Ræða Kristjáns Þórs Júlíussonar á aðalfundi sauðfjárbænda, 4. apríl 2019
Ágætu sauðfjárbændur.
Frá því ég ávarpaði aðalfund ykkar fyrir ári síðan hefur margt gerst í íslenskri sauðfjárrækt. Helst ber auðvitað að nefna endurskoðun samnings um starfsskilyrði sauðfjárræktar en á fundinum fyrir ári tilkynnti ég ykkur að ég hefði beint þeim tilmælum til samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga að hraða vinnu varðandi þann samning enda væri hann að mínu mati ekki brúklegur í óbreyttri mynd í ljósi þeirrar stöðu sem blasti við greininni. Síðastliðið sumar tók ég síðan í samráði við Bændasamtökin ákvörðun um að flýta viðræðum um endurskoðun hans. Samningaviðræðurnar stóðu út árið. Þar var tekist á – oft harkalega en alltaf málefnalega. Og þrátt fyrir að bæði stjórnvöld og bændur hafi að einhverju leyti haft uppi mismunandi sýn á mögulegar lausnir að þá voru báðir aðilar sammála og einhuga um þau úrlausnarefni sem blöstu við. Hvernig snúum við íslenskri sauðfjárrækt úr vörn í sókn? Hvernig tryggjum við bændum meira frelsi og stuðlum að auknum stöðugleika í greininni?
Í janúar síðastliðnum var síðan skrifað undir samkomulag sem tekur með markvissum hætti á þessum úrlausnarefnum. Markmið þess er einmitt að stuðla að auknu jafnvægi framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir, auka frelsi sauðfjárbænda og að auðveldara verði að takast á við sveiflur í ytra og innra umhverfi greinarinnar. Lögð er áhersla á að auðvelda aðlögun að breyttum búskaparháttum eða nýrri starfsemi með sérstökum aðlögunarsamningum. Þá var gerð sérstök bókun við samkomulagið þess efnis að aðilar væru sammála um að mikilvægt þyki að ná fram aukinni hagræðingu í starfsemi í greininni og kannað verði hvort sláturleyfishafar geti átt samstarf um afmarkaða þætti í starfsemi sinni. Ljóst er að Samkeppniseftirlitið getur veitt undanþágu til samstarfs fyrirtækja á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga, að vissum skilyrðum uppfylltum. Eðlilegur farvegur þessa máls er að fyrst verði þessi leið könnuð til þrautar og í kjölfarið tekin ákvörðun um næstu skref.
Ég tel að þetta samkomulag muni styrkja grundvöll íslenskrar sauðfjárræktar og ítreka hér ánægju mína með það. Ég er jafnframt ánægður með mikinn stuðning ykkar við það þar sem það var samþykkt með 68 prósent greiddra atkvæða. Sú samstaða í ykkar hópi í þessu stefnumarkandi máli er mjög mikilvæg.
Ágætu gestir.
Áður en gengið var til þessara samningaviðræðna síðastliðin haust hélt ég til fundar við ykkur sauðfjárbændur. Á þeim níu fundum um allt land fékk ég tækifæri til að hitta rúmlega 600 bændur og vil ég þakka ykkur kærlega fyrir gagnlegar og hreinskiptar umræður á þeim fundum. Það er mikils virði fyrir mig að taka slíka fundi - kynnast milliliðalaust upplifun ykkar og mati á því sem við er að eiga. Heyra álit ykkar á mögulegum leiðum til að gera betur - og ekki síður veita ykkur færi á því að láta ráðherrann heyra það. Mörg ykkar hitti ég einnig á fundarferð minni um landið núna í febrúar og mars til að ræða frumvarp um innflutning á meðal annars ófrystu kjöti sem þá var í samráðsgátt stjórnvalda en hefur nú verið lagt fram á Alþingi.
Hér í dag ætla ég ekki að fara yfir forsögu þessa máls – hana þekkið þið mætavel. Þetta tækifæri vil ég hins vegar nýta til að fara yfir aðgerðaáætlun sem lögð verður fram samhliða framlagningu frumvarpsins á Alþingi og miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu.
Í aðgerðaáætluninni sem kynnt var þegar frumvarpið fór í samráðsgátt voru 12 aðgerðir. Meðal annars um viðbótartryggingar vegna kjúklinga- og kalkúnakjöts og eggja, ráðstafanir varðandi kampýlóbakter, áhættumatsnefnd og fræðslu til ferðamanna. Eftir fundi mína um allt land og eftir yfirferð þeirra umsagna sem komu í samráðsgátt hef ég ákveðið að bæta þremur aðgerðum við þessa áætlun og vil ég nýta þetta tækifæri til að fara yfir þær.
Í fyrsta lagi kemur núna skýrlega fram að óskað verður eftir viðbótartryggingum vegna svína- og nautakjöts en vinna við þetta er nú í forgangi hjá Matvælastofnun. Þessu atriði fylgdi ég sérstaklega eftir á fundi mínum með Eftirlitsstofnun EFTA í síðustu viku.
Í öðru lagi er bætt við aðgerðaáætlunina að þróun tollverndar og greining á stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart breytingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi verði tekin til sérstakrar skoðunar. Þetta er í samræmi við tillögu sem kom fram í skýrslu starfshóps um tollasamning og nýjar aðbúnaðarreglugerðir sem skilað var til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra árið 2016. Sú vinna sem ætlum að leggja í gengur raunar lengra, enda tekur hún einnig til skoðunar þróun tollverndar.
Loks er í þriðja lagi verið að bregðast við ábendingum sem fram komu um að ekki sé til staðar tryggingasjóður sem bændur gætu leitað til vegna mögulegs tjóns á búfé. Í því samhengi er rétt að árétta það sem fram kemur í ráðgjöf yfirdýralæknis og sóttvarnalæknis vegna frumvarpsins en þau telja að afnám frystiskyldunnar muni hafa lítil áhrif á dýrasjúkdóma hér á landi og aðgerðaáætlunin muni minnka áhættuna. Þrátt fyrir það hyggst ráðuneytið taka til skoðunar hvort forsendur séu fyrir því að slíkur sjóður verði settur á fót.
Með þessum aðgerðum er verið að bregðast við þeim ábendingum sem fram hafa komið og ég vonast eftir uppbyggilegu samstarfi við bændur um framgang þessara aðgerða sem annarra enda felast í þeim mikil tækifæri.
Ég segi hins vegar við ykkur að í þessu máli snýr stærsta verkefnið að því að draga fram óumdeilda kosti innlendrar matvælaframleiðslu umfram það sem innflutt er og stuðla þannig að því að íslenskar vörur verði fyrsti kostur allra neytenda. Við snúum þannig vörn í sókn. Ég er sannfærður um að með samstilltu átaki stjórnvalda og bænda mun þetta takast. Það mun ekki stranda á stjórnvöldum í þeirri baráttu. Þarna er tækifæri til þess að gera mun betur en nú er gert, tækifæri til þess að gera framleiðsluna okkar hærra undir höfði.
Ágætu gestir.
Í þessu sambandi vil ég minnast á verkefni sem ráðuneyti mitt mun setja í algjöran forgang næsta árið að minnsta kosti. Það snýr að átaki um betri merkingar matvæla en líkt og þið vitið var í síðasta mánuði undirritað samkomulag milli mín, Bændasamtaka Íslands, Neytendasamtakanna, Félags atvinnurekenda, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka iðnaðarins um að gera gangskör í því að bæta merkingar á matvælum og tryggja þannig betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif þeirra. Nú þegar hefur átt sér stað ákveðin vinna í mínu ráðuneyti varðandi hina svokölluðu Finnsku leið og mun því verða fylgt eftir í samráðshópnum. Allt er þetta í samræmi við sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þá má nefna hér að ég hef fengið Oddný Önnu Björnsdóttur, sem mörg ykkar kannist við, til að leiða þetta verkefni og mun hún koma í tímabundið starf hjá ráðuneytinu vegna þessa. Þá mun samráðshópurinn hafa sérstakan
starfsmann. Samandregið segi ég við ykkur: þessu verkefni verður fylgt eftir af fullum þunga.
Ágætu gestir.
Öllum er okkur ljós sú ógn sem stafar af útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Stjórnvöld hafa undanfarið lagt ríka áherslu á þennan málaflokk og hefur Matvælastofnun fengið fjárheimildir til vöktunar sýklalyfjaónæmis í matvælum og dýrum. Fréttir frá því í síðasta mánuði úr skýrslu Matvælastofnunar eru önnur áminning um þessa hættu en þar kemur meðal annars fram að sýklalyfjaónæmar bakteríur hafi greinst í íslensku sauðfé. Við höfum fram til þessa lifað í þeirri trú að ekkert væri athugunarvert í íslensku búfénaði og ástæðan fyrir því er einföld – svo lengi sem ekki er leitað að þá finnst ekkert.
Umræðan um sýklalyfjaónæmi hefur helst verið rædd í því samhengi að núgildandi frystiskylda sé einhvers konar vopn í þeirri baráttu. Ég tek undir þau orð yfirdýralæknis í fjölmiðlum í síðasta mánuði að sú umræða hafi verið á miklum villigötum enda hefur frystiskyldan hefur engin áhrif á sýklalyfjaónæmar bakteríur. Því breyti engu hvort kjöt sé ferskt eða frosið með tilliti til sýklalyfjaónæmis.
Varðandi þá vinnu sem nú stendur yfir í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería vil ég nefna að sem heilbrigðisráðherra, árið 2016, tók ég þá ákvörðun að skipa starfshóp sem hafði það hlutverk að koma með tillögur að eftirliti með sýklum og sýklalyfjaónæmi í ferskum matvælum. Tillögum starfshópsins var ætlað að leggja lóð á vogarskálarnar við að stemma stigu við útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería hér á landi.
Árið 2017 skilaði starfshópurinn til þáverandi heilbrigðisráðherra tíu tillögum að aðgerðum sem miðuðu að því að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmi. Í síðasta mánuði undirrituðu síðan ég og heilbrigðisráðherra yfirlýsingu þess efnis að þær tillögur marka nú opinbera stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki. Sem sagt – Íslensk stjórnvöld eru nú komin með opinbera stefna í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Það er í mínum huga mjög stórt en um leið mjög tímabært skref. Stýrihópur beggja ráðuneyta mun hafa það hlutverk að framfylgja þeirri stefnu og hefur hann þegar fundað fjórum sinnum.
Ágætu gestir.
Í lok janúar síðastliðnum samþykkti ríkisstjórnin tillögu okkar umhverfisráðherra um ramma að samstarfsverkefni við sauðfjárbændur um loftslagsvænni landbúnað en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um slíkt verkefni. Samþykkt var að verkefnið yrði þróað á árinu og framkvæmd þess falin Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins í samstarfi við Landgræðsluna, Skógræktina og sauðfjárbændur. Í verkefninu felst að þróuð verður heildstæð ráðgjöf og fræðsla fyrir bændur um hvernig þeir geta dregið úr losun og aukið bindingu á búum sínum. Gert er ráð fyrir að bændur vinni áætlanir fyrir bú sín þar sem tilteknar eru aðgerðir sem m.a. geta falist í samdrætti í losun frá búrekstri og landi og/eða bindingu kolefnis. Stefnt er að fullri innleiðingu verkefnisins árið 2020.
Ágætu sauðfjárbændur.
Ég vil nýta þetta tækifæri til að hvetja ykkur til að styrkja og hlúa að sambandi ykkar við neytendur en í því felst mikill ávinningur fyrir íslenska sauðfjárbændur til lengri tíma, ekki hvað síst á tímum vaxandi samkeppni. Þá vil ég skora á ykkur að huga að samskiptum ykkur og samstarfi við forsvarsmenn íslenskrar verslunar. Þannig kom fram á morgunfundi sem ég stóð fyrir í október síðastliðnum um leiðir til auka verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði að stjórnarformaður næst stærstu matvöruverslunar landsins sagði að á sínum 25 árum í rekstri væri hægt að telja fjölda þeirra bænda sem hefðu leitað til hans á fingrum annarrar handar. Þarna þarf að gera betur – virkja þetta mikilvæga samtal. Þau samskipti sem birtast á opinberum vettvangi eru á stundum með þeim hætti að þar ræðist við aðilar með andstæða hagsmuni þegar hið gagnstæða er að sjálfsögðu raunin.
Ég vil hér að lokum hvetja ykkur til dáða í þeim verkefnum sem fram undan eru og ítreka sem fyrr vilja minn til uppbyggilegs samstarfs um þau enda hef ég óbilandi trú á framtíð íslenskrar sauðfjárræktar. Með samstilltu átaki stjórnvalda og bænda er okkur allir vegir færir.
Loks vil ég nýta þetta tækifæri og þakka Oddný Steinu Valdsdóttir, fráfarandi formanni, fyrir ánægjulegt samstarf undanfarið eitt og hálft ár. Að svo mæltu óska ég ykkur heilla í störfum hér á fundinum.