Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. desember 2021 MatvælaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Loftslagsvænni landbúnaður

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er áhersla lögð á baráttuna við loftslagsbreytingar og umhverfisvernd. Þar segir meðal annars að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu. Þróun og árangur íslensks samfélags hefur byggst á því að skapa jafnvægi í sambýli fólks og náttúru og á þeim grunni þarf að byggja til framtíðar og tryggja forsendur til velsældar núverandi og komandi kynslóða. Við erum hluti af vistkerfum jarðar en þau þarf bæði að vernda og efla og sjálfbærni í allri umgengni við náttúruna er í því samhengi lykilatriði.

Markmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum eru meðal annars að leggja áherslu á aðgerðir til að draga úr losun vegna landnotkunar, hraða orkuskiptum og setja áfangaskipt losunarmarkmið fyrir hvern geira, í samráði við sveitarfélög og atvinnulífið.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru sérstök markmið sem snúa að loftslagsvænni landbúnaði. Þar má til dæmis nefna þau markmið að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu og samhæfa stuðning hins opinbera með það að markmiði að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Einnig verður útfærður rammi um framleiðslu vottaðra kolefniseininga í landbúnaði og annarri tengdri landnotkun.

Ég mun leggja áherslu á framgang verkefna sem stuðla að loftslagsvænni landbúnaði í embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar búum við að góðum grunni, til dæmis aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum frá 2020, en íslensk stjórnvöld hafa þar sett sér skýr markmið um aðgerðir til að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030.

Í aðgerðaáætluninni er sérstakur kafli tileinkaður landbúnaði þar sem fram koma fimm aðgerðir sem eru til þess fallnar að draga úr losun í landbúnaði, en losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði kemur einkum frá búfé og notkun áburðar. Aðgerðirnar sem snúa að landbúnaði eru loftslagsvænni landbúnaður, kolefnishlutleysi í nautgriparækt, aukin innlend grænmetisframleiðsla, bætt nýting og meðhöndlun áburðar og bætt fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun. Mikilvægt er að koma þessum aðgerðum til framkvæmda, og samtímis þarf að gæta að því að afkoma bænda skerðist ekki. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2022 eykst fjárheimild til loftslagsaðgerða í landbúnaði um 75 milljónir króna.

Með því að vinna markvisst að því að stuðla að grænni og loftslagsvænni landbúnaði gætum við að lífríkinu og drögum úr neikvæðum loftslagsbreytingum af mannavöldum. Það er mikilvægt markmið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. desember 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta