Forathugun á sameiningu stofnana - grein birt á mbl.is 2. maí 2022
Fyrir rúmri öld voru settar á fót tvær brautryðjendastofnanir sem hafa unnið göfugt starf alla tíð síðan. Landgræðslan og Skógræktin hétu upphaflega Sandgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins. Verkefni beggja stofnana hefur frá upphafi verið að vernda og græða land. Fyrstu áratugirnir snerust um nauðvörn, skógum hafði verið eytt og sveitir sums staðar lagst í auðn vegna jarðvegseyðingar.
Könnum kosti sameiningar
Síðan þá hafa verkefnin breyst. Samkvæmt nýjum lögum um skógrækt og landgræðslu skal gera stefnumarkandi áætlanir um landgræðslu og skógrækt til lengri tíma. Unnið er að því í mínu ráðuneyti að samræma tillögurnar í eina heildaráætlun sem nær m.a. yfir verndun og endurheimt vistkerfa, náttúrumiðaðar lausnir í loftslagsmálum, sjálfbæra landnýtingu, eflingu þekkingar og samstarfs og hvernig þessi verkefni geta stuðlað að jákvæðri byggðaþróun. Þessi nálgun mun einfalda til muna forgangsröðun og þannig stuðla að aukinni skilvirkni og auknum árangri.
Þessar systurstofnanir í vistvernd og nýtingu lands hafa að mörgu leyti algjörlega hliðstæð verkefni. Báðar endurheimta vistkerfi og sinna mikilvægum málefnum sem snúa að losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda. Þær eiga ríka og farsæla sögu um samstarf með grasrótarsamtökum, almenningi og landeigendum. Mikilvægi loftslags- og umhverfismála hefur aldrei verið meira en á okkar tímum, jafnt á heimsvísu sem innanlands. Það umhverfi sem Landgræðslan og Skógræktin hafa starfað í hefur tekið hröðum breytingum, og væntingar almennings og stjórnvalda hafa breyst. Með tilliti til alls þessa, augljósrar skörunar verkefna og mikillar samlegðar hef ég ákveðið að setja af stað forathugun á sameiningu þessara tveggja stofnana.
Eflum og endurheimtum
Næstu áratugina er það forgangsverkefni að leita víðtæks samstarfs um að endurheimta og efla vistkerfi landsins til að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum. Samhliða því þarf að hlúa að og efla líffræðilega fjölbreytni og styrkja aðra vistkerfisþjónustu sem landið hefur upp á að bjóða. Það þarf jafnframt að efla þekkingu á flóknu samspili landnýtingar og loftslagsmála og samhæfa miðlun upplýsinga til almennings og stjórnvalda. Síðustu ár hafa báðar stofnanir mikið aukið ráðgjöf til landeigenda og unnið að mörgum samvinnuverkefnum með þeim. Þar má m.a. nefna skógrækt á lögbýlum og Bændur græða landið. Sérfræðingar beggja stofnana búa yfir mikilli sérhæfðri þekkingu og öflugar rannsóknir á vistkerfum, gróðurfari og loftslagi eru stundaðar af beggja hálfu. Með því að sameina fagþekkingu og krafta þessara stofnana verður til öflug stofnun sem sinnir ráðgjöf við nýtingu lands og styður við eflingu allra vistkerfa og landgæða til framtíðar.
Höfundur er matvælaráðherra.