Land og líf - grein birt á mbl.is 10. september 2022
Fyrir stuttu gaf matvælaráðuneytið út samræmda áætlun í landgræðslu og skógrækt, ásamt aðgerðaáætlun til næstu fimm ára. Þar með er mörkuð stefna um hvernig við viljum sjá landgræðslu og skógrækt þróast næstu ár og tilgreint hvernig við ætlum að hrinda þeim fyrirætlunum í framkvæmd. Markvissar aðgerðir sem þessar eru forsenda þess að við getum náð markmiðum okkar í loftslagsmálum. Vinna þarf að því að ná 55% samdrætti fyrir árið 2030 og svo að hinu stóra verkefni, að þjóðfélagið verði kolefnishlutlaust árið 2040. Án mikils árangurs í þeim hluta sem heyrir undir landnotkun mun það ekki nást. Við höfum ekki tíma til þess að bíða þangað til að allri óvissu um hver losunin er, hefur verið eytt með rannsóknum. Við vitum nóg nú þegar. Við vitum að rofið land og framræst votlendi losar kolefni og skógrækt bindur kolefni.
Blómleg vistkerfi bæta lífsgæði
Þá eru þessar aðgerðir ekki eingöngu loftslagsaðgerðir heldur eru þær í sjálfu sér mikilvægar og góðar. Í rúm hundrað ár hefur Landgræðslan stundað sína mikilvægu starfsemi, sem fyrst um sinn snerist um nauðvörn en hin síðari ár um sókn. Þó er enn mikið verk fyrir höndum, enda er allt of stór hluti landsins illa gróinn en ætti að geta verið grösugar heiðar. Blómlegri vistkerfi styðja einfaldlega við bætt lífsgæði þjóðarinnar ásamt því að blómlegri vistkerfi gefa meiri afurðir af sér, fyrir þá sem nýta þau.
Þær aðgerðir sem unnið verður að munu skila hundruðum þúsunda tonna samdrætti í losun og aukinni bindingu. Gert er ráð fyrir blöndu af landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Orð eru til alls fyrst en það þarf einnig að huga að þeim hvötum sem eru til staðar fyrir landeigendur til að ráðast í verkefni. Ég sé fyrir mér að nauðsynlegt verði að beita búvörusamningunum til þess að skapa rétta hvata. Enda er það allra hagur að ráðist sé í sem fjölbreyttust landbótaverkefni. Eðlilegt er að ríkið búi þannig um hnútana að þeir sem ráðist í slík verkefni uppskeri laun erfiðis síns.
Bændur þurfa að uppskera fyrir árangur
Þessir hvatar eru ekki til staðar í þeim búvörusamningum sem gerðir voru 2016. Engir hvatar eru til staðar fyrir bónda að t.d. endurheimta votlendi eða stunda markvissa beitarstýringu. Þessu verður að breyta, því að öðrum kosti er ætlast til þess að bændur gefi vinnu sína. Það er hvorki sanngjarnt né vænlegt til árangurs. Til þess að við náum árangri verða nauðsynleg umskipti að vera réttlát. Þannig verður að aðlaga kerfið þannig að það umbuni þeim sem ná árangri í loftslagsmálum.
Næstu ár eru afgerandi. Samræmd áætlun í landgræðslu og skógrækt er stórt skref í rétt átt. En fleiri skref, m.a. grænkun búvörusamninga með áherslu á árangurstengingu þurfa að fylgja á næstu ár.