Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. júní 2023 MatvælaráðuneytiðSvandís Svavarsdóttir

Ávarp matvælaráðherra á rafrænum ársfundi Landgræðslunnar, 24. maí 2023

Kæru gestir,

Líffræðileg fjölbreytni er undirstaða tilveru okkar og framtíðar. Hún er forsenda heilbrigðra og starfhæfra vistkerfa, og þar með þeirra gæða sem þau veita okkur, allt frá fæðu til hreins lofts og vatns.

Mig langar til að tala aðeins um jarðveginn okkar, moldina. Moldin er undirstaða landbúnaðar, grundvöllur þess að mögulegt sé að framleiða fæðu fyrir okkur jarðarbúana. Í handfylli af mold er að finna mörg þúsund tegundir lífvera og stærsti hluti kolefnisforða þurrlendis býr í moldinni. Moldin er annað stærsta kolefnisforðabúr heims á eftir hafinu, en í henni er að finna meira kolefni en í gróðri og andrúmslofti samanlagt. Moldin getur bæði bundið og losað koldíoxíð og hefur þar af leiðandi afgerandi áhrif á styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti. Þegar landi hnignar, s.s. vegna ofnýtingar, saxast á þetta mikla kolefnisforðabúr og kolefni losnar út í andrúmsloftið og eykur enn á hlýnun jarðar. Kolefni í jarðvegi er því vísir um sjálfbærni landnýtingar.

Í mínu ráðuneyti er unnið að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu, í samræmi við lög um landgræðslu, með það að markmiði að tryggja að nýting land sé sjálfbær og taki ávallt mið af ástandi lands. Gert er ráð fyrir að reglugerðin fari í samráðsgátt stjórnvalda á komandi hausti.
Samþætta þarf markmið um losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði og vegna landnotkunar með markvissari hætti og það verkefni getur aðeins borið árangur í góðu samstarfi milli vísindanna, stjórnvalda og bænda.

Meginviðfangsefni aðildaríkjaþings samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem haldið var í desember síðastliðnum voru samningaviðræður um alþjóðlega stefnu um líffræðilega fjölbreytni. Aðildarríkin komu sér saman það á fundinum að a.m.k. 30% allra raskaðra vistkerfa á landi verði undir virkri endurheimt árið 2030 en einnig var ákveðið að innleiða að fullu áherslur um líffræðilega fjölbreytni í allar skipulags- og landnotkunaráætlanir. Það er því verk að vinna við að formgera og innleiða stefnuna hér á landi svo við getum staðið við okkar skuldbindingar.

En þetta eru ekki einu skuldbindingarnar sem við ætlum að standa við því Ísland hefur lögfest markmið um að kolefnishlutleysi náist eigi síðar en árið 2040. Aukin binding kolefnis í jarðvegi og gróðri er lykilaðgerð til að ná markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og um kolefnishlutleysi.

Landgræðslunni og Skógræktinni hefur verið falið að vinna sameiginlega að Bonn-áskoruninni, sem er alþjóðleg áskorun um endurheimt skóga. Verkefnið fellur vel að áratug endurheimtar vistkerfa og er markmiðið hér á landi að þekja birkiskóga vaxi úr 1,5% í 5% fram til ársins 2030.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á kolefnisbindingu og endurheimt vistkerfa á þjóðlendum og jörðum í opinberri eigu og er verið að marka stefnu í þeim efnum.

Áherslur mínar í matvælaráðuneytinu eru á að efla vernd, viðgang og heilleika vistkerfa á grunni vistkerfisnálgunar. Þetta þýðir að vanda þarf til verka við undirbúning aðgerða og einnig að taka þarf tillit til einstakra eininga vistkerfis við nýtingu þess.
Fyrsta heildstæða stefna í landgræðslu og skógrækt, Land og líf, leit dagsins ljós í ágúst síðastliðnum og með henni er leitast við að hámarka getu náttúrunnar til að veita vistkerfisþjónustu sem hjálpar við aðlögun að loftslagsbreytingu, vinnur gegna tapi á líffræðilegri fjölbreytni og minnkar áhættu tengda hamförum. Samhliða útgáfu stefnunnar var gefin út fimm ára aðgerðaáætlun.

Frumvarp til laga um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar hefur verið lagt fram og er nú til umfjöllunar í þingnefnd. Þónokkur samlegð er í verkefnum stofnananna tveggja. Báðar hafa þær stórt og vaxandi hlutverk á sviði umhverfis- og loftslagsmála og hafa verið í samstarfi á fjölmörgum sviðum og gæti sameining stofnananna eflt þjónustu og ráðgjöf til bænda og annarra. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ný stofnun taki formlega til starfa um næstu áramót.

Það er mér mikið ánægjuefni að fá tækifæri til að vera með ykkur hér við afhendingu landgræðsluverðlaunanna. Ég vil nota tækifærið og óska verðlaunahöfunum til hamingju.
Hér í dag er frábær hópur verðlaunahafa sem kristallar mikilvæg atriði í varðveislu og meðferð lands sem varða til dæmis það…:

• Að stunda góða ráðsmennsku, umhyggju, elju og frumkvæði við umsjón með landi
• Að frjáls félagasamtök séu virk á sviði verndunar lands, stuðli að aukinni þekkingu almennings, ekki síst barnanna, og vera vettvangur fyrir frjóa umræðu um verndun og endurheimt landsins okkar
• Að fyrirtæki sýni samfélagsábyrgð í sinni starfsemi t.d. með fræðslu til viðskiptavina um umhverfismál.

Landgræðsluverðlaunin eru bæði viðurkenning fyrir frábært starf í þágu landgræðslu og einnig hvatning til að halda áfram á sömu braut. Verðlaunin hafa líka hvetjandi áhrif á okkur hin sem höfum ekki unnið til þeirra og þau vekja athygli á viðfangsefninu landgræðslu.
Takk fyrir áheyrnina og gangi ykkur vel!


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta