Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. mars 2022 MatvælaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Ávarp SS á stefnumóti við stjórnendur í sjávarútvegi

Ávarp Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra á stefnumóti við stjórnendur í sjávarútvegi 22. mars 2022 í Hátíðasal HÍ. 13.30 -16.00

Ágæti rektor, kennarar, nemendur og aðrir þátttakendur,

Það er mér sérstakt ánægjuefni að ávarpa ykkur hér á stefnumóti við stjórnendur í sjávarútvegi sem helgað er konum í sjávarútvegi.
Þrátt fyrir að enn eimi töluvert eftir af karllægri slagsíðu í sjávarútvegi þá er þátttaka kvenna í sjávarútvegi þó nokkur og hefur verið í gegnum tíðina. Til eru fjölmargar frásagnir af konum sem sóttu sjó og þær sögur markast ekki síst af hugdirfsku þeirra, útsjónarsemi og styrk við oft afar erfiðar aðstæður. Heimildir greina frá aflasælum konum og kvenkyns formönnum. Þannig mætti halda hér langa tölu um Þuríði Einarsdóttur, kona sem fæddist árið 1777, var sjö ára gömul þegar móðuharðindin gengu yfir þjóðina. Hún stundaði sjóinn frá ellefu ára aldri þangað til hún varð 66 ára gömul, jafnan sem formaður á áttæringi. Með kvittað upp á það frá sýslumanni að mega klæðast „karlmannsfötum.“ Eins og örlög svo margra voru á þessum tíma dó hún eignalaus á sveitastyrk. Þá eru til frásagnir af konum sem fæddu börn úti á opnu hafi eða í flæðarmáli rétt eftir lendingu. Þessi dæmi og fjölmörg fleiri benda til þess að sjósókn hafi verið eðlilegur hluti af lífi margra kvenna eins og kom fram í rannsókn Dr. Margaret E. Wilson mannfræðings sem rannsakaði sjósókn íslenskra kvenna í fortíð og nútíð. Áskoranir kvenna í sjávarútvegi eru því ekki nýjar af nálinni þó að ekki lengur þurfi leyfi frá sýslumanni til að fara í olíuföt.
Vert að benda á áhugaverða rannsókn um stöðu kvenna í sjávarútvegi árið 2021 sem unnin var fyrir félag kvenna í sjávarútvegi og kynnt var fyrr í mánuðinum. Þar kemur í ljós konum hefur fjölgað í störfum tengdum sjávarútvegi á síðustu fimm árum, en enn sem komið er fjölgar þeim hægt. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá að hlutfall kvenkyns framkvæmdastjóra hefur hækkað frá 16% upp í rúm 24% sem er þróun í rétta átt þó vissulega væri gott að sjá hraðari fjölgun.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar birtast leiðarstef okkar um efnahagslegar og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og jafnvægi byggða og kynslóða.
Jafnrétti kynjanna er mikilvægur þáttur í heilbrigðu samfélagi og jafnréttismál eiga að vera í forgrunni við ákvarðanatöku jafnt í sjávarútvegi sem á öðrum sviðum.
Því er umræðuefni þessa stefnumóts tímabært og er mér þar jafnrétti sérstaklega hugleikið, enda eitt af þeim málum sem ég hef sett í forgang í nýju ráðuneyti matvæla.
Matvælaráðuneytið er nú með til kynningar á samráðsgátt stjórnvalda greinargerð sem lýsir áherslum og fyrirhuguðu verklagi matvælaráðherra við stefnumótun á sviði matvæla á kjörtímabili ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar − græns framboðs.
Matvælastefnan verður leiðarstef í matvælaframleiðslu á Íslandi, hvort heldur sem er í landbúnaði, sjávarútvegi eða fiskeldi. Stefnur í landbúnaði, sjávarútvegi og fiskeldi munu þannig byggja á matvælastefnunni. Stefnurnar tengjast og móta heildstæðan grunn fyrir sjálfbæra stefnu Íslands þar sem markmið og aðgerðir eru skýrt afmarkaðar til langs tíma.
Ljóst er að sjávarútvegsstefna verður einn af hornsteinum matvælastefnu og líkt og kemur fram í stjórnarsáttmálanum þá verða áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum kortlagðar ásamt því að þjóðhagslegur ávinningur fiskveiðistjórnunarkerfisins verður metinn.
Í ljósi fyrri reynslu af vinnu við endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni þá er lagt til að nýrri nálgun verði beitt við þær fjölmörgu áskoranir og tækifæri sem eru í sjávarútvegi og snerta samfélagið allt með beinum og óbeinum hætti. Í stað einnar stórrar nefndar hyggst ráðherra stofna til opins og gagnsæs verkefnis fjölmargra aðila sem unnið verði að með skipulegum hætti á kjörtímabilinu. Fjölmenn nefnd, sem ráðherra stýrir, hefur yfirsýn yfir starf fjögurra starfshópa um tiltekin verkefni. Starfshóparnir eru: Samfélag, Aðgengi, Umgengni og Tækifæri.
Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er einnig fjallað um nauðsyn þess að skapa sátt um nýtingu auðlinda og að lögð verði áhersla á baráttuna við loftslagsbreytingar með samdrætti í losun, orkuskiptum og grænni fjárfestingu. Jafnframt er það um leið verkefni okkar að búa íslenskt samfélag undir aukna tæknivæðingu auk þess að tryggja áframhaldandi lífskjarasókn allra kynslóða.
Sem ráðherra matvæla er mér sérstaklega hugleikið að auðlindir sjávar verði að stærstum hluta að matvælum sem enda á diskum erlendra og innlendra neytenda.
Því er það algjört lykilatriði að meðhöndla hráefnið rétt svo gæði og orðspor íslenskra afurða séu tryggð á mörkuðum. Ef umgengni um hráefnið er ekki upp á tíu þá eigum við á hættu að glata þeirri góðu stöðu sem við höfum náð á mörkuðum á liðnum áratugum. Við megum aldrei sofna á verðinum - íslenskur sjávarútvegur á í stöðugri samkeppni á erlendum mörkuðum. Á sama tíma þurfum við að líta til framtíðar og huga að því hvernig við verjum auðlindina á tímum loftslagsbreytinga. Við þurfum að styðja við frekari rannsóknir og þróun greinarinnar auk þess að stuðla að nýsköpun í sjávarútvegi og tengdum greinum.
Ríkisstjórnin hefur sett loftlagsmál í forgang enda má segja að það verkefni sé eitt það mikilvægasta til framtíðar. Eitt af þeim verkfærum sem við eigum og getum nýtt eru tillögur starfshóps um
græn skref í sjávarútvegi. Það er samvinnuverkefni sem krefst þess að ríkið, sveitarfélög og atvinnulífið leggi sitt að mörkum.
Ljóst er að okkur bíða ærin verkefni í hinu nýja ráðuneyti matvæla á sviði stefnumótunar matvælastefnu, grænna skrefa í sjávarútvegi og síðast en ekki síst að vinna að jöfnuði og jafnrétti.
Ég óska ykkur velgengni á þessu stefnumóti.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta