, kynslóð fram af kynslóð.

Í nýrri skýrslu sem forsætisráðherra lét vinna um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna kemur fram, að meira en fjórða hvert starf á íslenskum vinnumarkaði telst mjög líklegt til að verða sjálfvirknivætt á næstu 10 til 15 árum, sem hefði bein áhrif á um 50 þúsund manns.

Að sjálfsögðu verða líka til ný störf, en líklegt er að stór hluti þeirra muni krefjast sérþekkingar sem óvíst er að þetta fólk muni hafa tækifæri til að tileinka sér.

Við þessum spám þarf augljóslega að bregðast, og höfundar benda á ýmislegt sem stjórnvöld, atvinnurekendur, verkalýðshreyfingin og einstaklingarnir sjálfir geta gert.

Fyrir utan þá áskorun að aðlaga þarf menntakerfið og þróun þess að þessum veruleika með að leggja áherslu á að efla dómgreind og hina skapandi og mannlegu þætti, er hitt meginverkefnið efling nýsköpunar.

Nýsköpunarstefna fyrir Ísland sem nú er í smíðum í mínu ráðuneyti er þess vegna eitt mikilvægasta verkefni þessarar ríkisstjórnar að mínu mati.

Aukin nýsköpun er ekki val, heldur nauðsyn.

Hún er stór hluti af svarinu við stærstu spurningunum sem við stöndum frammi fyrir.

Hún er forsenda áframhaldandi verðmætasköpunar og velsældar.

Þetta snýst ekki um val á milli nýsköpunar og einhvers annars.

Þetta snýst ekki um nýsköpun eða ferðaþjónustu, heldur nýsköpun í ferðaþjónustu.

Þetta snýst ekki um nýsköpun eða sjávarútveg, heldur nýsköpun í sjávarútvegi.

Þetta snýst ekki um nýsköpun eða virkjanir, heldur nýsköpun í orkuvinnslu og orkufrekum iðnaði.

Þetta snýst um nýsköpun í opinberri þjónustu, nýsköpun í heilbrigðisþjónustu, nýsköpun í menntun.

Og að sjálfsögðu nýsköpun af hálfu frumkvöðla sem búa til ný fyrirtæki, ný störf, ný verðmæti.

Ég hlakka til að kynna nýsköpunarstefnuna á næstu vikum. Leiðarljós hennar verða meðal annars: að eyðileggja ekki það sem við höfum nú þegar og virkar; að þykjast ekki vita það sem við vitum ekki; að falla ekki í þá gryfju að telja að einhverjar lausnir og leiðir séu endanlegar; og vitaskuld að beina kröftum okkar þangað sem þeir nýtast best.

Ríkisstjórnin hefur auðvitað ekki setið auðum höndum á meðan þessi vinna hefur átt sér stað.

Fyrir áramót var samþykkt að tvöfalda þakið á endurgreiðslum vegna rannsókna- og þróunarverkefna á vegum fyrirtækja. Það var gríðarlega mikilvægt skref sem gagnast sérstaklega okkar öflugustu nýsköpunarfyrirtækjum og stuðlar að því að halda rannsóknar- og þróunarverkefnum hér á landi fremur en að þau séu færð út fyrir landsteinana.

Ef við horfum á eldri og rótgrónari stoðir efnahagslífsins eins og orkuvinnslu, þá tóku væntanlega allir eftir metuppgjöri hjá Landsvirkjun í síðustu viku. Sá árangur tengist fjórðu iðnbyltingunni með beinum hætti því að ráðgert er að átak til eflingar nýsköpunar verði fjármagnað með hluta af arðgreiðslum Landsvirkjunar. Arðgreiðslurnar byggjast á sjálfsögðu á dýrmætum samningum við viðskiptavini fyrirtækisins, þar sem stóriðjan vegur langþyngst.

Sumum finnst eins og lítið sé að gerast í orkumálum um þessar mundir en þá er rétt að minna á að Landsvirkjun hefur virkjað tæplega 300 megavött með þremur ólíkum virkjunum á fáeinum árum. Aðrir framleiðendur hafa einnig umtalsverð áform á prjónunum sem eru mislangt komin.

Þá er rétt að vekja athygli á því að Landsnet vonast til að hefja á þessu ári framkvæmdir við verkefni sem munu kosta samtals 15 milljarða.

Ég nefndi það á ársfundi Samorku í gær og vil ítreka það hér, að einn stærsti gallinn við raforkumarkað okkar í dag er hinn mikli og sívaxandi munur á dreifikostnaði raforku milli þéttbýlis og dreifbýlis. Þetta er þýðingarmikið því að dreifikostnaðurinn er stærsti einstaki liðurinn á raforkureikningi hins almenna notanda. Hinn mikli munur á milli dreifbýlis og þéttbýlis er að mínu mati ekki ásættanlegur og gengur gegn almennt viðurkenndum meginreglum okkar samfélags um þokkalega jafnt aðgengi að innviðum á borð við samgöngur, fjarskipti og fleira. Þessu viljum við breyta og búumst við tillögum um það fljótlega.

Þessi ríkisstjórn var ekki síst mynduð um eflingu innviða og sterkara samfélag. Við erum að sækja fram í vegaframkvæmdum, við erum að ljúka ljósleiðaratengingu nánast alls landsins, við erum að styrkja heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið um milljarða á milljarða ofan, við erum að móta menntastefnu og nýsköpunarstefnu sem skipta munu höfuðmáli fyrir framtíð okkar samfélags, við erum að vinna gegn loftslagsvandanum þar sem við leggjum þunga áherslu á orkuskipti, við erum að setja jafnréttismál í forgang, og við erum að lækka skatta.

Stjórnin var líka mynduð um pólitískan stöðugleika, sem skiptir máli í svo mörgu tilliti, meðal annars fyrir samkeppnishæfni okkar og tiltrú fjárfesta.

Á dögunum var í fjölmiðlum fjallað um deyfð yfir stóriðjufjárfestingum. Sjónarhornið í þeirri umfjöllun var of þröngt að mínu mati. Frá hruni hafa engin einstök fyrirtæki varið eins miklu í fjárfestingar og stóriðjufyrirtæki. Fjárhæðirnar skipta tugum milljarða. Í öðru lagi höfum við séð mikla erlenda fjárfestingu á öðrum sviðum, meðal annars í fiskeldi en líka í tæknigeiranum, þar sem salan á CCP er stærsta en alls ekki eina dæmið.

Kæru gestir

Yfirvofandi átök á vinnumarkaði varpa skugga á okkar stöðu. Þau eru ískyggileg hindrun sem getur hæglega tafið okkur og jafnvel fært okkur af leið, að minnsta kosti um tíma.

Við þurfum þó öll – bæði stjórnvöld, fyrirtæki, launafólk og aðrir – að gefa okkur tíma til að horfa líka lengra fram á veginn, þar sem aðrar og jafnvel enn stærri áskoranir bíða.

Ætlum við að verja hið verðmætaskapandi leiðarljós okkar, hina klassísku frjálslyndisstefnu, með áherslu sína á almenn réttindi, einstaklingsfrelsi, viðskiptafrelsi og alþjóðasamvinnu?

Til að svo megi verða þurfum við að vera vel vakandi fyrir því, að hin ótrygga framtíð og óvissa sem fjórða iðnbyltingin kann að bera í skauti sér kann að kynda undir fortíðarþrá og einangrunarhyggju, eins og sums staðar er nú þegar farið að gerast.

Harari bendir réttilega á það í bók sinni, að frjálslyndisstefnan hefur verið eins langlíf og þrautseig og raun ber vitni meðal annars vegna þess að hún hefur lagað sig að gagnrýni þeirra hugmyndakerfa sem sótt hafa að henni. Einstaklingsréttindin, sem í upphafi stefnunnar voru hreint ekki almenn heldur fyrst og fremst afmörkuð við efnaða hvíta karla í Vestur-Evrópu, hafa þannig smám saman verið látin ná til alls mannkyns. Og fallist hefur verið á það að velferðarkerfi og jöfnuður séu æskileg markmið upp að vissu marki.

Að mínu mati þurfum við einnig í dag að vera reiðubúin til að hlusta á þær raddir sem finnst vanta skýrari svör við nýjum spurningum samtímans. Það væru mistök að skella skollaeyrum við þeim. Markmið okkar á alls ekki að vera að úthýsa þeim og útrýma heldur að hlusta á þau, reyna að skilja þau og koma til móts við þau að því marki sem við teljum mögulegt og raunhæft, eins og hin klassíska frjálslyndisstefna hefur áður gert.

Að sinna þessu og búa okkur undir framtíðina er mikilvægasta verkefni okkar í dag, að mínu mati.

Samtök iðnaðarins hafa lagt gott lóð á vogarskálarnar í þessu verkefni. Nægir þar að nefna nýlega nýsköpunarstefnu samtakanna og þingið sem haldið var um hana fyrir um mánuði síðan, sem mér var sönn ánægja að taka þátt í. Þessi dýrmæta vinna Samtaka iðnaðarins nýtist að sjálfsögðu vel í þeirri vinnu við mótun nýsköpunarstefnu sem er á lokametrunum þessar vikurnar.

Mér finnst það líka lýsandi fyrir þá staðreynd að einstaklingsréttindin ná nú ekki eingöngu til efnaðra hvítra karla, sem og við hæfi að minnast á í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna á morgun, að þetta Iðnþing hefur fengið Jafnréttisstimpil Kvenna í orkumálum. Mér finnst í öllu falli einstaklega ánægjulegt að taka þátt í slíkum viðburði – og það gefur mér von um að framtíðin getur verið björt ef við pössum okkur að fara vel með verðmætin okkar, stór og smá, efnisleg og huglæg.

Kæru gestir, ég ítreka hamingjuóskir mínar til samtakanna í tilefni af tuttugu og fimm ára afmælinu og hlakka til að eiga áfram gott samstarf við ykkur.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta