Ávarp Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur á kynningu um sviðsmyndagreiningu KPMG fyrir ferðaþjónustuna
Ávarp Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur ráðherra
á opnum streymisfundi Ferðamálastofu, Stjórnstöðvar ferðamála og KPMG
28. október 2020
um sviðsmyndir í ferðaþjónustu með hliðsjón af Covid (greining KPMG)
Ágætu gestir
Ég vil byrja á að þakka Ferðamálastofu, Stjórnstöð ferðamála og KPMG fyrir að standa fyrir þeirri sviðsmyndagreiningu fyrir ferðaþjónustuna sem hér verður kynnt. Greiningin er mikilvægt innlegg í þá umræðu sem hefur átt sér stað á milli stjórnvalda og atvinnugreinarinnar undanfarið hálft ár um áskoranir Covid-faraldurins og auðvitað líka fyrir okkur að hafa til hliðsjónar þegar við erum að ræða frekari aðgerðir og allar ákvarðanir sem við tökum.
Stjórnvöld hafa lagt áherslu á þrennt í sinni nálgun, bæði gagnvart ferðaþjónustu og öðrum: Í fyrsta lagi að viðbrögðin séu eins hröð og mögulegt er. Í öðru lagi að þau séu eins viðamikil og umfangsmikil og við getum mögulega réttlætt. Og í þriðja lagi að þau séu sífellt til endurskoðunar í samræmi við þróun mála, sem hefur verið ófyrirsjáanleg eins og við öll vitum.
Auðvitað er síðan alltumlykjandi forgangsatriði að hemja útbreiðslu faraldursins til að verja líf og heilsu og sem eðlilegasta virkni samfélagsins okkar.
Það er mikilvægt að allir geri sér ljóst að ferðaþjónustan gegndi lykilhlutverki við að reisa efnahagslíf okkar við fyrir tæpum áratug og skapa í kjölfarið eitt lengsta hagvaxtarskeið lýðveldissögunnar. Fjöldi ferðamanna fjórfaldaðist á örfáum árum sem styrkti gjaldmiðil okkar, jók kaupmátt, fjölgaði störfum og bætti lífskjör okkar allra.
Vöxtur útflutnings og kaupmáttar skilaði sér í aukinni neyslu og fjárfestingu. Hagvöxtur var meiri hér á þessu tímabili en í flestum vestrænum ríkjum, sem líklega má einkum rekja til blómlegrar ferðaþjónustu. Hún skapaði líka þriðja hvert nýtt starf sem varð til á Íslandi á tímabilinu 2015-2019.
Ferðaþjónustan lagði í fyrra um 8% til landsframleiðslu okkar, sem er mjög hátt hlutfall í alþjóðlegu samhengi. Ekkert Norðurlandanna reiðir sig jafnmikið á ferðaþjónustu og við. Norðmenn koma næstir með helmingi lægra hlutfall. Mikilvægi greinarinnar er enn meira þegar horft er á vinnumarkaðinn. Hvergi innan OECD var á liðnum árum hærra hlutfall starfa í ferðaþjónustu en á Íslandi.
Óbein jákvæð áhrif greinarinnar eru líka mikilvæg. Dæmi um þau er hinn mikli fjöldi áfangastaða sem Íslendingum stendur alla jafna til boða í alþjóðaflugi. Góðar flugsamgöngur gegna líka mikilvægu hlutverki í vöruflutningum og stuðla að auknum viðskiptatengslum og eru líka partur af okkar sjálfsmynd. Við höfum lagt gríðarlega mikið á okkur til að byggja þær upp. Byggðaáhrifin eru annað dæmi. Ferðaþjónustan hefur stuðlað að mikilli grósku víða um land, skapað atvinnutækifæri og fjölbreyttari þjónustu, menningu og afþreyingu, sem eykur ekki bara lífskjör heldur lífsgæði.
Óhætt er að fullyrða að Covid-faraldurinn hefur bitnað meira á ferðaþjónustu en öðrum atvinnugreinum, þetta vitum við öll. Tekjur hennar hafa nánast horfið í einni svipan. Fjögur af hverjum fimm störfum sem höfðu tapast á Íslandi um mitt ár, miðað við sama tíma í fyrra, voru í ferðaþjónustu, eða um 10.500 af alls 13.500.
Á sama tíma og réttilega var kallað eftir sértækum aðgerðum fyrir greinina var því ljóst að ferðaþjónustan átti kost á að nýta umtalsverðan hluta af því fjármagni sem stjórnvöld hafa þegar sett í almennar mótvægisaðgerðir, í samræmi við sína erfiðu stöðu. Við þekkjum þessar aðgerðir: hlutabótaleið, greiðslur á uppsagnarfresti, greiðslur til starfsmanna í sóttkví, stuðningslán, frestun á opinberum gjöldum og svo framvegis, auk greiðsluskjóls og annarra úrræða.
Þessi úrræði hafa verið misjafnlega mikið nýtt, og kannski síst þau sem fela í sér aukna skuldsetningu eða geta talist einhvers konar neyðarúrræði. Vísbendingar úr fjármálakerfinu eru á þá leið að ástæðan sé mögulega sú að staða margra fyrirtækja kalli ekki ennþá á að þau þurfi að nýta sér þessi úrræði. Önnur sjá ekki hag sinn í að skuldsetja sig enn frekar á meðan við erum ennþá í þessari þoku og vitum ekki hvenær viðspyrnan hefst. Við vitum að staða fyrirtækja er mjög mismunandi og í raun er kannski ekki hægt að tala um ferðajónustuna sem eina atvinnugrein því að hún er auðvitað margar undir-atvinnugreinar, þar sem staðan er vissulega misjöfn. Að því marki sem það er rétt að staða fyrirtækjanna kalli ekki ennþá á ofangreind úrræði er það auðvitað jákvætt, þó að við séum líka öll meðvituð um að staða flestra fer nú versnandi með hverri vikunni sem líður.
Til viðbótar við almennar aðgerðir höfum við komið með sértækar aðgerðir í þágu ferðaþjónustunnar. Stærsta markaðsátak sögunnar á erlendum vettvangi er hafið, og þó að það sé í biðstöðu núna vakti upphafið á því fyrr á árinu fordæmalausa athygli erlendis, þó að aðeins sé búið að verja um einum fimmta af ráðstöfunarfénu. Við höfum líka farið í önnur verkefni eins og samningur átaksins við Iceland Airwaves er gott dæmi um og við reynum að hugsa út fyrir kassann í þessu.
Við réðumst líka í viðamikið átak til að hvetja og styðja Íslendinga til að ferðast innanlands, og höfum sett aukið fjármagn í framkvæmdir á ferðamannastöðum.
Fleiri aðgerðir mætti nefna, eins og stofnun ferðaábyrgðasjóðs til að koma til móts við þá aðila innan ferðaþjónustunna.
Ég treysti mér til að fullyrða að við höfum ekki hundsað neinar hugmyndir um mótvægisaðgerðir, og í raun koma mér ekki í hug margar sértækar aðgerðir í þágu ferðaþjónustunnar sem hafa verið nefndar til sögunnar í umræðunni, sem eru ekki annað hvort komnar til framkvæmda í einhverri mynd eða eru til alvarlegrar skoðunar.
Þá má ekki gleyma aðkomu ríkisins að því að styrkja stöðu Icelandair, sem er kannski mikilvægasta fyrirtæki íslenskrar ferðaþjónustu. Í því máli endurspeglaðist vel sú sýn okkar að allir verða að leggjast á eitt. Ríkissjóður getur ekki borið Covid-viðbrögðin einsamall. Allir hafa hlutverki að gegna; fyrirtækin, hluthafar, fjármálakerfið og að sjálfsögðu líka ríkið.
Ég nefndi áðan að það hefur verið útgangspunktur hjá ríkisstjórninni að viðbrögðin þurfi að vera til sífelldrar endurskoðunar með hliðsjón af þróun mála. – Það sem við töldum í mars og apríl að myndi duga, og smíðuðum skilyrði með tilliti til þess að staðan núna yrði allt önnur en hún er, er í vaxandi mæli ljóst að mun ekki duga vegna þess hve faraldurinn hefur dregist á langinn. Þess vegna höldum við áfram að skoða fýsileika þess að ráðast í frekari aðgerðir en ekki síður að endurskoða þær fyrri og mögulega framlengja þær eða fínstilla einhver skilyrði eða annað sem felst í þeim aðgerðum til að þær virki sem skyldi.
Til marks um þetta var nýlega kynnt til sögunnar frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um tekjufallsstyrki til einyrkja og lítilla fyrirtækja með allt að 3 starfsmenn. Það hefur ekki komið fram áður en við höfum nú látið KPMG greina að hvaða marki þessir styrkir geti nýst aðilum í ferðaþjónustu. Niðurstaðan er sú, að að því gefnu að allir styrkhæfir aðilar í ferðaþjónustu uppfylli skilyrði styrkjanna þá geti umfangið á styrkjum til þeirra numið allt að 3,5 milljörðum króna. Hámarksstyrkur til hvers og eins getur numið 400 þúsund krónum á mánuði fyrir allt að þrjá starfsmenn í sex mánuði, eða samtals tæplega 7,2 milljónum króna. Þannig að þetta er nýtt úrræði sem gagnast ákveðnum hluta ferðaþjónustunnar.
Fleiri aðgerðir hafa verið til skoðunar með hliðsjón af þróun mála, ekki síst til að stuðla að því að greinin verði sem best í stakk búin til að taka við sér á ný, til þess að viðspyrnan geti verið öflugri, og yrði þá í raun skilgreind sem efnahagsaðgerð, fjárfesting til þess að komast hraðar af stað. Því við erum auðvitað að veðja á það að ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem getur hratt og vel skilað okkur hagvexti, gjaldeyristekjum, störfum og svo framvegis.
Þá er verið að athuga með ýmsa möguleika á móttöku fólks, svo sem að viðurkenna Covid-skimun frá heimalandi, taka upp hraðskimun og mögulegt fyrirkomulag við að taka á móti fólki með öruggum hætti um leið og aðstæður leyfa. Þessi vinna skiptir miklu máli, að henni sé hraðað og niðurstaða komist í hana, því þetta getur haft töluvert mikil áhrif.
Við skulum hafa í huga að allar þessar aðgerðir eru ákveðnar í algjörri óvissu um hver þróun mála verði á næstu mánuðum. Með hliðsjón af því finnst mér almennt hafa vel tekist til og ríki og stjórnvöld hafa hreyft sig hratt, þrátt fyrir að einhverjar hindranir hafi orðið á leiðinni.
Þegar rætt er um fleiri sértækar aðgerðir finnst mér stundum aðeins vanta í umræðunni að við afmörkum viðfangsefnið. Fyrirtæki í ferðaþjónustu eru af mjög ólíkum toga og þau glíma við ólíkan vanda. Hótelkeðja í Reykjavík er ekki í sömu stöðu og lítið fjölskyldufyrirtæki í afþreyingu, svo að dæmi sé tekið. Við þurfum að passa í þessari umræðu, bæði þegar við fjöllum almennt um stöðuna og frekari aðgerðir, að setja ekki alla undir sama hatt, af því að allir glíma við sínar sérstöku áskoranir.
Góðir áheyrendur
Það dylst auðvitað engum að áherslur stjórnvalda beinast nú mjög að nýsköpun. Á sama tíma er ljóst að þegar aðstæður leyfa verður ferðaþjónustan sú atvinnugrein sem er líklegust til að skapa störf og styðja við eftirspurn. Þannig að við heilt yfir höfum tröllatrú á ferðaþjónustunni og ég efast ekki um það í eina mínútu að við munum byggja upp mjög sterka og eftirsóknarverða ferðaþjónustu á Íslandi þegar þessum tíma lýkur. Ég er alveg handviss um það. Við ætlum okkur að gera það. Við erum nú þegar búin að búa til stefnuramma fyrir íslenska ferðaþjónustu með greininni og sveitarfélögunum og hann stendur. Þar er sýnin mjög skýr og það eru jafnvel enn frekari tækifæri í mörgum þeirra þátta eftir Covid.
Þannig að við ætlum að vera tilbúin í nýja sókn þegar þar að kemur.
Þegar spurt er hvort við ætlum að vera með sömu áherslur í ferðaþjónustu og áður þá er það alveg eðlileg spurning.
Í fyrsta lagi skulum við hafa hugfast að Ísland er miklu betur í stakk búið núna til að taka við örum vexti ferðaþjónustunnar, heldur en við vorum fyrir nokkrum árum. Við höfum sett milljarða í að bæta innviði á fjölmörgum stöðum, meðal annars í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða. Bara frá árinu 2015 höfum við sett rúma 4 milljarða í Framkvæmdasjóðinn og tæpa 3 milljarða í Landsáætlunina. Allir sem ferðast um landið hafa auðvitað orðið varir við þetta.
Sýnin sem við unnum fyrir Covid stendur algjörlega óhögguð að mínu mati.
Markvissari stýring er á dagskrá og það skiptir máli. Nýlegir samningar Vatnajökulsþjóðgarðs við ferðasala eru til marks um þá sýn.
Við höfum innleitt Jafnvægisásinn, sem er mat á álagi af ferðaþjónustu á margvíslega innviði landsins. Við þurfum að halda áfram að þróa og styrkja það mikilvæga verkfæri til framtíðar, sérstaklega þegar við verðum komin lengra á leið með að ná ferðaþjónustunni upp á fæturna að nýju.
Við höfum öll lært mikið á undanförnum árum, bæði stjórnvöld, sveitarfélög og atvinnugreinin. Sú reynsla mun auðvitað nýtast okkur mjög þegar við hefjum nýja sókn og auðvelda okkur að sækja hratt fram og vera tilbúin.
Oft er rætt um að laða hingað betur borgandi ferðamenn. Íslandsstofa hefur greint markhópa okkar vel og hagar markaðsstarfi sínu eftir því. Það skiptir máli. Við stýrum því þó aldrei algjörlega hverjir hingað koma. Þar ræður flugframboð langmestu.
Líklega hefur engin atvinnugrein skilað Íslandi eins skjótum ávinningi af viðlíka stærðargráðu og ferðaþjónustan gerði á undanförnum áratug eða svo. Ný sókn verður þó að vera sjálfbær, eins og nýleg framtíðarsýn stjórnvalda og greinarinnar kveður á um.
Á þeim grunni munum við sækja fram að nýju ásamt þeim þúsundum einstaklinga í greininni sem hafa með þrotlausri vinnu, hugkvæmni og metnaði hagnýtt og auðgað þá miklu auðlind sem áfangastaðurinn Ísland er.
Ég þakka fyrir þennan fund og fyrir að fá tækifæri til að opna hann. Ég hlakka til að hlusta á þá sem hér fara yfir málin og pallborðið hér á eftir. Heilt yfir hefur margt tekist vel á erfiðum tímum. Við erum með augun á boltanum. Við erum opin fyrir því að bæði endurskoða skilyrði sem hafa verið sett með tilliti til þess að tíminn hefur lengst og smíða enn frekari og ný úrræði. En það þarf auðvitað að vera jafnvægi í því og það er erfitt að finna þá línu, því að þrátt fyrir að ástandið hafi haft áhrif á markaðsöflin þá er ekki búið að taka þau algjörlega úr sambandi og við viljum ekki riðla þeim þannig að við stöndum uppi með alltof bjagaða mynd þegar þessu ástandi lýkur. Það er það jafnvægi sem er erfitt að finna en það er ekki þar með sagt að við ætlum ekki að gera okkar besta til að gera nákvæmlega það.
Að lokum: Ferðaþjónustan verður sterk að nýju þegar þessu lýkur.
Takk kærlega fyrir mig.