Ávarp matvælaráðherra við undirskrift samninga um smíði nýs hafrannsóknaskips
Ávarp matvælaráðherra við undirskrift samninga um smíði nýs hafrannsóknaskips 1. apríl 2022.
Fjármálaráðherra, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, forstjóri Armon Vigo, kæra starfsfólk og aðrir gestir,
Segja má að öflugar rannsóknir séu meginforsenda þess að Íslendingar geti tekist á við þær breytingar sem eiga sér nú stað á umhverfi hafsins, vistkerfi þess og auðlindum.
Það er því sérstaklega ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag, í tilefni undirritunar samnings um kaup og smíði á nýju hafrannsóknaskipi. Þetta er stund sem mörg okkar hafa beðið eftir, því þörfin fyrir nýtt hafrannsóknarskip hefur fylgt okkur um nokkurt skeið.
Hugmyndir að nýju skipi hafa verið ræddar í rúman áratug, og þakka ber Alþingi fyrir að hafa tekið af skarið sumarið 2018 og ályktað um kaup á nýju skipi. Síðan þá hefur verið unnið markvisst að málinu.
Eftir undirbúningsvinnu, hönnunarferli og útboðsferli stöndum við á þeim ánægjulegu tímamótum í dag að undirrita samning við skipasmíðastöðina Armon Vigo á Spáni.
Sérstaklega ber að þakka starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar, Skipasýnar og Ríkiskaupa sem hafa unnið ötullega að undirbúningnum. Einnig smíðanefnd og loks verkefnastjórn sem mun halda utan um kaupin og smíðina til enda.
Nú tekur við um tveggja og hálfs árs smíðatími og verður það mikið tilhlökkunarefni að fá skipið til þjónustu, að geta fært Hafrannsóknastofnun nýtt og betra skip til að sinna sínum mikilvægu störfum.
Það er mikilvægt að við hér á Íslandi getum stundað þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að geta tekið ákvarðanir sem byggja á bestu fáanlegu þekkingu og stuðla sem best að sjálfbærni auðlinda hafsins.
Matvælaráðuneytið var stofnað í febrúar sl. á grunni verkefna sjávarútvegs- og landbúnaðar, ásamt skógrækt og landgræðslu. Í nýju ráðuneyti gefst tækifæri til að fjalla um tækifæri og áskoranir íslenskrar matvælaframleiðslu til framtíðar í víðu samhengi. Jafnframt er áhersla lögð á að matvælaframleiðsla styðji í enn meira mæli en áður við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar og mikilvægi sjálfbærrar nýtingar á auðlindum lands og hafs. Hið nýja skip og rannsóknamöguleikar þess mun því vera öflugt tæki sem mun styðja við þessi markmið matvælaráðuneytisins.
Rannsóknir á náttúrunni eru grundvöllur að þekkingu og ákvörðunum bæði til nýtingar auðlinda og verndunar. Þá mun skipið einnig nýtast til rannsókna á hafsbotninum og mælingum á ýmsum umhverfisþáttum í hafinu.
Ég óska Hafrannsóknastofnun til hamingju með áfangann og veit að þau ásamt okkur í ráðuneytinu eru farin að telja niður í að nýja skipið verði sjósett og því gefið nafn, þá verður hátíð í bæ!
Mr. BARAGANO, I want to thank you for your visit here to Hafnarfjörður Iceland, and your interest in building such a specialized research ship for Iceland. I am confident that this project of ours will be both exciting and beneficial.
Thank you, takk fyrir