Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á ársfundi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, 3. maí 2019
Kæru fundargestir
Það er vel við hæfi að halda ársfund Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands hér á þessum fallega degi á Akureyri og vekja þannig athygli á því góða starfi sem hér fer fram á sviði nýsköpunar, bæði undir merkjum Nýsköpunarmiðstöðvarinnar og einnig meðal frumkvöðla og fyrirtækja hér á Norðurlandi.
Við horfum fram á miklar breytingar í samfélagi okkar og umhverfi í náinni framtíð og við erum sífellt að leita leiða til að nýta okkur þær breytingar á skynsaman hátt. Í nýlegri könnun meðal almennings, sem gerð var á vegum Vísinda og tækniráðs, var spurt hverjar væru helstu samfélagslegu áskoranir okkar á næstu árum. Og svörin voru á þá leið, að í fyrsta lagi væru það loftslagsbreytingar, í öðru lagi heilsa og velferð þjóðarinnar og í þriðja lagi örar tæknibreytingar í heiminum. Þetta eru allt saman málefni sem snerta okkar daglega líf og þetta eru allt saman málefni þar sem við þurfum á öflugri nýsköpun að halda. Efling nýsköpunar er því ekki bara eitthvað sem við tölum um á hátíðarstundum, hún er einfaldlega nauðsynleg til að við náum að halda uppi góðu og samkeppnishæfu samfélagi á komandi árum.
Við merkjum áhrif loftslagsbreytinganna sífellt betur á eigin skinni og umræðan um þær breytingar fer stöðugt vaxandi. Rithöfundurinn Steinunn Sigurðardóttir hvatti reyndar til þess á dögunum, að við skiptum út orðinu loftslagsbreytingar og færum frekar að tala um “hamfarahlýnun af mannavöldum”, til að lýsa þeirri miklu vá sem við nú stöndum frammi fyrir. Og einmitt hér þurfum við á öflugri nýsköpun að halda. Við þurfum að draga fram og styðja við grænar tæknilausnir, ýta undir öflugt hringrásarhagkerfi og leitast við að ná fram hagvexti á sjálfbæran hátt, hvort sem er í ferðamennsku, sjávarútvegi, iðnaði eða öðrum sviðum þjóðfélagsins. Við þurfum að vinna saman að þessu markmiði - stjórnvöld, almenningur og fyrirtæki og einnig stofnanir, eins og Nýsköpunarmiðstöð. Það er í því sambandi ánægjulegt að fylgjast með því hversu mörg af verkefnum Nýsköpunarmiðstöðvar eru einmitt í þágu grænna tæknilausna og munu einhver þeirra verkefna verða kynnt hér á fundinum í dag.
Heilbrigðismál og velferð eru líka ofarlega í huga okkar og við erum öll sammála um mikilvægi þess að halda uppi góðri velferðarþjónustu fyrir alla landsmenn - á pari við það sem gerist best hjá nágrannaþjóðum. Á sama tíma fer meðalaldur þjóðarinnar hækkandi og það verða sífellt færri vinnandi hendur á bak við þann samfélagslega kostnað sem fylgir öflugu velferðarkerfi. Í stað þess að einblína á sífellda stækkun slíks kerfis og þar með aukna skattbyrði, verðum við skoða alla möguleika nýsköpunar og snjallra tæknilausna í þágu heilbrigðis og velferðar. Þetta er í mínum huga algjört grundvallaratriði.
Við höfum ýmis tækifæri á þessu sviði hér á okkar litla landi og Nýsköpunarmiðstöð er að leggja sín lóð á vogarskálarnar í þessum málefnum, meðal annars í samstarfi við Nordic Innovation sjóðinn á Norðurlöndum. Það má líka nefna að hér á Akureyri eru fyrirtæki eins og Þula Norrænt hugvit að koma fram með nýjar hugbúnaðarlausnir, einmitt til að lækka kostnað hins opinbera í velferðarþjónustu.
Mig langar líka að koma inn á hinar hröðu tæknibreytingar sem svo sannarlega eru farnar að hafa áhrif á okkar daglega líf. Hugtök á borð við gervigreind og internet hlutanna, sem áður hljómuðu eins og vísindaskáldskapur, eru nú farin að hafa áhrif á það hvernig við vinnum, verslum, ferðumst og eigum samskipti hvert við annað. Það er mikilvægt fyrir samkeppnisstöðu okkar litlu þjóðar að við tökum virkan þátt í þeim tæknibreytingum sem eiga sér stað í heiminum - á sama tíma viljum við ekki tapa þeim einkennum, þeim menningarverðmætum og þeim gildum sem við búum að sem þjóð.
Við þurfum þannig að passa upp á að hraðar tæknibreytingar leiði ekki til aukinnar aðgreiningar í samfélaginu og því er til dæmis þátttaka landsbyggðarinnar í nýsköpun sérlega mikilvæg. Hér hefur Nýsköpunarmiðstöð hlutverki að gegna, með sinni starfsemi víðsvegar um landið. Við skulum leitast við að beina tæknibreytingunum í þá átt að þróunin þjóni okkur en ekki við henni. Og að ávinningurinn og auðurinn af tæknibreytingunum verði til þess að lyfta öllum en ekki bara örfáum.
Kæru fundargestir, ég hef hér á undan nefnt nokkur dæmi um málefni og áskoranir þar sem nýsköpun hefur mikla þýðingu. Í öllum þeim nýsköpunarverkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur, hvort sem er á Nýsköpunarmiðstöð eða á öðrum vettvangi, þurfum við sífellt að spyrja þeirrar spurningar, hverju verkefnin séu að skila í þágu samfélags og atvinnuþróunar og hvort við séum að beita réttum aðferðum til að ná settu marki hverju sinni. Það skiptir máli að stjórnvöld styðji myndarlega við nýsköpun í landinu og það er ekki síður lykilatriði að sá stuðningur nýtist á skilvirkan hátt í þágu frumkvöðla, fyrirtækja og stofnanna á þessu sviði. Við þurfum að vera opin fyrir nýjum hugmyndum og tryggja opna umræðu um áherslur. Við þurfum að sjá til þess að vinnuferlar séu einfaldir og gagnsæir og regluverkið veiti mátulegt aðhald, án þess að vera hamlandi fyrir frumkvöðlastarf og uppbyggingu atvinnulífs. Hér getum við gert betur og þessir þættir eru einmitt meðal þess sem við viljum ná fram í okkar nýsköpunarstefnu.
Nýsköpun snýst að miklu leyti um hugarfar og því skulum við virkja hugmyndir og sköpunarkraft í bland við gagnrýna hugsun og þekkingarleit. Þjálfun í frumkvöðlamennsku þarf að vera hluti af skólastarfinu okkar og í því sambandi er ánægjulegt að fylgjast með nýsköpunarkeppni grunn- og framhaldskólanna sem Nýsköpunarmiðstöð heldur utan um – sem og með því starfi sem fram fer í stafrænum smiðjum og frumkvöðlasetrum víðsvegar um landið. Við skulum halda áfram á þessari braut og sérstaklega skulum við virkja okkar unga fólk til góðra verka. Það eru þau sem munu erfa landið og koma fram með svörin við þeim viðfangsefnum sem við náum ekki að leysa með þekkingu okkar og hugviti í dag. Þau svör verða eflaust sum hver öðruvísi en okkar, hugsuð á annan hátt og lausnirnar koma kannski úr óvæntum áttum. Þess er mikilvægt að við höfum augu og eyru opin og séum tilbúin að treysta þeim.
Ég óska ykkur til hamingju með daginn og hlakka til að fylgjast með áhugaverðri dagskrá hér á eftir.
Takk fyrir mig.