Ræða Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á Búnaðarþingi 2021
Forseti Íslands. Forsætisráðherra. Búnaðarþingsfulltrúar og aðrir gestir Búnaðarþings.
„Ég er bóndi og allt mitt á -- undir sól og regni“, orti Stephan G. Stephansson Klettafjallaskáld og lýsti kjörum sínum beinlínis. Og öll þekkjum við ferskeytluna: Löngum var ég læknir minn -- lögfræðingur, prestur – smiður, kóngur kennarinn -- kerra, æki hestur. Það er fjölbreytt starf bóndans. Hann er ekki kancellíbykkja eins og við ráðherrarnir heldur er hann sinn eigin herra. Já það að vera bóndi er vissulega lífsstíll – eins og komið hefur fram.
Á Búnaðarþingi, næst elst þinga okkar Íslendinga á eftir Alþingi, ræða bændur um sín félagsmál og sameiginlegar áherslur. Mér er kærkomið sem ráðherra að mæta til þingsins og fá hér tækifæri til að ræða stöðu og horfur í íslenskum landbúnaði, líta yfir farinn veg; en um leið og ekki síst að horfa til framtíðar sem er björt fyrir íslenskan landbúnað.
Ég vil byrja á að þakka bændum fyrir ánægjulegt samstarf við endurskoðun búvörusamninga á þessu kjörtímabili. Eftir að samkomulag náðist um nýjan rammasamning hafa allir fjórir samningarnir verið endurskoðaðir. Gerðar voru umfangsmiklar breytingar á starfsskilyrðum íslensks landbúnaðar til hins betra. Meðal annars með ráðstöfunum sem stuðla að auknu jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir. Einnig vil ég nefna þá gæfuríka ákvörðun að falla frá afnámi kvótakerfis í mjólkurframleiðslu, sem stefnt var að með undirritun nautgripasamningsins í febrúar 2016.
Garðyrkjusamningurinn frá því í maí á síðasta ári markaði tímamót en með honum var blásið til sóknar í íslenskri garðyrkju. Gerðar voru grundvallarbreytingar á starfsumhverfi garðyrkjunnar og skapaðar forsendur til þess að hægt verði að auka framleiðslu á grænmeti um 25% á næstu þremur árum og auka með því markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu.
Í endurskoðuðum rammasamningi er einnig að finna mikilvægar vörður til framtíðar. Unnið er að mótun landbúnaðarstefnu sem verður grunnur að næstu endurskoðun samninganna árið 2023. Jafnframt er ánægjulegt að innan skamms verður sérstakt Mælaborð landbúnaðarins kynnt og tekið í notkun. Þá hef ég beitt mér fyrir því að tryggja Bændasamtökunum fjármuni til að útfæra búvörumerki fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir að norrænni fyrirmynd.
Loks er sérstaklega ánægjulegt að í öllum fjórum samningunum er rík áhersla á loftslagsmál. Bændur og stjórnvöld hafa sameinast um þá skýru framtíðarsýn að íslenskur landbúnaður verði að fullu kolefnisjafnaður árið 2040. Nú er unnið að því að útfæra leiðina að þessu metnaðarfulla markmiði. Þessu til viðbótar munu stjórnvöld síðar í dag kynna aðgerðir til að gera okkur kleift að stíga stærri skref í þessum efnum en áður var ráðgert.
Ég tel að það ætti að vera áhersla á að verkefnið Loftslagsvænni landbúnaður verði aðlagað og útvíkkað þannig að allir bændur geti nýtt sér það. Mestu skiptir að gera bændum kleift að hafa styrk og getu til að auka bindingu kolefnis á eigin landi, meðal annars með ráðgjöf og fjárhagslegum hvötum. Ég hef trú á því að hlutverk bænda á þessu sviði muni vaxa mikið á næstu árum. Íslenskur landbúnaður verður þannig ekki hluti af vandanum eins og stundum má heyra í umræðunni, heldur hluti af lausninni.
Kæru gestir.
Stofnun Matvælasjóðs var hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bregðast við áhrifum kórónuveirunnar. Sjóðurinn fékk 500 milljónir aukalega á síðasta ári og 250 aukalega á þessu ári. Hlutverk hans er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Við fyrstu úthlutun í fyrra styrkti sjóðurinn verkefni vítt og breitt um landið, enda lagði ég þunga áherslu á þegar sjóðnum var komið á fót að hann myndi styrkja verkefni um allt land og að stuðningur við matvælaframleiðslu sé sem næst uppruna hennar. Verkefnið fram undan er að tryggja að Matvælasjóður haldi áfram af sama krafti, og gæta að því hér eftir sem hingað til að skipting fjármagns til landbúnaðar og sjávarútvegs verði með sambærilegum hætti og verið hefur. Verklagið er enn í þróun en ég er sannfærður um að sjóðurinn, með áherslu á nýsköpun, sjálfbærni, gæði, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu, er mikið framfaraskref fyrir íslenskan landbúnað og sjávarútveg.
Kæru gestir.
Í síðasta mánuði kynnti ég 12 liða aðgerðaáætlun til eflingar íslenskum landbúnaði. Þeim aðgerðum hefur verið fylgt eftir af krafti en Sigurður Eyþórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, var ráðinn verkefnastjóri í ráðuneytinu til að vinna að framgangi og innleiðingu aðgerðanna. Meðal aðgerða var að óska eftir endurskoðun tollasamnings Íslands við Evópusambandið. Þær viðræður eru hafnar. Þá hef ég ákveðið að láta endurskoða reglur um niðurskurð vegna búfjársjúkdóma og tryggingavernd en til að stýra því verkefni hef ég fengið hana Sigurborgu Daðadóttir sem fengið hefur leyfi frá störfum sem yfirdýralæknir á meðan. Sigurborg mætti til starfa í ráðuneytinu í dag.
Tvær aðgerðir til viðbótar vildi ég gera að sérstöku umtalsefni hér í dag.
Annars vegar verður á næstu dögum eða vikum kynnt átak til að ýta undir möguleika bænda til heimaframleiðslu beint frá býli. Þetta mun taka gildi á næstu vikum og standa bændum til boða í sláturtíð haustsins. Hér er um breytingu að ræða sem hefur lengi verið rætt og ritað um, en er nú loksins að verða að veruleika. Með þessu erum við að stuðla að frekari fullvinnslu, vöruþróun og varðveislu verkþekkingar við vinnslu matvæla. Um leið gerum við bændum kleift að styrkja verðmætasköpun og afkomu og ná betri tengingu við neytendur. Þetta er mikið framfaramál fyrir íslenska bændur og markar á margan hátt tímamót.
Hitt sem ég vildi nefna er að nú stendur yfir sameiginleg vinna ráðuneytisins og Landssambands sauðfjárbænda við gerð aðgerðaáætlunar um sóknarverkefni í sauðfjárrækt. Markmiðið er að bæta afkomu í greininni og ná fram hækkun afurðaverðs. Eins og við þekkum öll hafa verið erfiðleikar í sauðfjárræktinni undanfarin ár vegna mikilla afurðaverðslækkanna á árunum 2015 til 2017. Ráðuneytið hefur tekið til hliðar 100 milljónir króna til að fjármagna sértækar aðgerðir til að ná þessu markmiði. Ætlunin er að kynna þær í næsta mánuði.
Kæru gestir.
Við komum saman til Búnaðarþings á tímum mikilla breytinga. Kórónuveiru-faraldurinn hefur reynt á þolrif íslensks samfélags og er landbúnaðurinn þar engin undantekning. Hrun í komu ferðamanna með tilheyrandi samdrætti í eftirspurn eftir íslenskum landbúnaðarafurðum og umfangsmiklar sóttvarnarráðstafanir til lengri tíma. Þetta eru vissulega miklir óvissutímar – fordæmalausir á margan hátt, eins og oft er sagt. Til skemmri tíma var gripið til fjölmargra aðgerða til að styðja íslenskan landbúnaði í gegnum þessar aðstæður; meðal annars fallið frá öllum gjaldskrárhækkunum Matvælastofnunar á þessu og síðasta ári, tæpum milljarði króna bætt í búvörusamninga til að mæta áhrifum faraldursins og greiðslum flýtt.
Til lengri tíma megum við ekki gleyma því að aðstæður sem þessar fela líka í sér tækifæri. Tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt. Tækifæri til að velta fyrir sér stöðu og framtíð íslensks landbúnaðar í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa á samfélögum heimsins á 21. öldinni. Við þurfum kannski að herða okkur eins og sláttumaðurinn í vísu Páls Ólafssonar sem er vakinn og honum bent á að jörðin sé ennþá vot eftir nóttina, en þá beit betur:
Sólin ekki sinna verka sakna lætur:
jörðin undan grímu grætur.
Grasabani komdu' á fætur.
Veltum fyrir okkur nokkrum staðreyndum:
- Eftirspurn eftir heilnæmu matvælum mun margfaldast á næstu árum en talið er að auka þurfi matvælaframleiðslu um 50 prósent á næstu tveimur áratugum.
- Neytendur gera æ ríkari kröfur um gæði matvæla.
- Gerðar verða æ ríkarikröfur um umhverfisvæna og sjálfbæra framleiðsluhætti matvæla.
- Neytendur gera æ ríkari kröfur um upplýsingar um matvæli, meðal annars um uppruna þeirra. Ekki aðeins um framleiðsluland heldur um svæði og jafnvel bæ.
- Neytendur gera æ ríkarikröfur um að matvæli séu framleidd með þeim hætti að notkun lyfja eða annarra aðskotaefna sé haldið í lágmarki.
- Neytendur gera æ ríkarikröfur um heilnæm og holl matvæli.
Allt er þetta íslenskum landbúnaði afar hagfellt. Staða okkar Íslendinga til að grípa þessi tækifæri er öllum kunn – vatnið okkar, landrýmið, hreinleiki og heilbrigðir bústofnar. Við erum á margan hátt í öfundsverðri stöðu. Staðreyndin er því þessi; Framtíðin er björt og tækifærin eru fyrir hendi, ef okkur ber gæfa til að grípa þau.
Og eitt höfum við Íslendingar lært af veirufaraldrinum – sjálfstæð þjóð stendur vörð um eigin matvælaframleiðslu.
Góðir gestir búnaðarþings,
Í því skyni að þróa þá atvinnugrein sem landbúnaður er til framtíðar er mikilvægt að ráðast í heildstæða stefnumörkun fyrir íslenskan landbúnað. Framtíðin er enda þeirra sem búa sig undir hana, eins og stundum er sagt.
Því setti ég í september síðastliðinn formlega af stað vinnu við mótun landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Á grunni umfangsmikillar vinnu, meðal annars sviðsmyndagreiningar og fjölmargra funda með bændum, tóku þau Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, og Hlédís Sveinsdóttir, ráðgjafi og verkefnastjóri, við þeirri vinnu. Sú vinna er langt komin og á næstu vikum mun verða skilað drögum að fyrstu heildstæðu landbúnaðarstefnu Íslands. Ég hef lagt ríka áherslu á samráð við bændur og aðra hagsmunaaðila við mótun þessarar stefnu. Í framhaldi á kynningu stefnunnar mun eiga sér stað frekara samtal við bændur um allt land og aðra um endanlega útfærslu.
Ég hef sagt að þessi stefnumótun þarf að taka tillit til þess að íslenskur landbúnaður er ekki aðeins framleiðsluferill á matvælum. Íslenskur landbúnaður hvílir á breiðari grunni. Hann er hluti af vitund okkar um náttúruna, lífssýn bóndans og verðmætin sem felast í heiðum og dölum. Landbúnaðarstefna fyrir Ísland þarf að byggja á þessari arfleifð en um leið verðum við að horfast í augu við að kröfur, smekkur, viðhorf og lífstíll breytast hratt – nánast dag frá degi. Um leið þarf að taka mið af því að landbúnaður er ekki atvinnugrein þar sem allt í einu er hægt að rjúka til handa og fóta og auka eða draga úr framleiðslu í einu vetfangi. Allt þetta styrkir mig í þeirri skoðun að heildstæð langtímastefnumótun fyrir íslenskan landbúnað sé ekki aðeins tímabær, heldur nauðsynleg.
Ég bind vonir við gagnrýna og málefnalega umræðu um þessi stefnumótun. Að bændur taki virkan þátt og spyrji grundvallarspurningu: Hvað vilja bændur? Hvaða kröfur gera þeir til að við fullnýtum þessi tækifæri; til sjálfs síns. Til neytenda. Til stjórnvalda. En við skulum ekki gleyma því að hugmyndin er ekki að marka stefnu fyrir bændur – það gerið þið hér á búnaðarþingi, heldur landbúnaðarstefnu fyrir samfélagið allt. Hvaða hlutverk vill það fela landbúnaðinum og hvað vill samfélagið gera til að greinin nái markmiðum sínum.
Þarna gefst kostur á að ræða leiðir og lausnir til að sækja fram. Þarna verður teiknuð upp framtíðarsýn. Tækifæri til að stilla saman strengi – skapa sameiginlega framtíðarsýn til næstu áratuga sem byggir á óumdeildum kostum og styrkleikum íslensks landbúnaðar. Ég fullyrði að þessi vinna er stærsta hagsmunamál íslensks landbúnaðar nú um stundir.
Kæru gestir.
Ég fullyrði að þau verkefni sem mitt ráðuneyti hefur lagt áherslu á á þessu kjörtímabili styðja við þá meginþætti sem landbúnaðarstefna fyrir Ísland þarf að byggja á.
- Fæðuöryggi.
- Við höfum í fyrsta sinn kortlagt stöðu fæðuöryggis á Íslandi í skýrslu sem Landbúnaðarháskóli Íslands skilaði til ráðuneytisins í síðasta mánuði. Skýrslan sýnir hvað innlend matvælaframleiðsla stendur sterkt. En um leið dregur hún fram með skýrum hætti tækifærin sem blasa við til að gera enn betur, m.a. í því að efla framleiðslu á korni og innlendri áburðarframleiðslu. Nú þarf að setja fram stefnuna þannig að hún verði hluti af þjóðaröryggisstefnu landsins.
- Matvælaöryggi.
- Við höfum innleitt viðbótartryggingar gagnvart innfluttikalkúnakjöti, kjúklingakjöti,eggjum, svínakjöti og nautakjöti.
- Dreifing alifuglakjöts á markaði var bönnuð nema sýnt sé fram að ekki hafi greinst kampýlóbakter í því.
- Áhættumatsnefnd var sett á fót.
- Við heilbrigðisráðherra settum af stað átak til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi – meðal aðgerða var stofnun Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóðs sem hefur stóreflt rannsóknir á sýklalyfjaónæmi.
- Verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar.
- Hér má meðal annars nefna innleiðingu á stefnu opinberra aðila um innkaup á matvælum.
- Við höfum mótað í samráði við bændur og aðra hagsmunaaðila fyrstu heildstæðu matvælastefnuna fyrir Ísland.
- Átak um einföldun regluverks.
- Ráðist í aðgerðir til að bæta merkingar matvæla.
- Sett á fót Matvælasjóð.
- Heimild til bænda til að framleiða og selja kindakjöt beint frá býli mun einnig hafa áhrif í þessu samhengi.
- Tengsl Matís við atvinnulífið styrkt til að stuðla að aukinni verðmætasköpun.
- Rannsóknir og menntun eru lífsnauðsynlegur hlekkur í framþróun og framtíð íslensks landbúnaðar.
- Landbúnaðarháskóla Íslands voru tryggðir auknir fjármunir í samning sem ráðuneytið gerði við skólann í fyrra. Skólinn tók vel í það frumkvæði mitt að sinna skilgreindum verkefnum fyrir ráðuneytið. Önnur áhersla var að tryggja betur aðkomu bænda að kennslu og rannsóknum við skólann.
- Landnýting.
- Í þessum mánuði komu út leiðbeiningar ráðuneytisins um flokkun landbúnaðarlands með tilliti til hæfni til ræktunar. Með leiðbeiningunum er horft til þess að leggja auknar skyldur á sveitarstjórnir og landeigendur til að varðveita og vernda gott ræktunarland, sem víða er hörgull af í sveitum og við Íslendingar sem þjóð verðum að gæta að varðveislu þess til framtíðar.
- Einnig vil ég nefna hér frumvarp til breytingar á jarðalögum sem nú er til meðferðar á Alþingi í þeim tilgangi að einfalda regluverk og stjórnsýslu jarðamála og um leið tryggja betur vernd landbúnaðarlands.
- Umhverfismál.
- Líkt og ég nefndi áðan höfum við tekið stór skref í þessum efnum á þessu kjörtímabili, enda lykiláhersla við endurskoðun allra búvörusamninga. Afraksturinn er markmið um að íslenskur landbúnaður verði að fullu kolefnisjafnaður árið 2040 og fjármagn liggur fyrir til aðgerða til að ná því markmiði. Loftslagsmálin eru eitt stærsta verkefni samtímans og ég endurtek að landbúnaðurinn er hluti af lausninni á því sviði.
Samandregið er skilaboð mín til ykkar þessi: Á grunni allra þessara verkefna erum við í sterkri stöðu til að sækja fram og grípa þau tækifæri sem gefast til sóknar og nýrra sigra í þágu lands og þjóðar. Framtíð íslensks landbúnaðar er björt.
Kæru gestir Búnaðarþings.
Samhliða stefnumótun fyrir íslenskan landbúnað blasa mörg krefjandi verkefni fyrir bændum og forystu ykkar. Meðal annars breytingar á félagskerfi Bændasamtakanna og ég veit að hér liggja fyrir tillögur um verulegar skipulagsbreytingar sem ég vona að verði ykkar starfi til heilla. Það er ekki einungis hagsmunamál fyrir bændur að hafa öflug samtök sem sameina íslenska bændur og tala máli þeirra, það er jafnframt mikilvægt fyrir samfélagið allt.
Til viðbótar vil ég nefna að eitt stærsta verkefni bænda er að styrkja enn frekar tengslin við íslenska neytendur. Neytendur eru bandamenn bænda og þau bönd ber að treysta. Bændur verða til framtíðar að svara spurningum neytenda, hlusta eftir þeirra þörfum og auka skilning. Með því er hægt að sameinast í því að draga fram óumdeilda kosti innlendrar matvælaframleiðslu umfram það sem innflutt er og stuðla þannig að því að íslenskar vörur verði fyrsti kostur allra neytenda.
Ég vil hér að lokum þakka forystu bænda og bændum um allt land fyrir árangursríkt samstarf á þessu kjörtímabili. Það er heiður fyrir sveitastrák, sem er alinn upp við sjó, að fá að gegna þessu embætti og fá að kynnast svo náið þeirri öflugu atvinnugrein sem íslenskur landbúnaður er.
Ég færi ykkur mínar bestu óskir við úrlausn þeirra mála sem til umræðu verða á Búnaðarþingi og óska þinginu velfarnaðar í störfum