Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. mars 2023 MatvælaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Ávarp matvælaráðherra á setningu Búnaðarþings 2023, 30. mars 2023.

Ávarp matvælaráðherra á setningu Búnaðarþings 2023

Forseti Íslands, búnaðarþingsfulltrúar og aðrir gestir

Ég vil byrja á því að þakka fyrir þetta tækifæri til að tala við ykkur í dag. Þetta fyrsta ár matvælaráðuneytisins hefur verið viðburðaríkt og hefur styrkt mig í þeirri trú að þrátt fyrir áskoranir í matvælakeðjunni er framtíðin björt fyrir íslenskan landbúnað. Tækifærin munu hins vegar ekki raungerast af sjálfu sér, það þarf skýra sín og markviss skref.

Skýr sýn

Að þessu hefur verið unnið síðan matvælaráðuneytið var sett á fót fyrir rúmi ári. Nýlega var landbúnaðarstefnu fyrir Ísland dreift á Alþingi, en hingað til hefur ekki verið nægilega skýrt hvert markmiðið með stuðningi við landbúnað er. Ýmis markmið má finna á víð og dreif í lögum sem reglusetja landbúnað og í markmiðsákvæðum búvörusamninga, en heildstæða sýn skortir.

Markviss skref

Þá höfum við einnig stigið markviss skref til þess að styðja við íslenskan landbúnað, en á síðasta ári var greiddur út sérstakur stuðningur til innlends landbúnaðar upp á 3,2 milljarða króna til þess að koma til móts við sérstakar aðstæður sem leiddu m.a. af innrás Rússa í Úkraínu.

En ekki nóg með það, því unnið hefur verið að því að skapa skilyrði fyrir aukinni kornrækt á Íslandi, enda er það forsenda fyrir auknu fæðuöryggi þjóðarinnar.

Eins og þið mörg vitið þá var fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar kynnt á dögunum. Þar birtist sú nýlunda að framlög til landbúnaðar verða aukin um tvo milljarða kr. á tímabili fjármálaáætlunar. Þeim framlögum verður varið til þess að hrinda aðgerðaráætlun um aukna kornrækt í framkvæmd.

Vinna við aðgerðaráætlunina, sem unnin var af sérfræðingum Landbúnaðarháskólans er framsýn, metnaðarfull en raunhæf áætlun um sókn, áætlun um það hvernig íslenskur landbúnaður geti á þessari öld brauðfætt þjóðina. Við vitum að það tekur tíma að byggja þessa grein upp þar sem innviði skortir. Við munum ekki fá íslenskt bökunarhveiti næsta haust, en við munum komast þangað. Byltingarkennd tækni í kynbótum plantna verður nýtt til þess að hraða erfðaframförum svo um munar. Búvísindafólk við Landbúnaðarháskólann, í samstarfi við erlenda sérfræðinga, mun nýta erfðavísindi til þess að aðlaga bygg og hveiti að íslenskum aðstæðum hraðar en nokkurn óraði fyrir að væri gerlegt fyrir fáum árum. Fyrstu kynbótalínurnar úr þessum nýju verkefnum koma til landsins næsta vor.

 

Fleiri verkefni af þessum toga eru í gangi í íslenskum landbúnaði. Síðasta vetur fundust erfðavísar sem veita vernd gegn riðu og gefa fyrirheit um að lokasigur gegn þessum vágesti sé raunhæfur. Ég veit að unnið er að því að skipuleggja hvernig unnt sé að nýta þessa erfðaauðlind á sem bestan hátt og ég veit að gott samstarf hefur verið á milli dýraheilbrigðisyfirvalda og bænda í tengslum við þetta mál.

Þá innleiddu kúabændur erfðamengisúrval í mjólkurkúm á síðasta ári og þar með voru tekin markviss skref til að auka samkeppnishæfni kúabænda – en jafnframt standa vörð um erfðaauðlindir innlendra búfjárstofna. Þau verkefni voru að stórum hluta fjármögnuð af kúabændum og afurðafyrirtækjum þeirra og eru til marks um þann kraft sem býr í greininni. Mér skilst að næstu skref séu þau að gefa kúabændum tækifæri að velja kyn kálfa fyrirfram og auka þannig ennþá á hagkvæmni. Þessi verkefni eru öll þekkingarverkefni, sem hafa það markmið að innleiða það sem gerist best erlendis í landbúnað hér á Íslandi.

Orðspor innlendra matvæla

En það er fleira jákvætt að gerast. Íslenskt lambakjöt fékk upprunavottun frá Evrópusambandinu á dögunum, nokkuð sem unnið hefur verið að í mörg ár.

Þannig skipar dilkakjötið okkar sér í hóp með Búrgundarvínum, parmaskinkum og ótal fleiri landbúnaðarvörum í hæsta gæðaflokki. Verkefnið nú hlýtur að vera að nýta þetta sem leið til þess að treysta enn frekar orðspor lambakjötsins sem gæðavöru. Það orðspor er fjöregg landbúnaðarins og það þarf að vernda. Liður í því er að framleiðslan sé sjálfbær og bændur séu í fararbroddi um það að nýta beitarland á sjálfbæran hátt, bæði hvað varðar samfélag og umhverfi.

Þá er mikilvægt að afurðafyrirtæki bænda gangi fram fyrir skjöldu með því að veita nákvæmar upplýsingar um uppruna, því að það er það sem neytendur óska eftir: Að geta tekið upplýstar ákvarðanir. Á síðasta ári var upprunamerkingin „Íslenskt staðfest“ kynnt og ég hef séð hana á innlendum vörum, þó einna helst á sjávarfangi. Ég held að við þurfum að setja aukinn kraft í það verkefni, til þess  að vernda fjöreggið ykkar, sem er orðspor innlendra matvæla. Það er, vörur sem neytendur geta treyst að séu framleiddar úr innlendum hráefnum og að farið sé að íslenskum kjarasamningum við framleiðsluna og svo framvegis.

Ég vil einnig nota tækifærið til að óska ykkur bændum til hamingju með nýju kollega ykkar, landeldisbændur, sem gengið hafa í samtökin. Ég hef þá trú að ef vel tekst til með innleiðingu hringrásarhagkerfisins í þessa nýju búgrein muni skapast mikil tækifæri, til dæmis við það að nýta þau lífrænu efni sem falla til til þess að búa til lífrænan áburð. Við vitum að það eru margar tæknilegar áskoranir í veginum til þess að líka eftir þeirri vistkerfisþjónustu sem hafið veitir sjókvíum, auk þess sem endurskoða þarf regluverkið í kringum lagareldi, eins og bent hefur verið á í skýrslum Ríkisendurskoðunar og Boston Consulting Group.  Ég er jafnframt fullviss um að ráðist verður í þessi verkefni af miklum metnaði en áform eru uppi um tugþúsunda tonna framleiðslu á laxi á landi á næstu árum. Vonandi gengur ykkur landeldisbændum vel í ykkar störfum.

Áskoranir

Á fundum mínum með bændum upp á síðkastið hef ég heyrt beint frá bændum um þær áskoranir sem við er að glíma. Afurðaverð á kjöti og mjólk, erfiðleikar sem stafa af vaxtastigi og því að það sé erfitt að taka við búum þegar fjárbinding er mikil. Þessar áskoranir eru þær sömu og ég heyri um rætt þegar ég sæki fundi landbúnaðarráðherra á alþjóðlegum vettvangi. Þar eru sömu áskoranir; um það hvernig við tryggjum nýliðun í grein sem hlýtur alltaf að vera háð því að afkoma sé réttlát. Þar held ég að við þurfum að horfa á það sem hefur gengið vel og það sem hefur gengið síður vel í íslensku atvinnulífi. Það mun ekki leysa þessar áskoranir að hella gömlum vínum á nýja belgi og kalla það umbætur.

Í vetur boðaði ég að ég myndi setja á þingmálaskrá næsta hausts frumvarp sem tryggir að íslenskir bændur sitji við sama borð hvað varðar samvinnu og samstarf og kollegar þeirra í Evrópusambandinu og Noregi. Það tel ég mikilvægt þar sem að í ljós hefur komið að þessi staða er ójöfn. Framleiðendafélög hafa mikilvægu hlutverki að gegna og ég tel að við þurfum skýrar leikreglur um þau mál, sérstaklega þegar við erum að horfa til þess að samlög byggist upp í kornrækt á næstu árum.

En í grundvallaratriðum tel ég að við þurfum að horfa til þess að fjárfesta í framförum til þess að takast á við áskoranir okkar tíma.  Einungis þannig getum við sem lítil þjóð viðhaldið samkeppnishæfni og þar með velsæld til lengri tíma. Þetta er og verður áskorun. Við höfum fordæmi úr sjávarútvegi, þar sem tekist hefur að halda vinnslum á Íslandi, með fjárfestingum í tækni, á meðan margar þjóðir flytja út sinn afla óunninn. Það eru miklar tæknibreytingar í farvatninu, gervigreind og róbótavæðing, sem mun í vaxandi mæli hellast yfir allt atvinnulíf á Íslandi.

Margar þeirra erum við í góðum færum að nýta okkur, vegna þess að hér á landi er mikill mannauður og við erum vel menntuð þjóð. Fjarskipti og háhraðatengingar eru óvíða betri í dreifbýli en hér á landi – þó alltaf megi gera betur. Þessir innviðir eru forsenda fyrir því að innleiða lausnir nákvæmnislandbúnaðar hér á landi.

Hugsanlega munu bændur í náinni framtíð geta spurt gervigreindarforrit spurninga á borð við: „Embla, hvaða orsakir geta verið fyrir hækkuðu úrefni í mjólk í síðasta mjólkursýni?“ og fengið svar sem er áreiðanleg samantekt á bestu mögulegu þekkingu um málefnið.

Þá verður einnig að huga að því að þau stuðningskerfi sem eiga að styðja við framfarir í landbúnaði virki sem skyldi. Að þau hvetji til fjárfestinga – frekar en að binda fjármagn. Þannig stuðlum við að því að við gerum hlutina alltaf betur. Það höfum við gert áður, en stuðningur við landbúnað var um áratugaskeið að miklu leyti í því formi að styðja fjárfestingar, með aðgengi að þolinmóðu lánsfé, með nýbýlastyrkjum, styrkjum til að innleiða nýja heyverkunartækni og svo framvegis. Í dag eru styrkirnir að miklu leyti tengdir framleiðslu í fáum greinum og drjúgur hluti bundinn greiðslumarki. Þó að ég sjái ekki fyrir mér neinar kúvendingar á búvörusamningum við þá endurskoðun sem nú er fyrir dyrum þá vil ég biðja ykkur um að velta þessari hlið málsins fyrir ykkur.

Góðir fundarmenn

Eftirspurn eftir fjölbreyttari búvörum vex ár frá ári. Íslendingum fjölgar stöðugt, og hingað koma milljónir ferðamanna. Raunverð á matvælum hefur ekki verið hærra um áratugaskeið. Raunverulega er spurt hvort það verði nóg til eftir 20-30 ár, þegar við munum þurfa  að fæða 2,5 milljarð manna til viðbótar við þá 7,5 milljarð sem hér búa í dag, og nota á sama tíma minna land, minni áburð, minna jarðefnaeldsneyti og minna vatn.

Ég er því í öllum meginatriðum bjartsýn fyrir hönd innlends landbúnaðar. Við höfum allar forsendur hér á landi; innlenda orku, gnótt af vatni og landrými er mikið. Engin þessara auðlinda er þó óþrjótandi en þessar grundvallarforsendur eru gjörólíkar því sem víðast gerir.

Það er sagt að sagan endurtaki sig ekki, en að hún rími að minnsta kosti stundum. Ég held að með því að læra af sögunni, læra af því sem gekk vel og því sem hefur síður gengið vel getum við stígið stór skref fram á við. Þar með er ég ekki að blása í lúðra stjórnlausrar framleiðslu af öllu mögulegu, þaðan af síður að skattgreiðendur ætli að greiða fyrir það allt saman. Ég er einfaldlega að segja það að í grundvallaratriðum verða áskoranir næstu áratuga frábrugðnar áskorununum hingað til. Með það að leiðarljósi að huga að áskorunum nýrra tíma, fæðuöryggi og loftslagsmálum og horfa til einföldunar tel ég að við getum lokið við endurskoðun á búvörusamningum á skynsamlegum tíma. Fyrsti fundurinn í endurskoðuninni var í þessari viku. Ef það heppnast höfum við lengri tíma til þess að spyrja okkur hvernig við sjáum fyrir okkur stuðning við landbúnað eftir að búvörusamningar renna sitt skeið árið 2027.

Forsendan fyrir því að við getum í sameiningu skapað bætt skilyrði fyrir landbúnaðinn er frumkvæði bænda til framfara. Krafturinn og frumkvæðið þarf að koma frá ykkur. Þetta á við í öllum búgreinum, og sérstaklega um þau ykkar sem hyggja á að taka þátt í að byggja upp kornsamlög, en að mörgu þarf að hyggja á næstu mánuðum til þess að vera reiðubúin til að sækja um styrki fyrir kornþurrkstöðvar á næsta ári og árum. Það getur enginn gert það nema þið.

Góðir búnaðarþingsfulltrúar, ég óska ykkur velfarnaðar í þingstörfunum næstu daga og ekki síður við bústörfin þegar heim kemur.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta