Sterk byggð á fjölbreyttum stoðum, MBL 9. mars 2023
Sterk byggð á fjölbreyttum stoðum, MBL 9. mars 2023
Í hvoru liðinu ertu, stendur þú með bændum eða neytendum? Landsbyggðinni eða höfuðborginni? Þetta eru spurningar sem oft er stillt upp. Sem þingmaður Reykvíkinga í matvælaráðuneytinu er skoðun mín einföld. Bændur og neytendur eru í sama liði. Við byrjum öll daginn á því að eiga í samskiptum við bændur. Við fáum okkur morgunmat, verkefni dagsins eru erfiðari á fastandi maga. Þegar við viljum gera okkur dagamun þá eigum við líka í viðskiptum við bændur, við eldum eitthvað gott, hvort sem það er kjöt eða grænmeti.
Það eru því einföld stjórnmál sundrungar að stilla hagsmunum neytenda og bænda upp sem andstæðum pólum. Vissulega eru það hagsmunir beggja að matvælaverð sé sanngjarnt. Ef verð á afurðum bænda er með þeim hætti að afkoman er engin þá verður engin nýliðun. En að sama skapi er það svo að ef verð á afurðum bænda er það hátt að þorri almennings hefur ekki efnahagslegt aðgengi að þeim gefur eftirspurnin eftir. Landsbyggð og höfuðborg geta ekki án hvors annars verið.
Þrátt fyrir þessar staðreyndir hefur verið viðvarandi umræða á Íslandi, og raunar á öllum Vesturlöndum, hvernig við tryggjum nýliðun í landbúnaði. Að mínum dómi verða afkomumálin ekki skilin frá samfélagi dreifbýlisins. Tannhjól sögunnar snúast í átt til aukinnar sérhæfingar, skilvirkni og stærðarhagkvæmni, hvort sem er í frumframleiðslu eða úrvinnslu. Því tel ég mikilvægt að við náum að sá fræjum fjölbreytni í sveitum og hlúum að þeim þannig að fleiri stoðir séu undir búsetu. Það er markmið þessarar ríkisstjórnar og einn liður í því er að setja fram aðgerðaráætlun til eflingar kornræktar. Sérfræðingar á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands hafa unnið slík drög sem kynnt verða á Hotel Nordica þann 15. mars næstkomandi kl. 11. Þar verða færð rök fyrir því að tækifæri í aukinni akuryrkju séu næg ef við berum gæfu til þess að stíga rétt skref núna. Hingað til hef ég ekki skynjað annað en þverpólitíska samstöðu um mikilvægi þess að stuðla að auknu fæðuöryggi og skjóta fjölbreyttari stoðum undir íslenska matvælaframleiðslu.
Uppbygging aukinnar kornræktar er liður í því. Á næstunni mun ég einnig leggja fram á Alþingi þingsályktun um landbúnaðarstefnu til ársins 2040, sem hefur verið í samráði við almenning síðustu vikur. Þar verður horft til aukins fjölbreytileika og fjölþættra hlutverka landbúnaðar með skýrari hætti en áður hefur verið. Dæmi um þá fjölþættu þjónustu sem bændur veita eða geta veitt er aukinn árangur í loftslagsmálum, endurheimt vistkerfa og verndun líffræðilegs fjölbreytileika. Sú þjónusta, ásamt stoðum hefðbundinnar matvælaframleiðslu, getur verið grunnurinn að blómlegum samfélögum um allt land.
Þekking og gagnsæi leggur grunn að sjálfbæru lagareldi, MBL 28. febrúar 2023
Þegar ég tók við embætti matvælaráðherra í lok nóvember 2021 varð mér fljótt ljóst að til þess að efna þau ákvæði stjórnarsáttmála um fiskeldi væri í mörg horn að líta. Í sáttmálanum er kveðið á um mótun heildstæðrar stefnu um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Leggja skyldi áherslu á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að greinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villtra laxastofna. Því var lagt upp með það að horfa í baksýnisspegilinn á sama tíma og við horfum fram á veginn. Til þess að vita hvert skuli halda þurfum við að vita hvar við erum stödd.
Til þess að staðsetja okkur óskaði ég eftir því að Ríkisendurskoðun gerði stjórnsýsluúttekt á fiskeldi. Sú skýrsla er til meðferðar hjá Alþingi og inniheldur margskonar ábendingar sem koma að góðu gagni í komandi stefnumótun. Einnig setti ég á hóp sérstaka starfshópa sem höfðu það verkefni að yfirfara ferla og reglur annars vegar er viðkoma smitsjúkdómum í fiskeldi en hins vegar varðandi strok laxfiska. Hvort tveggja eru málefni sem miklu máli skipta.
Skýrsla kynnt í dag
Síðast en ekki síst fékk ég ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting Group til þess að kortleggja möguleika lagareldis, þ.e.a.s. sjókvíaeldis, þörungaræktar, úthafseldis og landeldis. Þessir möguleikar eru settir fram í formi sviðsmynda. Í dag klukkan 13:30 kynnir Boston Consulting skýrslu sína um lagareldi á Reykjavík Hilton Nordica og í beinu streymi á vef Stjórnarráðsins. Þar verður ítarlega farið í saumana á stöðu þessarar atvinnugreinar, áskoranir og samanburð við önnur lönd. Skýrslan verður okkur verðmæt í þeirri stefnumörkun og ákvarðanatöku sem framundan er, t.a.m. hvað varðar gjaldtöku af greininni sem var til umræðu á síðasta ári.
Á næstu mánuðum mun ráðuneyti mitt taka saman þessi lykilgögn sem unnin hafa verið á liðnu ári og móta úr þeim tillögu að stefnu fyrir lagareldi á Íslandi til framtíðar. Leitað verður samráðs við hagaðila og sérfræðinga eftir þörfum og mun stefnumótunin verða birt í samráðsgátt stjórnvalda í haust þar sem almenningi gefst tækifæri á að koma athugasemdum sínum á framfæri. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fiskeldi verður svo lagt fram á vorþingi 2024, líkt og endurskoðunarákvæði núgildandi laga mælir fyrir um. Með þessu verklagi hef ég trú á að við stígum skref í átt að sjálfbærni greinarinnar til framtíðar með því að byggja stefnumörkun á grundvelli bestu þekkingar og gagnsærra vinnubragða.