Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. október 2022 MatvælaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Sjávarútvegsdagurinn – ávarp 25. október 2022

Góðir fundarmenn,

Það er ánægjulegt að fá að ávarpa ykkur hér í dag. Þetta er í áttunda skiptið sem að þessi dagur hefur verið með þessu sniði, þar sem að Deloitte kynnir greiningu sína á afkomu sjávarútvegs og erindi haldin um áskoranir og tækifæri. Sem betur fer hefur þessi greining oftast nær verið með þeim hætti að vel hefur viðrað í sjávarútvegi. Þó að aflinn upp úr sjó hafi sveiflast upp og niður þá hefur lokaniðurstaðan síðustu ár verið sú að íslenskur sjávarútvegur hefur gengið vel sem heild. Þetta ár hefur verið afdrifaríkt á heimsvísu. Stríð geysar í Evrópu og því hefur sjávarútvegurinn fundið fyrir, í gegnum breytingar á afurðaverði og í gegnum viðskiptavini sína í Úkraínu. Samstaðan með fólkinu í Úkraínu er geysilega mikilvæg þar sem að þarna á sér stað barátta upp á líf og dauða fyrir sjálfsákvörðunarrétti þjóða. Ef að í krafti fantaskaps og stríðsglæpa næst að slökkva ljósin í Kænugarði erum við öll fátækari fyrir vikið. Hingað til hefur þessi samstaða verið órofin á Íslandi þrátt fyrir að í öðrum löndum séu summstaðar komnir brestir í samstöðuna sem snúast oft um hagsmuni. Þess vegna er tilefni til þess að hrósa þeim fyrirtækjum í sjávarútvegi sem stóðu fyrir styrkveitingum til hjálparstofnana sem eru að störfum í Úkraínu, sem tilkynnt var um í sumar.

Það eru miklar áskoranir framundan í sjávarútvegi, þessari rótgrónu atvinnugrein sem hefur verið burðarás í íslensku atvinnulífi og útflutningi. Helsta áskorunin nú um stundir er orkuskipti í sjávarútvegi. Í dag er það jarðefnaeldsneyti sem knýr íslensk fiskiskip. Samt eru trúlega fáar atvinnugreinar jafn útsettar fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og sjávarútvegur. Umhverfisbreytingar í hafi hvort sem það er hiti, selta eða straumar hafa gífurleg áhrif á sjávarútveg. Súrnun sjávar getur haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir greinina og þar með hagsmuni Íslands í heild sinni. Í því ljósi og sökum stærðar sjávarútvegsins í íslensku hagkerfi skiptir framlag sjávarútvegsins varðandi orkuskipti miklu í því að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum. En við vitum að verkefnið er krefjandi. Við vitum að tæknilausnirnar eru ekki á þeim stað sem við vildum og svo framvegis.

Einhverntíma var sagt að fyrst ætti að gera það sem er nauðsynlegt, síðan það sem er mögulegt og innan skamms erum við farin að gera það sem í dag virðist ómögulegt. Það er verkefnið næstu tíu ár, að koma hinu ómögulega í verk. Þar hef ég trú á íslenskum sjávarútvegi.

Íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafa lýst yfir að stefnt sé að 50% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna olíunotkunar frá árinu 2005 til ársins 2030. Þetta markmið er metnaðarfullt í ljósi þess að olíunotkun í sjávarútvegi hefur dregist mikið saman á síðustu áratugum vegna hagræðingar í flotanum, aukinnar tækni við smíði skipa og hönnun veiðarfæra sem miða að því að draga úr orkunotkun samhliða því að auka nýtingu og verðmæti sjávarafurða. Í ráðuneytinu er einnig unnið að gerð frumvarpa bæði hvað varðar rafvæðingu smábáta og breytingar á skráningu togbáta þ.e. afnáms aflvísis. Þessi áform eru lögð fram til að gera íslenskum sjávarútvegi kleift að vera áfram í fremstu röð á alþjóðavísu með sjálfbærri auðlindanýtingu, verðmætasköpun og kolefnishlutleysi. Við erum að byrja og fleiri skref bíða okkar.

Góðir fundarmenn,

Um árabil hefur reynst þrautin þyngri að ná samningum milli strandríkja Norður-Atlantshafsins um nýtingu deilistofna, á borð við norsk-íslenska síld, makríl og kolmunna. Fyrir liggur að sóknin í stofnana er í sumum tilvikum langt umfram vísindalega ráðgjöf og er því ósjálfbær. Íslensk stjórnvöld telja mikilvægt að semja um nýtingu deilistofna með það að markmiði að tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra. Þannig tryggjum við best okkar hagsmuni sem fara saman við hagsmuni stofnanna sjálfra. Krafan um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda kemur einnig og í vaxandi mæli frá verslunarkeðjum, neytendum og samtökum þeirra og þar með frá öllum almenningi. Þessa kröfu finn ég sem ráðherra málaflokksins og tek hana alvarlega. Fundað hefur verið stíft á árinu um makríl og Ísland hefur mætt lausnamiðað til leiks en með skýrar, sanngjarnar og rökstuddar kröfur.

Á síðasta þingi voru samþykktar breytingar á lögum varðandi eftirlitsheimildir Fiskistofu. Þessar breytingar lúta m.a að því að heimila Fiskistofu að nota nýjustu tækni til eftirlits með sjávarauðlindinni. Með tilkomu dróna við eftirlit Fiskistofu hefur komið í ljós brottkast í nokkuð víðtækari mæli en áður hafði fengist staðfest. Miklar væntingar eru að þessar breytingar gagnist til að stemma stigu við brottkasti. Þessir ósiðir verða upprættir enda er enginn sem mælir þeim bót og með tilkomu skilvirkari leiða til eftirlits hef ég fulla trú á að þessi lögbrot muni heyra sögunni til innan skamms.

Bætt umgengni um sjávarauðlindina er og verður ávallt forgangsmál. Nú liggja fyrir betri og gleggri upplýsingar um viðkvæm búsvæði á hafsbotninum umhverfis Ísland. Slík svæði geta verið fágæt, innihaldið sjaldgæfar eða viðkvæmar tegundir, verið verðmæt eða mikilvæg fyrir nytjastofna eða verðið í hættu á rýrnun eða eyðileggingu vegna athafna mannsins. Í því samhengi hef ég falið mínu fólki í  áðuneytinu að hefja vinnu við samningu reglugerðar um verndun viðkvæmra vistkerfa í hafi.

Sem ráðherra sjávarútvegsmála hef ég lagt mikla áherslu á gagnsæi varðandi eignarhald sjávarútvegsfyrirtækja. Liður í því starfi er kortlagning stjórnunar- og eignatengsla í sjávarútvegi. Nýlega gerði ráðuneytið samning við Samkeppniseftirlitið um að tryggja fjárhagslegt svigrúm til að stofnunin geti ráðist í athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi. Samhliða er stefnt að auknu samstarfi stofnana á þessu sviði, þ.e. Samkeppniseftirlitsins, Fiskistofu, Skattsins og Seðlabanka Íslands.

Kortlagningunni er fyrst og fremst ætlað að auka gagnsæi og bæta stjórnsýslu á sviði eftirlits með stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi til frambúðar. Kortlagningin verður sett fram í sérstakri skýrslu sem skilað verður til matvælaráðuneytisins eigi síðar en 31. desember á næsta ári og hún mun nýtast ráðuneytinu í stefnumótunarvinnu um sjávarútveginn.

Í byrjun sumars skipaði ég samráðsnefnd og fjóra starfshópa til að greina áskoranir og tækifærin í sjávarútvegi og tengdum greinum. Verkefnið ber heitið, Auðlindin okkar – stefna um sjávarútveg. Starfshóparnir fjórir sinna afmörkuðum sviðum; samfélagi, aðgengi, umgengni og tækifærum. Hóparnir og nefndin eru skipuð samkvæmt sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 28. nóvember 2021.

Ég hef sannanlega góðar væntingar um vinnu þessara hópa og ég finn ekki annað en að öll nálgist þau verkefnið með jákvæðni og opnum huga. Áhöfnin í starfshópunum samanstendur af fjölbreyttum hópi sérfræðinga sem búa yfir mikilli þekkingu á sjávarútvegi og samfélaginu. Það er okkur öllum keppikefli að verkefnið verði unnið á sem faglegastan hátt og við erum svo lánsöm að vera með valið fólk í hverju rúmi. Samráðsnefndin hefur yfirsýn yfir starf starfshópa og aðra þætti verkefnisins. Gert er ráð fyrir að þessari vinnu ljúki fyrir árslok 2023.

Eitt af þeim mikilvægu málum sem hefur verið til umræðu í þessari stefnumörkun er staða hafrannsókna á Íslandi. Ég bað Jóhann Sigurjónsson að taka saman greinargerð um þá stöðu sem hann skilaði núna fyrir nokkrum vikum síðan. Þar veltir hann upp afar áleitnum spurningum um fjármögnun verkefna Hafrannsóknarstofnunar og mikilvægi þess að festa betur í sessi sjálfbærni í umgengni við fiskistofna í lögum ásamt mörgum fleiri þáttum. Ég hef í hyggju að leggja áherslu á þessi mál sem matvælaráðherra, því að við erum í svo mörgu háð því að skilja betur hafið og þær breytingar sem eru að verða á því. Ásamt því að leita svara við eilífðarspurningum sem snerta m.a. nýliðun í okkar mikilvægustu nytjastofnum.

Góðir fundarmenn

Það hefur oft verið sagt að það einkenni trúverðugt fólk að það gerir eins og það segir. Það er hægt að skrifa út miklar og fallegar lýsingar á áformum og stefnum en ef fólk gerir svo ekki eins og það segir þá er það ekki trúverðugt. Þetta þekki ég vel hafandi verið starfandi í stjórnmálum í rúm 15 ár. Trúverðugleika er erfitt að byggja upp og fljótgert að rífa niður. Það er að þeim sökum sem ég legg mikla áherslu í þeirri nálgun sem ég hef á stefnumótun í sjávarútvegi að ferlið sjálft sé til þess fólgið að byggja upp trúverðugleika og traust. Gegnsæi og aðgangur fyrir almenning af gögnum skipta máli. Seinna í dag verður fundur um stefnumótun í sjávarútvegi á Ísafirði. Þar sem heimamönnum og landsmönnum öllum í gegnum netið gefst tækifæri á að taka þátt í samtalinu um sjávarútveg. Fleiri fundir verða víðar um land á næstu vikum. Ég vil hvetja ykkur hérna til að taka þátt í gegnum audlindinokkar.is

Ég hef þá trú að samtalið sjálft um sjávarútveg skipti máli því ég finn það sem ráðherra hversu miklu máli það skiptir að heyra fjölbreytt sjónarmið frá almenningi og hagsmunaaðilum. Öðruvísi getum við ekki náð árangri í því að auka samfélagslega sátt um sjávarútveg á Íslandi.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta