Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. desember 2021 MatvælaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Grænni sjávarútvegur

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem tók til starfa 28. nóvember 2021 leggur áherslu á vernd umhverfisins og baráttuna við loftslagsbreytingar, með samdrætti í losun, orkuskiptum og grænni fjárfestingu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samhliða baráttunni við loftslagsbreytingar sé það verkefni ríkisstjórnarinnar að búa samfélagið undir aukna tæknivæðingu og tryggja áframhaldandi lífskjarasókn með því að leggja áherslu á jafnvægi efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta.

Ljóst er að samdráttur í losun frá sjávarútvegi skiptir miklu máli svo Ísland standist alþjóðlegar skuldbindingar og nái kolefnishlutleysi. Samkvæmt  Umhverfisstofnun er losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi á Íslandi einkum vegna notkunar olíu sem eldsneytis í fiskiskipum, flúoraðra gróðurhúsalofttegunda sem  notaðar eru í kælibúnaði, og notkunar olíu sem orkugjafa í fiskimjölsverksmiðjum.

Ég mun leggja áherslu á aðgerðir sem stuðla að umhverfisvænni sjávarútvegi í embætti ráðherra matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar, samhliða því að leggja áherslu á að stuðla að verndun, sjálfbærni og hagkvæmri nýtingu nytjastofna í sjó og lifandi auðlinda hafs.

Í tíð síðustu ríkisstjórnar var unnin mikilvæg vinna hvað varðar umhverfisvænni sjávarútveg sem byggja má áframhaldandi vinnu á. Þar má til dæmis nefna skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra Græn skref í sjávarútvegi. Starfshópurinn sem vann skýrsluna var skipaður í samræmi við aðgerð í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum um að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi með blönduðum aðgerðum (aðgerð B.1) og verkefni hópsins voru meðal annars að vinna tillögu að umfangi samdráttar í losun frá sjávarútvegi árið 2030, tillögur um innleiðingu fjárhagslegra hvata og tillögur um hvernig megi auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í sjávarútvegi.

Samhliða skipan hópsins undirrituðu sex ráðherrar og fulltrúar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi samstarfsyfirlýsingu sumarið 2020, um græn skref í sjávarútvegi, þar sem kveðið var á um formlegt samstarf stjórnvalda og sjávarútvegsins til að tryggja að markmiðum Íslands í loftslagsmálum verði náð.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að tillögum starfshóps um græn skref í sjávarútvegi verði fylgt eftir, til að flýta eins og kostur er orkuskiptum í sjávarútvegi og ná markmiðum um samdrátt í losun.

Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og sjávarútvegsins að skapa umgjörð svo greinin geti haldið áfram að leggja sitt af mörkum til þeirra nauðsynlegu skrefa sem stíga þarf í loftslagsmálum, bæði til skemmri og lengri tíma og ég mun gera það sem í mínu valdi stendur til að stuðla að framgangi þess stóra verkefnis.

 

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. desember 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta