Græn skref í rétta átt, MBL 13. desember 2022
Græn skref í rétta átt, MBL 13. desember 2022
Fáar atvinnugreinar á Íslandi eru jafn útsettar fyrir loftslagsbreytingum og sjávarútvegur. Nytjastofnar okkar eru háðir tilteknum breytum í hafinu, þar á meðal hitastigi, seltu, lífríki, næringarástandi og sýrustigi. Allar þessar breytur geta orðið fyrir áhrifum af loftslagsbreytingum. Áhrifin geta orðið þau að nytjastofnar færa sig um set, stækka eða minnka í okkar lögsögu. Þannig geta áhrif loftslagsbreytinga á þennan burðarás í íslensku atvinnulífi orðið afgerandi. Við vitum þó of lítið um hvenær og hver þessi áhrif verða.
Sívaxandi metnaður í loftslagsmálum
Því er það ekki furða
að ég finn sívaxandi metnað og áhuga hjá sjávarútveginum að stíga stærri skref
í átt til orkuskipta í sjávarútvegi. Tækninni fleygir fram og bara á þeim
stutta tíma sem ég hef gegnt embætti matvælaráðherra hefur mikið gerst. En leiðin
er löng og við sjáum ekki til lands. Tæknin sem mun gera okkur kleift að skipta
alfarið um orkugjafa er ekki nægjanlega langt komin. En það þýðir ekki að við
getum leyft okkur að gera ekki neitt. Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi
stendur, stíga öll skrefin stór og smá. Verkefnið er of stórt til að bíða eftir
einni lausn.
Í þessum anda hef ég lagt fram á Alþingi þrjú mál sem snúa að orkuskiptum í
sjávarútvegi. Vonandi fæ ég tækifæri til að mæla fyrir þeim sem fyrst þannig að
þingleg meðferð geti hafist. Hið fyrsta snýr að því að leyfa stærri skip sem
notast við endurnýjanlega orkugjafa í krókaflamarkskerfinu. Annað málið snýr að
því að fella á brott úr lögum úrelt ákvæði um aflvísa sem eru orðin
hraðahindrun á notkun á sparneytnari vélum. Hið þriðja snýst um að skapa hvata
fyrir rafvæðingu smábáta. Ekkert þessara mála mun leysa þá stóru áskorun sem
fellst í orkuskiptum í sjávarútvegi. En þau eru öll skref í rétta átt.
Loftslagsmál eru verkefni allra
Sumt í sjávarútvegi hefur reynst vera þrætumál á vettvangi stjórnmálanna. Ég hef þá trú að málefni sem snúa að loftslagsmálum falli ekki í þá gryfju. Til þess eru þau einfaldlega of mikilvæg. Íslenskur sjávarútvegur hefur dregið úr olíunotkun um 45% frá árinu 2005. Stjórnvöld og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa stefnt að 50% samdrætti fram til ársins 2030. Þannig er stefnt að meiri árangri á næstu átta árum en síðustu 18 ár. Til að það gangi eftir þarf fara saman einbeitt vinna útgerðanna og vilji stjórnvalda til að ryðja hindrunum úr vegi. Það tel ég að muni takast, enda mun samkeppnishæfni sjávarútvegs til lengri tíma verða háð því að loftslagsmál séu í öndvegi.