Ræða Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur á Iðnþingi 4. mars 2021
Kæru gestir
Einhver besta dæmisaga sem samin hefur verið á íslensku er eftir Sigurð Nordal og heitir „Ferðin sem aldrei var farin“. Þar segir frá manni sem fær stórt og mikið verkefni sem hann þarf að búa sig undir í mörg ár. Það sem hann veit ekki er að verkefnið er tilbúningur. Honum var falið það til þess eins að hann myndi undirbúa sig. Sá sem fól honum verkefnið vissi að undirbúningurinn var verðugt verkefni í sjálfu sér. En hann vissi líka að maðurinn skildi það ekki, sá ekki tilgang með því og þess vegna þurfti að fela honum tilbúið verkefni.
Lærdómurinn af þessari sögu er að við vitum ekki alltaf hvaða áskoranir bíða okkar, en það er allt í lagi, svo lengi sem við höfum í huga að það sem skiptir mestu máli er að við verðum aldrei værukær heldur bætum okkur stöðugt. Aukum stöðugt við hæfni okkar og getu. Það hefur gildi í sjálfu sér, og áskoranirnar koma.
Þær verða hins vegar sífellt óljósari eftir því sem heimurinn breytist hraðar. Við vitum minna og minna um það hvaða verkefni nákvæmlega munu bíða okkar eftir 10, 20, 30 ár.
Hér er ég að flytja mína ræðu á Iðnþingi, sem með fullri virðingu fyrir öðrum er mín uppáhaldsræða á árinu. Allan þann tíma sem ég hef verið í þessu embætti, alveg frá því að ég talaði fyrst á Iðnþingi fyrir fjórum árum, hefur verið rætt um aukna óvissu um framtíðina.
Hún þýðir að fólk veit ekki almennilega hvaða framtíð það er að búa sig undir.
En við vitum hins vegar að sú staðreynd breytir ekki því að við þurfum á öllum tímum að verða sífellt betri og betri, auka stöðugt við hæfni okkar og getu. Rétt eins og maðurinn í sögu Sigurðar Nordal sem varð á endanum fær um að takast á við nánast hvaða áskorun sem var.
Það er meðal annars vegna aukinnar óvissu um framtíðina sem við höfum sagt: „Verkefni okkar er nýsköpun.“
En nýsköpun er dálítið eins og áskorunin sem var lögð fyrir manninn í dæmisögunni, nema hvað margir þóttust nú hafa séð í gegnum verkefnið og töldu það tilbúning eða svona óþarfa.
Nýsköpun, um hvað, nákvæmlega? – var spurt.
Eitthvað annað? Hvað er þetta „eitthvað“?
Og til hvers? Höfum við það ekki býsna gott? var spurt, dálítið eins og maðurinn í sögunni sem sá ekki tilgang í því að bæta sig áður en hann fékk verkefni sem hann gat skilið, af því að hann hafði erft mikið ríkidæmi, hann lifði í vellystingum og fannst hann ekki hafa sérstaka ástæðu til að leggja mikið á sig og hlaupa hraðar. Kannski eins og við Íslendingar á köflum, sem höfum hlotið dýrmætar auðlindir í arf sem hafa lyft lífskjörum okkar og stuðlað að velmegun.
Maðurinn í sögunni fékk verkefnið til að hann myndi breyta hugarfari sínu.
Nýsköpunarstefnan sem við innleiddum hafði ekki ósvipaðan tilgang. Þegar hún kom fram sögðu sumir: Þetta er óáþreifanlegt. Um hvað snýst þetta? Hvert ættum við að hlaupa? Í hverju ætlum við að vera góð? Hér eru tíu leiðarljós á borð við: „Þykjumst ekki vita það sem ekki er hægt að vita.“ „Engar lausnir eru endanlegar.“ „Ósigrar eru óhjákvæmilegir en uppgjöf er óásættanleg.“ „Þegar við lítum til heimsins þá horfir heimurinn til okkar.“ – Sumir sögðu: Það er engu líkara en að þetta snúist bara um eitthvað hugarfar.
Og við sögðum: Já, þetta snýst einmitt um hugarfar. Við ætlum ekki að koma með fyrirskipun að ofan um það í hverju við ætlum að vera góð, bara að við ætlum að vera betri. Við ætlum ekki að koma með fyrirskipun að ofan um það hvert nákvæmlega við ætlum að hlaupa, en við ætlum að hlaupa hraðar.
Mér finnst að þetta hafi tekist. Mér finnst að hugarfarið hafi breyst. Að þau tímamót hafi orðið hér á Íslandi að nýsköpun er ekki lengur litin hálfgerðu hornauga sem krúttlegt gæluverkefni; eitthvað sem enginn getur þannig séð verið á móti og öllum finnst fínt en ekki endilega skipta miklu máli; eitthvað tískuorð, ímyndarmál eða skraut sem mætti kannski alveg sleppa; heldur sé hún núna talin raunverulegt og mikilvægt viðfangsefni sem við verðum að sinna, þrátt fyrir að það sé óáþreifanlegt og háð mikilli óvissu, því að við erum farin að skilja að nýsköpun er það sem gerir okkur í stakk búin til að takast á við þessa óvissu og áskoranir framtíðarinnar.
Fleiri og fleiri eru sammála því að nýsköpun er ekki lúxus heldur nauðsynleg.
Já, hún tekur tíma. En við vorum ekki að byrja á henni í gær, og við erum þegar farin að uppskera.
Nei, við vitum ekki fyrirfram hvaða hugmyndir munu ná að skapa verðmæti og hverjar ekki. Það er partur af prógramminu. En það sem við vitum með vissu er sú staðreynd, að þegar á heildina er litið þá munu þeir tapa sem veðja ekki á hugvitið, veðja ekki á drifkraft frumkvöðla, veðja ekki á einstaklinginn.
Þess vegna höfum við innleitt nýsköpunarstefnu sem stuðlar að réttu hugarfari, en líka stóraukið stuðning við rannsóknir og þróun, endurskipulagt stuðningsumhverfi nýsköpunar til að gera það markvissara og betra, stofnað Kríu til að styðja við fjármögnun vísisjóða sem var einmitt formlega gengið frá í dag, auðveldað erlendum sérfræðingum að vinna hér tímabundið lengur en áður, rýmkað heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga, og þannig mætti áfram telja.
COVID hefur opnað augu margra. Fólk sá að fyrirtæki á borð við SideKick Health gátu boðið lausnir sem nýttust heilbrigðiskerfinu. Fólk sá að fyrirtæki á borð við Controlant áttu í fórum sínum lausnir sem nýttust við að flytja bóluefni. Fólk sá að fyrirtæki á borð við DeCode gátu raðgreint erfðaefni ólíkra afbrigða veirunnar.
Við vorum ekki að byrja í gær og erum þegar farin að uppskera.
Raunar má færa rök fyrir því að það hafi sjaldan eða aldrei verið eins bjart yfir íslensku nýsköpunarumhverfi og einmitt nú.
Nýsköpunarfyrirtæki sóttu sér í fyrra tæplega 30 milljarða króna í fjármögnun, og meira en helminginn kom frá útlöndum.
Ný könnun á vegum Íslandsstofu sýnir að flest nýsköpunarfyrirtæki sjá fram á vöxt næstu tólf mánuðina; nær öll fyrirtækin hyggjast fjölga starfsmönnum á árinu; þrátt fyrir Covid stóðust áætlanir meirihluta fyrirtækjanna; viðskiptavinum þeirra hefur almennt ekki fækkað; og aðeins örlítill samdráttur varð í tekjum fyrirtækjanna á milli áranna 2019 og 2020 þrátt fyrir Covid en starfsfólki fjölgaði á sama tíma um 14%; og áætlanir þeirra á næstu tólf mánuðum ganga út á að sækja sér fjárfestingu fyrir alls 24 nýja milljarða króna. Í stuttu máli er þetta björt mynd sem fyrirtækin gefa hér upp í þessari könnun.
Fleiri einstök dæmi mætti nefna um þá spennandi hluti sem hér eru að gerast. Fyrirtæki á borð við Alvotech og CarbFix eru að vinna að verkefnum sem gætu skipti Ísland verulegu máli. Unity var skráð á hlutabréfamarkaðinn í New York. Orkufyrirtækin okkar sjá spennandi tækifæri á mörgum sviðum, meðal annars í vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu og gagnaverum. Og margir fjárfestingarsjóðir eru um þessar mundir að leggja drög að næstu hrinu fjárfestinga sem mun gefa frumkvöðlum ný tækifæri. Þannig sáum við í gær tilkynningu um nýjan vísisjóð, Brunn vaxtarsjóður II, sem hefur lokið fjármögnun upp á 8,3 milljarða króna.
En góðir gestir og áhorfendur, hvert er þá mikilvægasta verkefni okkar í dag? Hvernig hlaupum við hraðar?
Fyrir um þrjátíu árum eða svo má segja að bylting hafi hafist á Íslandi sem leysti okkur úr mörgum gömlum viðjum. Hún er oftast kennd við frjálshyggju og gekk aðallega út á að draga ríkisvaldið út af mörgum sviðum þar sem það hafði verið alltumlykjandi, og auka frelsi einkaframtaksins til að eiga viðskipti og skapa verðmæti.
Dómur framtíðarinnar verður vonandi sá, að nú á síðastliðnum árum hafi orðið hér á landi hugarfarsbylting sem gerði Ísland að nýsköpunarlandi. Við þurfum að halda áfram að stuðla að því.
Næsta bylting sem ég myndi vilja sjá eiga sér stað á Íslandi er einföldunarbylting.
Við Íslendingar höfum því miður komið okkur upp alltof flóknu regluverki, sem er dálítið sérstakt með hliðsjón af því hvað við erum lausnamiðuð og viljum geta hreyft okkur hratt.
Ferli og reglur eru vissulega nauðsynleg, en á einhverjum tímapunkti hætta þær einfaldlega að bæta umhverfi okkar og byrja að spilla því.
Ferli og reglur eiga að koma í veg fyrir að við hlaupum út í skurð, en þær mega ekki koma í veg fyrir að við getum hlaupið eða að við getum yfirhöfuð grafið skurði.
Samanburður við aðrar þjóðir er ágætur mælikvarði á hæfilegt umfang regluverks. Ég átti frumkvæði að því að fá OECD til liðs við okkur til að meta reglubyrði í byggingariðnaði og ferðaþjónustu, til að varpa ljósi á samkeppnishæfni okkar hvað þetta varðar. Niðurstaðan var sláandi. Regluverkið er alltof íþyngjandi og umfangsmikið, ekki síst í byggingariðnaði.
Við verðum að bæta úr þessu og að mínu mati vinna sambærilegar greiningar á fleiri sviðum samfélagsins. Við vitum vel að tækifærin til einföldunar eru víða, því að sums staðar virðumst við ekki lengur geta hlaupið fyrir regluverki.
Ég hef til dæmis ekki farið leynt með þá skoðun mína að taka þurfi rammaáætlun um vernd og nýtingu orkuauðlinda til endurskoðunar. Í raun má segja að það hafi legið fyrir í mörg ár að aðferðafræðin væri of flókin til að hún virkaði sem skyldi.
Innviðir í flutningskerfi raforku eru annað slíkt mál. Ekki alls fyrir löngu var lagt fram frumvarp um breytingar á því regluverki, sem er ætlað að einfalda samþykktarferli flóknustu framkvæmdanna, án þess að slegið sé af kröfum um vandaðan undirbúning og samráð. Tækifærin til úrbóta snúast ekki um afslátt af eðlilegum kröfum heldur fyrst og fremst um það, að koma í veg fyrir að verið sé að meta sömu hlutina aftur og aftur á mörgum stöðum, og að matið taki óhóflega langan tíma.
Tækifærin í orkumálum eru sérstaklega spennandi vegna þess að þau sameina sérstöðu okkar og styrkleika hér á Íslandi annars vegar, og eitt stærsta viðfangsefni heimsbyggðarinnar hins vegar.
Tækifæri okkar til að taka afgerandi forystu á þessu sviði birtist meðal annars í því, að við erum í fyrsta sæti á lista MIT-háskólans, þar sem reiknuð hefur verið út „vísitala grænnar framtíðar“. En við erum þó bara sjónarmun á undan Dönum og Norðmönnum, sem sýnir bara eitt: að við verðum að hlaupa hraðar.
Ný orkustefna felur í sér markmið um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti í síðasta lagi 2050. Þróunin er hins vegar svo hröð, og aðrar þjóðir eru að hlaupa svo hratt, að enn betra markmið er að við setjum okkur einfaldlega það markmið að við ætlum að vera fyrst. Að við ætlum að verða fyrst allra landa að verða óháð jarðefnaeldsneyti. Það myndi ekki bara vekja heimsathygli, með öllum þeim ávinningi sem því fylgir, heldur treysta orkuöryggi okkar, spara mikinn gjaldeyri og leggja grunn að nýjum iðnaði, störfum og útflutningi.
Þetta hljómar sem stórt markmið en ég trúi því í alvöru að það sé vel raunhæft. Við höfum áður ráðist í risaverkefni í orkuskiptum. Hitaveituvæðingin var slíkt verkefni og tölur Samorku benda til þess að hún hafi kostað okkur umtalsvert meira sem hlutfall af landsframleiðslu en tunglskot Bandaríkjanna. Og ávinningurinn hefur verið ótvíræður og allt að því ómetanlegur.
En stundum hugsa ég: Ef við værum að fara í slíkt verkefni í dag, hvernig gengi okkur það með tilliti til regluverks, ferla og tíma sem hver og ein ákvörðun tekur?
Til að útrýma skaðlegum orkugjöfum þurfum við augljóslega að auka framleiðslu á grænni orku, og styðja við margvíslega þróun sem þarf að eiga sér stað. Ný aðgerðaáætlun orkustefnunnar, sem ég lagði fram fyrir nokkrum dögum, veitir innsýn inn í þau verkefni.
Orkumálin hafa verið mjög í brennidepli í ráðuneytinu undanfarna mánuði. Fraunhofer-skýrslan sýndi fram á almenna samkeppnishæfni orkuverðs en dró líka fram tækifæri til úrbóta, einkum hvað varðar flutningskostnað raforku. Við höfðum hraðar hendur við að bregðast við þeim og höfum þegar lagt til úrbætur í frumvarpi til raforkulaga.
Mjög ánægjuleg tíðindi bárust nýlega úr Straumsvík um viðauka við orkusamning álvers Rio Tinto sem kemur báðum samningsaðilum til góða og eyðir óvissu um framtíð þessa mikilvæga fyrirtækis.
Viljayfirlýsing var nýlega undirrituð um að ríkið verði eigandi Landsnets, sem ég tel að yrði mjög til bóta.
Frumvarp um regluverk vindorku hefur verið kynnt í samráðsgátt og verður vonandi lagt fram á Alþingi innan tíðar, enda skynsamlegt að opna fyrir tækifæri á því sviði og eyða lagalegri óvissu.
Þá eru áhugaverð orkutengd verkefni í skoðun víða um land, meðal annars á Grundartanga þar sem bæði hefur verið til skoðunar að framleiða rafeldsneyti og að nýta glatvarma frá stóriðju, sem rímar mjög vel við áherslur Orkustefnu.
Við þurfum að gera meira og hlaupa hraðar. Meðal annars að bæta umhverfi grænna fjárfestinga. Fjármálaráðherra lagði nýlega fram frumvarp um ívilnandi skattareglur til grænna fjárfestinga. Slíkar ívilnanir eru mikilvægar, en einfalt regluverk, fyrirsjáanleiki og skýr svör eru líka mikilvægir þættir í augum fjárfesta.
Núna í hádeginu skrifaði ég undir samning við Íslandsstofu um verkefni sem miðar að því að greiða götu grænna fjárfestinga enn frekar. Samanburðargreining Íslandsstofu bendir til þess að samkeppnislönd okkar taki betur á móti slíkum tækifærum en við. Það snýst ekki eingöngu um ívilnanir heldur kannski fyrst og fremst um góða þjónustu, hröð svör og tilbúnar lausnir sem hægt er að gera hratt að veruleika. Við viljum hlaupa jafn hratt og þessi lönd og þess vegna höfum við ráðist í þetta verkefni, sem við köllum „Græna dregilinn“. Nafnið kallast á við „rauða dregilinn“ sem jafnan er lagður fyrir góða gesti til að bjóða þá velkomna. Hluti af þessu verkefni er samstarf við Landsvirkjun og sveitarfélagið Norðurþing um að greina tækifærin á Bakka, en megintilgangurinn með samstarfsverkefni ráðuneytisins og Íslandsstofu er að teikna upp „grænan dregil“ sem hægt væri að leggja hvar sem er á landinu.
Varðandi fjárfestingar almennt má líka nefna að hjá lífeyrissjóðunum er aukinn vilji til að taka meiri þátt í uppbyggingu innviða á Íslandi. Þar liggja mjög áhugaverð tækifæri og sú vinna sem þar er unninn er mikilvæg. Hér er líka um að ræða atriði sem við höfum rætt mjög lengi og stjórnvöld þurfa að taka á móti og leggja þann dregil – hvað sem hann má kalla.
En varðandi einföldun kerfa, þá langar mig að nefna eitt kerfi sem við eigum sem er bæði einfalt og skilvirkt, en það er endurgreiðslukerfi vegna kvikmyndagerðar. Það heyrist reglulega, og ég skil það vel, að hækka þurfi endurgreiðsluhlutfallið í því kerfi. En í heimsókn minni til hagsmunaaðila í Los Angeles snemma á síðasta ári – mér líður reyndar eins og það sé mjög langt síðan og það var mín síðasta ferð fyrir COVID – fór mjög lítið fyrir þeim kröfum. Við erum vissulega ekki með hæstu prósentu í heimi, en í heimsókn minni skynjaði ég mjög vel að prósentan er ekki það eina sem skiptir máli. Allir erlendu hagsmunaaðilarnir hrósuðu kerfinu fyrir hversu einfalt það er og skilvirkt, á meðan mörg önnur slík kerfi eru flókin og seinvirk. Með öðrum orðum: Þeir hrósuðu okkur fyrir að hlaupa hratt. Þessir kostir kerfisins mættu að mínu mati vera fyrirferðarmeiri í opinberri umræðu um kerfið. Og líka sá árangur sem kerfið hefur náð, en í fyrra var slegið algjört met í útgreiðslum úr kerfinu. Við höfum hins vegar tækifæri til að gera enn betur í þessari mikilvægu og verðmætu atvinnugrein og láta kerfið þroskast og þróast með bransanum. Formleg greining á þeim tækifærum er nýlega hafin í samvinnu stjórnvalda og fulltrúa greinarinnar.
Kæru gestir og áhorfendur
Mig langar hér að lokum þakka Samtökum iðnaðarins, stjórn þeirra og starfsfólki, sem og aðildarfyrirtækjum samtakanna, fyrir ótrúlega gott og innihaldsríkt samstarf á undanförnum árum, fyrir þeirra innlegg í sameiginlega viðleitni okkar til að bæta Ísland, nú síðast með mjög góðri skýrslu sem komin er út í tengslum við þetta Iðnþing. Við munum leita til hennar, á því er enginn vafi.
Við Íslendingar höfum hlotið í arf gott land sem er ríkt að auðlindum – og okkur hefur farnast að nýta þær auðlindir vel. Samfélag sem er ríkt að menningu og ótrúlega hæfileikaríku fólki.
Við höfum farið vel með þennan arf og við höfum auðgað hann að mínu mati.
En ég er líka hjartanlega sammála áherslum Samtaka iðnaðarins um að við þurfum að hlaupa enn hraðar. Allir eru að hlaupa hraðar, öll lönd í kringum okkur eru að hlaupa hraðar. Ólíkt því sem kannski var fyrir nokkrum áratugum síðan þegar við tókum hér á móti stórum fjárfestingum, þá voru ekki öll lönd í kring um okkur að reyna að draga nákvæmlega þær fjárfestingar til sín.
En okkar forskot og okkar tækifæri núna eru á þeim sviðum sem öllum finnast eftirsóknarverð og allir eru að keppa að. Þetta forskot er ekki viðvarandi og það er ekki gefins. Það verður ekki áfram þarna bara af því að við erum svo „fín“.
Við framleiðum græna raforku en við erum að fara að keppa við vindorku og sólarorku í slíku magni að þetta sögulega forskot okkar verður minni og minni þáttur í því að tryggja að við séum samkeppnishæfni þegar kemur að frekari tækifærum.
Tækifærin eru gríðarleg. En við þurfum líka sem samfélag að segja að við ætlum að sækja þau.
Við viljum taka þátt í grænni byltingu, ekki bara fyrir okkar heimamarkað, heldur líka til að flytja út, hvort sem það er í formi hugvits, í formi hrávörunnar sem við getum framleitt með grænu raforkunni eða hvað annað sem það kann að vera.
Þetta er ákvörðun sem ekki bara ég tek, eða Samtök iðnaðarins, heldur þarf samfélagið að taka þá ákvörðun. Fyrir mér blasir hún við og ég vona að það sé sátt um hana.
Slík ákvörðun felur líka í sér að það verði hægt að taka á móti verkefnum, að það sé hægt að fá svör úr kerfinu, að það sé hægt að fara af stað, að það sé hægt að hlaupa hratt. Hún felur líka í sér að við munum þurfa að framleiða meiri raforku.
Það er því ekki hægt að segja að maður sé ótrúlega áfram um nýsköpun og græna framtíð og vilji skapa verðmætin þar, nýju störfin og útflutningstekjur og allt saman, en vera svo ekki tilbúin að framleiða meiri raforku þegar þess þarf.
Það er þetta samhengi sem verður að liggja fyrir ef við meinum eitthvað með því að við ætlum að verða sterkari og taka þátt í byltingunni sem er að eiga sér stað.
Hvað sem fólki kann að finnast um það, þá eru viðskiptatækifærin þarna. Öll lönd vilja minnka losun, öll lönd vilja fá hugvitið og tækifærin til sín, til að mynda um nýja orkugjafa.
Ég er hjartanlega sammála áherslum Samtaka iðnaðarins um að við þurfum að hlaupa hraðar. Það á alltaf við, en sjaldan sem nú.
Og án þess að þetta sé einhver kveðjuræða, hvað sem kann að taka við eftir komandi kosningar, hvort sem ég verð hér með ræðu í sjötta sinn eða ekki, þá vil ég segja: Ég er með ykkur í liði, af því að það er í þágu sterkara Íslands.
Takk.