Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. júní 2022 MatvælaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Sprett úr spori - grein birt á mbl.is 17. júní 2022

Fyrir níu dögum skipaði ég þriggja manna spretthóp til þess að fara yfir og gera tillögur að aðgerðum til þess að mæta alvarlegri stöðu í landbúnaði. Ljóst var orðið að grípa þurfti til ráðstafana til þess að treysta fæðuöryggi. Ástæðan er fyrst og fremst sú að innrás Rússa í Úkraínu hefur haft afar alvarlegar afleiðingar fyrir aðfangakeðju landbúnaðar á heimsvísu og þar með hér á landi. Þetta er vel dregið saman í skýrslu spretthópsins.

Hópurinn vann afar hratt og vel og á heiður skilinn fyrir að geta tekist á við verkefni af þessari stærðargráðu innan þessa þrönga tímaramma. Þá fjallar hópurinn vel um þá ólíku stöðu sem er uppi í landbúnaði, þar sem sérstaklega sauðfjárræktin er í veikri stöðu, vegna viðvarandi lágs afurðaverðs í kjölfar verðhruns áranna 2016 og 2017. Tillögurnar voru að ráðstafa beri 2,5 milljörðum í sérstakan stuðning við landbúnað en einnig er fjallað um umbætur til lengri tíma. Langtímamarkmiðið er að treysta stöðu fæðuöryggis á Íslandi og að stuðla að hagræðingu. Ég gerði tillögur hópsins að mínum en þær voru svo samþykktar í ríkisstjórn. Ég stend með bændum í þeim þrengingum sem nú ber að garði.

Berskjaldaður landbúnaður

Það er ærið umhugsunarefni að íslenskur landbúnaður sé eins útsettur og raun ber vitni fyrir sviptivindum á alþjóðavísu. Við erum ekki ein um það að hugsa fæðuöryggismál í nýju samhengi, það gera allar þjóðir nú. Innrás Rússlands hefur haft þau áhrif að verð á ýmsum aðföngum hefur hækkað mikið og ólíklegt þykir að þær hækkanir gangi til baka á næstu mánuðum. Þar er um að ræða kornvöru, orkuverð og líklegt má telja að áburðarverð haldist áfram hátt. Þá eru líkur á því að bið verði á því að landbúnaðarframleiðsla í Úkraínu verði með eðlilegum hætti. Því þurfum við núna að byrja að hugsa um næsta ár og hvernig við getum eflt innlenda framleiðslu á korni, hvernig við getum nýtt lífrænan áburð betur og styrkja stöðu fæðuöryggis með öllum ráðum.

Markmið og leiðir

Oft er talað um að gott sé að ljúka spretti á feti en margt þarf að hugleiða þegar farið er niður á fetið. Það var ákvörðun í sjálfu sér að byggja upp innlendan landbúnað á þann hátt að við gerðum ráð fyrir hnökralausu aðgengi að kornvöru. Auðvelt er að vera vitur eftir á, en það má með sanni segja að við hefðum betur byrjað fyrr á að ræða, af fullri alvöru, fæðuöryggi og hvernig við treystum það. En við þekkjum það úr íslenskri sögu að stundum þarf krísur til þess að hrinda af stað umbótum. Að þessu verður unnið í matvælaráðuneytinu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta