Ávarp Kristjáns Þórs Júlíussonar á ársfundi Hafrannsóknarstofnunnar 2020
Kæru gestir.
Það er mér heiður að ávarpa þennan ársfund Hafrannsóknastofnunar, rannsóknastofnunnar hafs og vatna. Stofnunar sem heldur á mörgum mikilvægum málum fyrir okkur Íslendinga og er ætlað að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda hafs og vatna.
Vel fer á því í upphafi þessa ávarps að minnast Jakobs Jakobssonar fyrrum forstjóra Hafrannsóknastofnunar, sem lést í nýliðnum mánuði. Blessuð sé minning þessa hógláta Norðfirðings sem flest okkar sem komin eru um eða yfir miðjan aldur munum eftir sem helsta síldarsérfæðingi þjóðarinnar á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Okkur er einnig flestum minnisstæð einstæð framganga hans í fjölmiðlum þar sem hann útskýrði og varði stefnu stofnunarinnar og verkefni hennar. Sennilega var meiri orrahríð um ráðgjöf stofnunarinnar á hans starfstíma en nú er, sem kom fram í því að lengi var ekki farið að tillögum stofnunarinnar um nýtingu þorskstofnsins, þrátt fyrir að sporin væru til að varast, eins og hafði komið fram í hruni íslensku vorgotssíldarinnar.
Aflaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hefur verið fylgt nær óslitið í 20 ár. Árangur þess er ótvíræður fyrir íslenskan sjávarútveg og þá um leið íslenskt samfélag. Við höfum einfaldlega sammælst um að treysta á vísindin, þrátt fyrir að þekking á fiskistofnunum verði aldrei fullkomin, fremur en þekking á öðrum fyrirbærum náttúrunnar. Einn þekktasti fiskifræðingur heimsins, Ray Hilborn, segir í metsölubók sinni um ofveiði, Overfishing, að rannsóknir á útbreiðslu fiskistofna séu um margt líkar því að telja tré í skógi. Sá greinarmunur sé þó helstur að það er mið nótt og tréin eru á hreyfingu. Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar eru ekki of sælir af mælingum á útbreiðslu fiskistofna, þótt notaðar séu allar mögulegar upplýsingar nútímavísindanna.
Þið verðið að afsaka mig, þótt ég skensi hér lítillega. Ég hef mikla virðingu fyrir því starfi sem unnið er á Hafrannsóknastofnun, en við gerum okkur grein fyrir því að verkefnin eru mörg. Þau eru stór og þau eru vandasöm.
Kæru gestir.
Íslendingar, líkt og allar aðrar þjóðir heims, standa frammi fyrir miklum áskorunum sem leiða af loftslagsbreytingum. Breytingum á hitistigi sjávar í kringum landið fylgja margvíslegar áskoranir sem við þekkjum. Með hlýnandi sjó höfum við séð hvernig ýsan hefur flutt sig í verulegum mæli norður fyrir land og aðrar tegundir hafa einnig flutt sig um set innan Íslandsmiða. Þá þekkja auðvitað allir hvernig makrílinn kom inn í okkar lögsögu fyrir um 15 árum og er hér enn þótt í mismiklum mæli væri undanfarin ár. Það sem veldur okkur þó mestum höfuðverk að þessu leyti er breytt hegðun loðnunnar.
Á ársfundi Hafrannsóknastofnunar fyrir ári síðan varpaði ég fram þeirri hugmynd að hvort það væri ekki tilefni til að fara í markvissa vinnu til að greina áhrif þessara breytinga. Hvort við gætum rakið á heildstæðan hátt þróun vistkerfisbreytinga í hafinu við Ísland, sett fram sviðsmyndir og öðlast með því aukin skilning. Hér hefur stofnunin mörgu að miðla.
Það er mér því mikil ánægja að geta greint frá því að ég hef nýlega gert sérstakan samning við Hafrannsóknastofnun um að skrifa svonefnda hvítbók um umhverfis og vistkerfisbreytingar í hafinu við Ísland og mögulegar sviðsmyndir eða afleiðingar áhrifa loftslagsbreytinga. Það er von mín að skýrsla þessi geti nýst stjórnvöldum, hagsmunaaðilum og fræðasamfélaginu til ýmissrar ákvörðunar í framhaldinu og gagnast sem fræðirit. Er ætlanin að skýrsla þessi liggi fyrir í apríl á næsta ári.
Kæru gestir.
Eitt þekktasta erfi íslenskt er kvæði Bjarna amtmanns eftir vin sinn Odd Hjaltalín. Oddur var vísindamaður og landlæknir og var talinn vel gefinn. Um hann segir í æviþáttum að hafi verið stórbrotinn í skapi, að vísu drykkfelldur en hagmæltur nokkuð. Mun hann hafa þótt helst til bersögull og hneykslað marga, svo sem greina má í kvæðinu. Bjarni vinur hans talar til lesandans og segir:
En þú sem undan
ævistraumi
flýtur sofandi
að feigðarósi
lastaðu ei laxinn
sem leitar móti
straumi sterklega
og stiklar fossa!
Við vitum hvernig laxinn, þessi sauðþráa skepna, týnist í hafi svo misserum skiptir en snýr aftur og stiklar sína leið upp fossa og flúðir. Það þarf áræði til að synda gegn straumnum. Til að takast á við nýjar og krefjandi áskoranir og standa óeirinn þótt móti blási. Það felst í hinni vísindalegu aðferð að þekking vex af þekkingu. Rök og gagnrök geta þokað þekkingu, skapað nýja og komið hlutum á hreyfingu. Ég vildi óska þess að sú væri alltaf raunin í umræðum í þingsalnum, en það er nú önnur saga.
Á síðustu árum hefur Hafrannsóknastofnun lagt aukna áherslu á málefni fiskeldis og um leið vernd íslenskra laxastofna. Vorið 2019 samþykkti Alþingi lög sem fólu í sér að leggja skyldi til grundvallar við framtíðaruppbyggingu fiskeldis bæði burðarþoli fjarðar, sem unnið er að mestu af Hafrannsóknastofnun, og áhættumat erfðablöndunar laxfiska. Áhættumatið er mjög merkilegt verkfæri sem mótast hefur á síðustu árum fyrir tilstilli starfsmanna Hafrannsóknastofnunar og vil ég geta þess að nú liggur fyrir skýrsla þriggja óháðra vísindamanna, sem lögðu mat á aðferðarfræði áhættumatsins og stóðst það fyllilega skoðun þeirra, þótt um leið hafi verið bent á fáein atriði sem vert væri að huga að frekar.
Kæru gestir,
Í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega kveðið á um eflingu hafrannsókna. Þessari stefnumörkun höfum við fylgt eftir af fullum þunga og var liður í því að tryggja Hafrannsóknastofnun nýtt húsnæði í Hafnarfirði þar sem öll starfsemi er undir einu þaki. Þá er rétt að minnast á það sem flestir hér vita að skammt er til þess að smíði hefjist á nýju hafrannsóknaskipi sem mun nýtast stofnuninni vel til eflingar á rannsóknum sínum.
Um leið veit ég að Hafrannsóknastofnun hefur átt við tímabundna rekstrarerfiðleika að stríða, m.a. vegna breytinga á tekjum úr Verkefnasjóði sjávarútvegsins, sem leyst var með föstu framlagi úr ríkissjóði. Stofnunin hefur og mun áfram, eins og aðrar stofnanir ríkisins, þurfa að takast á við þá hagræðingakröfu sem sett er í fjárlögum hvers árs, en sem leiða mun til þess að forgangsraða þarf verkefnum og gæta hæfilegrar forsjár eða aðhalds í rekstri. Til þessa treysti ég starfsfólki stofnunnarinnar vel.
Kæru gestir.
Ég óska starfsfólki Hafrannsóknastofnunar velfarnaðar í störfum sínum.