Nýtt ráðuneyti matvæla - grein birt á mbl.is 17. janúar 2022
Um mánaðamótin næstkomandi tekur til starfa matvælaráðuneyti, sem byggir á grunni þeirra málefna sem heyrðu undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Auk málefna sjávarútvegs, landbúnaðar, matvælaöryggis og fiskeldis munu málefni skóga, skógræktar og landgræðslu flytjast til matvælaráðuneytisins.
Í nýju matvælaráðuneyti gefst tækifæri til að fjalla um tækifæri og áskoranir íslenskrar matvælaframleiðslu til framtíðar í víðu samhengi, og jafnframt leggja áherslu á það að matvælaframleiðsla styðji í enn meira mæli en áður við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar og mikilvægi sjálfbærrar nýtingar á auðlindum lands og hafs. Tækifæri til að styrkja samkeppnishæfni og verðmætasköpun íslenskra framleiðenda þarf að fullnýta, til dæmis með eflingu nýsköpunar og rannsókna á málefnasviði ráðuneytisins.
Verkefni á sviði skógræktar og landgræðslu tengjast landbúnaði og landnýtingu á margan hátt, sem og loftslagverkefnum í landbúnaði, og með tilfærslu málefna skógræktar og landgræðslu til matvælaráðuneytis skapast tækifæri til að auka umfang og bæta árangur loftslagsverkefna á þessum sviðum. Verkefnaflutningurinn styður þannig við stór markmið ríkisstjórnarinnar í umhverfis- og loftslagsmálum samkvæmt stjórnarsáttmálanum.
Skógræktin veitir framlög til skógræktar á lögbýlum og nauðsynlega þjónustu tengda þeim, rekur þjóðskógana sem eru vettvangur fjölþættra skógarnytja og skipuleggur skógrækt á landsvísu í samráði við sveitarfélög og aðra hagaðila í formi landsáætlunar og landshlutaáætlana í skógrækt. Skógræktin stundar einnig rannsóknir í þágu skógræktar, veitir ráðgjöf og fræðslu. Landgræðslan vinnur að stöðvun jarðvegs- og gróðureyðingar, gróðureftirliti og gróðurvernd. Hún veitir fræðslu og annast rannsóknir og þróunarstarf, tengt sjálfbærri landnýtingu.
Meðal helstu verkefna í skógrækt og landgræðslu er að huga að því hvernig stuðlað verði að aukinni bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi og komið í veg fyrir losun í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands en aðkoma stofnana ríkisins hefur einkum falist í að þróa vottunarkerfi fyrir skógrækt.
Íslenskur landbúnaður, sjávarútvegur og fiskeldi mynda þungamiðjuna í innlendri framleiðslu matvæla og hafa mikil og sterk tengsl við atvinnu fólksins í landinu. Með ráðuneyti matvæla gefst tækifæri til að leggja áherslu á matvælaframleiðsluna, nýsköpun og eflingu loftslagsmála og bæta þar með lífsskilyrðin í landinu okkar enn frekar. Markmiðið er að hér sé gott að búa og starfa, þannig að hér ríki velsæld og jöfnuður og að þannig verði það áfram fyrir kynslóðir framtíðarinnar.
Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra