Styrkjum innviði matvælaframleiðslu - Grein birt í Morgunblaðinu 18. apríl 2023
Fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 var rædd á Alþingi í gær. Þar fór ég yfir þau málefnasvið áætlunarinnar sem heyra undir mitt ráðuneyti, ráðuneyti matvæla. Undir ráðuneytið heyra grundvallaratvinnugreinar okkar, sjávarútvegur, lagareldi og landbúnaður. Ég legg áherslu á að efla innviði greinanna og í þeirri vinnu skiptir höfuðmáli að við höfum markvissa stefnumótun sem vegvísi. Unnið hefur verið að slíkri stefnumótun í ráðuneytinu, en nýlega mælti ég fyrir þingsályktun um matvælastefnu til ársins 2040 á þinginu og landbúnaðarstefnu til ársins 2040.
Skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar
Í fjármálaáætlun til ársins 2028 kemur fram að útgjaldarammi sjávarútvegs og fiskeldis eykst um 5,2 milljarða króna á tímabilinu. Tæpum helmingi þeirrar fjárhæðar, 2,2 ma.kr., verður varið í styrkingu stjórnsýslu og eftirlits með fiskeldi og þá renna 3 ma.kr. til eflingar hafrannsókna og eftirlits með sjávarútvegi. Öflugar hafrannsóknir og eftirlit með fiskveiðiauðlindinni eru forsenda þess að íslenskar sjávarafurðir séu samkeppnishæfar á alþjóðamörkuðum og stuðli að vexti íslensks atvinnulífs og samfélags. Þessi auknu framlög miða að því að styrkja grundvallarþætti í fiskveiðistjórnunarkerfinu og fiskeldi og skapa þar með skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi.
Þá er gert ráð fyrir því að framlög til Fiskeldissjóðs verði aukin um 1,7 milljarða á tímabilinu, samhliða fyrirhugaðri hækkun verðmætagjalds vegna sjókvíaeldis. Framundan er líka endurskoðun á lögum um veiðigjald, sem unnin verður í samhengi við verkefnið um Auðlindina okkar. Lokatillögur í verkefninu um Auðlindina okkar verða tilbúnar í vor og ég geri ráð fyrir að stefna sem byggist á þeirri vinnu fari í samráð í haust.
Kornrækt er forsenda fæðuöryggis
Í fjármálaáætlun er ráðgert að verja 2 milljörðum króna til uppbyggingar innviða kornræktar og fjárfesta í plöntukynbótum, en það eru aðgerðir sem lagðar eru til í skýrslu um eflingu kornræktar hér á landi, sem unnin var af Landbúnaðarháskólanum að minni beiðni. Fyrstu skrefin í þessu stóra verkefni hafa þegar verið stigin en í síðustu viku undirritaði ég samkomulag við Landbúnaðarháskólann um að hefja innleiðingu á nýrri tækni við plöntukynbætur sem munu gjörbreyta þeim tíma sem það tekur að aðlaga nytjajurtir á borð við bygg og hveiti að íslenskum aðstæðum. Þessi áform mæta helstu áskorununum sem að okkur steðja í málefnum fæðuöryggis og stuðla auk þess að auknum atvinnutækifærum í dreifbýli.
Með áherslu á þekkingu, skilvirkt eftirlit og framsýni munu skapast skilyrði fyrir aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu og þannig áframhaldandi velsæld á Íslandi