Glórulaus matarsóun - grein birt á mbl.is 4. ágúst 2022
Talið er að einn þriðji af þeim matvælum sem framleidd eru í heiminum á hverju ári nýtist ekki til manneldis. Það er geysilegt magn. Þetta eru ekki nýjar fréttir en þrátt fyrir mikla umræðu um matarsóun á undanförnum árum þokumst við alltof hægt í rétta átt. Margt hefur verið reynt. Stjórnvöld, einstaklingar og félagasamtök hafa ráðist í ýmis verkefni til þess að sporna gegn matarsóun. En því miður sjáum við enn ekki nægilega mikinn árangur. Umrædd verkefni hafa helst miðað að því að reyna að ná fram hugarfarsbreytingu en þau hafa ekki skilað okkur langt.
Aðgerðaáætlun gegn matarsóun
Í lok síðasta kjörtímabils lagði umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fram fyrstu heildstæðu aðgerðaáætlun gegn matarsóun á Íslandi og þeim umhverfisáhrifum sem af henni hljótast. Aðgerðaáætlunin samanstendur af 24 aðgerðum sem snúa að allri virðiskeðju matvæla, frá frumframleiðslu til neytenda. Markmið þessara aðgerða er að minnka matarsóun í allri virðiskeðjunni um 30% fyrir árið 2030. Til þess að þetta takist þarf samstillt átak samfélagsins alls; atvinnulífs, almennings og stjórnvalda. Aðgerðaáætlunin er á ábyrgð umhverfis-, orku, og loftslagsráðuneytisins. Enda eru flest stjórntækin til að takast á við matarsóun þar. En hluti af matarsóun verður við framleiðslu matvæla. Íslendingar hafa þannig náð miklum árangri í að draga úr matarsóun með bættri nýtingu á sjávarafurðum, en Íslendingar nýta stærri hluta t.d. hvers þorsks til verðmætasköpunar en víðast annars staðar.
Brauðfæða mætti tugi milljóna jarðarbúa sem nú búa við matarskort með því að draga úr matarsóun. Koma má í veg fyrir mikla sóun á verðmætum. Við framleiðslu á matvælum sem er hent þarf að nýta land, vatn, áburð og aðrar auðlindir jarðar. Allt eykur þetta losun á gróðurhúsalofttegundum, til einskis. Það er auðvitað glórulaust.
Matarsóun og fæðuöryggi
Náttúruhamfarir, stríð í Evrópu og heimsfaraldur hafa minnt okkur rækilega á mikilvægi þess að huga að fæðuöryggi og það hafa stjórnvöld einmitt gert. Fyrstu viðbrögð eru að leita leiða til að auka framleiðslu hér á landi sem við getum og eigum að gera ásamt því að styðja bændur vegna aðfangahækkana. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt að sporna gegn því að sóa matvælum sem þegar eru framleidd.
Kannanir sýna að sjö af hverjum tíu reyna að lágmarka matarsóun. En til að við náum raunverulegum árangri þurfa fyrirtæki og stofnanir að stíga inn í þessa baráttu af fullum þunga og fullri alvöru. Við þurfum hvata og við þurfum leiðir til að mæla matarsóun. Fjölmargar leiðir eru lagðar til í aðgerðaráætluninni sem ég hvet öll til að kynna sér. Við sem þjóð eigum að krefjast árangurs þegar kemur að matarsóun.