Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. nóvember 2022 MatvælaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Landbúnaður til framtíðar - grein birt á mbl.is 5. nóvember 2022

Sjálfbær landbúnaður í breyttu umhverfi, áskoranir og lausnir var yfirskrift ráðherrafundar OECD landanna sem haldin var í París í vikunni. Fundurinn var sá fyrsti í sex ár og í millitíðinni hefur umræða um landbúnað tekið stakkaskiptum. Vegna þess mikla álags sem verið hefur á landbúnaðarkerfum heimsins, vegna afleiðinga heimsfaraldurs kórónaveiru og nú vegna innrásar Rússa í Úkraínu. En ekki síður vegna þess að þjóðir OECD hafa síðustu ár verið að vinna að því hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði vegna loftslagsvárinnar og alþjóðlegra skuldbindinga þjóða heims. Landbúnaðurinn á heimsvísu glímir því við þrjár áskoranir. Hvernig framleiða megi nægan mat til þess að fæða sífellt fleiri jarðarbúa. Hvernig draga megi úr losun vegna landbúnaðar, þar er ekki í boði að skila auðu, en Alþjóðabankinn spáir því að ef að ekki verði gripið til aðgerða muni losun frá landbúnaði tvöfaldast á næstu 30 árum. Síðast en ekki síst hvernig við tryggjum bændum og landbúnaðarverkamönnum réttláta og sanngjarna afkomu.

Allir eru að gera sitt besta

Það vekur bæði von og trú að heyra að áskoranirnar sem við er að etja séu sameiginlegar. Engin þjóð hefur komist að hinni einu réttu leið sem leysir allar áskoranir í landbúnaði. Þær eru meðal annars loftslagsmál, en snúast líka um afkomu bænda, nýliðun í bændastétt, um fæðuöryggi og um öryggi aðfangakeðja. Víða um heim er farin sú leið að hafa blöndu af annars vegar hvötum og hins vegar greiðslum fyrir almannagæði sem bændur framleiða og eða sinna með einhverju móti. Þau almannagæði eru m.a. menningarlandslag, líffræðileg fjölbreytni og vernd vistkerfa en síðast en ekki síst binding á kolefni. Á því leikur engin vafi að við þurfum að taka upp það sem best hefur gengið til þess að setja rétta hvata í innlendan landbúnað. Umræðan á fundinum snerist að talsverðu leiti um það hvernig unnt væri að ná jafnvægi milli þess að ná árangri í loftslagsmálum á sama tíma og styrkja fæðuöryggi.

Of mikilvægt til að mistakast

Áskorunin er slík að hún má ekki mistakast. Losun frá landbúnaði er veruleg á heimsvísu og í íslensku samhengi. Þá höfum við sem mannkyn rekist upp í og jafnvel rekist í gegnum þær takmarkanir sem eru á lífhvolfi jarðar aðrar en kolefnishringrásina. Hringrásir niturs og fosfórs, líffræðileg fjölbreytni, landnotkun og jarðvegsvernd og þannig mætti lengi telja. Hinn raunverulegi framleiðslukostnaður er ekki innifalin í verði landbúnaðarvara í dag. Svo ekki sé talað um þætti eins og dýravelferð og réttindi launafólks í matvælakeðjum heimsins. Umræða var á fundinum um hvernig megi leiðrétta þessa markaðsbresti og sú umræða var af meiri alvöru en áður hefur þekkst á þessum vettvangi.

Fundurinn var verulega gagnlegur, vel náðist að stilla saman strengi og öruggt er að hvert einasta ríki heldur til síns heima með fjölda hugmynda og enn skýrari sýn á það hvað þarf að gera og hvernig er best að nálgast þau risavöxnu verkefni sem framundan eru í landbúnaði.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta