Ávarp á sjómannadaginn 2023
Sjómannadagurinn er nú haldinn hátíðlegur í 85. skiptið. Til þessa dags var stofnað af sjómannafélögum árið 1938, en þau vildu tileinka þennan dag þeirri stétt sem ynni hættulegustu og erfiðustu störfin. Sá samtakamáttur sem þessi hefð sprettur upp úr hefur skilað sjómönnum og þjóðfélaginu miklu í gegnum árin. Alla tuttugustu öldina og fram á þennan dag byggði velsæld landsmanna að miklu leyti á þeim verðmætum sem sótt eru á miðin í kringum Ísland. Þó svo að hlutfallslega hafi dregið úr því hversu háð við erum einni atvinnugrein þá er sjávarútvegurinn ennþá máttarstólpi í atvinnulífinu og í lífskjörum okkar Íslendinga.
Það er margt sem við getum lært af sjómönnum. Sjósókn krefst þolgæðis og getu til að takast á við ýmis konar áskoranir, hvort sem er að hálfu veðurguðanna eða í samskiptahæfni. Áhöfn skips er lítið samfélag þar sem allir hafa sitt hlutverk, hvort sem það er vélstjórinn, kokkurinn eða hásetinn. Þessum störfum þarf að sinna ef að ekki á illa að fara. Það er engin uppfinning hjá þeirri sem hér stendur að líkindi séu á milli áhafnar skips og samfélags.
Þjóðarskútan, samfélagið allt, er einfaldlega stærri - en sömu grundvallarprinsipp eiga við, það hafa allir sitt hlutverk. Nú þegar þessi þjóðarskúta siglir á meiri óvissutímum eru ýmis konar áskoranir, bræla dýrtíðar er framundan þó að þjóðarskútan afli meiri verðmæta en nokkru sinni fyrr. Mikið ríður á að við berum gæfu til þess að stilla siglingatækin rétt og sigla út úr dýrtíðinni á lygnari mið. Ýmsir harma hlutinn sinn og því verða áskoranir við kjarasamningaborð á næstu misserum. Þetta á við sjómenn, sem hafa átt í samningaviðræðum við útgerðarmenn um langa hríð.
Það er mikilvægt að vel til takist við samningaborðið. Sjómenn gegna lykilhlutverki í virðiskeðju sjávarútvegs og störfin eru krefjandi og erfið. Eðli starfsins þýðir langar fjarverur frá fjölskyldu og þó að vinnuslysum til sjós hafi fækkað verulega er starfið ennþá hættulegt. Þar held ég að við getum gert betur, ég veit að innan útgerða víðs vegar um landið er unnið að því að draga úr slysatíðni. Bæði með aukinni þjálfun, með betri skipum og með nýtingu á stafrænni tækni. Við eigum að stefna að framtíð þar sem ekkert vinnuslys verður til sjós, rétt eins og það hafa komið ár þar sem ekkert banaslys hefur orðið til sjós. Það er framtíðin sem við eigum að stefna að.
Ég sé líka fyrir mér framtíð þar sem Ísland er áfram leiðandi fiskveiðiþjóð, en til þess að svo verði þurfum við að aðlaga okkur að félagslegum breytingum og kröfuharðari neytendum, hratt og örugglega. Stóra sameiginlega verkefni okkar allra er að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Hafið er auðlind sem okkur ber að vernda. Hafið er ein af stærstu forsendum lífs á jörðinni og það er í hættu - bæði vegna mengunar og ofveiði. Sú staðreynd knýr okkur til að endurmeta kúrsinn og sigla framhjá skerjunum. Í þessu stóra verkefni er mikilvægt að við tökum höndum saman, stjórnvöld og sjávarútvegurinn, vinnum að orkuskiptum í sjávarútvegi og stóraukum hafrannsóknir. Það er svo gríðarlega mikið í húfi.
Röddum kvenna hefur fjölgað í sjávarútvegi og þar eru margar öflugar konur í forystu. Við sjáum og heyrum að jafnréttissjónarmiðum er að vaxa ásmegin í sjávarútvegi en það gengur of hægt. Ég geri allt sem í mínu valdi stendur til að leggja þessu málefni lið, til dæmis með því að hafa það hugfast í daglegu amstri í ráðuneytinu, tala um það opinberlega og eiga samtöl við samtök kvenna í sjávarútvegi. Stjórnvöld gegna mikilvægu hlutverki með því að minna á mikilvægi kynjajafnréttis, og það er óendanlega mikilvægt að halda umræðunni til haga. Fjölbreytileiki er góður fyrir allar atvinnugreinar, hvort sem það er fjölbreytileiki kynja, bakgrunns, uppruna, hugmynda og svo framvegis. Þannig stuðlum við að fjölbreyttari lausnum, meiri sköpun og betra samfélagi fyrir okkur öll.
Undanfarið ár hefur verið unnið að stefnumörkun í sjávarútvegi í matvælaráðuneytinu. Markmið þeirrar vinnu er að skapa skilyrði til aukinnar sáttar um sjávarútveg. Í öllum meginatriðum hefur sú vinna gengið vel. Það er þó ekki þannig að sátt um sjávarútveg verði til í nefnd eða starfshópi, heldur er samfélagsleg sátt breytileg yfir tíma – sátt er lifandi hreyfing. Gildi samfélagsins breytast og þær kröfur sem við gerum sömuleiðis. Þess vegna lagði ég áherslu við þessa stefnumótun að huga að gagnsæi og aðgengi mismunandi radda að vinnunni. Það er áskorun að hlusta eftir fjölbreyttum röddum, en það skiptir máli að hlusta. Um það hefur vinna „Auðlindarinnar okkar“ snúist, að hlusta, eins og kemur fram í ritinu Tæpitungulaust sem matvælaráðuneytið birti á dögunum. Þar er að finna þær ótalmörgu raddir sem sendu inn athugasemdir, tóku til máls á fundum eða í viðtölum við starfshópana. Þær raddir nýtast við að átta sig á inntaki þeirrar tilfinningar sem ríkir í samfélaginu um sjávarútveg. Niðurstöður úr þessu verkefni verða birtar í ágúst og þá tekur við næsta skref í því mikilvæga verkefni að auka sátt um sjávarútveg. Það er ekki síst mikilvægt fyrir sjómenn sem eiga að vera stoltir af framlagi sínu í þágu íslensks samfélags.
Kæru sjómenn. Í dag er ykkar dagur. Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar farsældar í dag sem og alla aðra daga.