Uppskera að loknum þingvetri, grein birt í Morgunblaðinu, 14. júní 2023
Uppskera að loknum þingvetri
Þingstörfum lauk í síðustu viku. Í vetur urðu að lögum átta stjórnarmál sem ég mælti fyrir á Alþingi. Meðal þeirra voru umbætur á veiðigjöldum og græn sjávarútvegsmál. Þá voru samþykktar þingsályktanir um matvælastefnu og landbúnaðarstefnu til ársins 2040. Það olli vonbrigðum að þingið náði ekki að ljúka þinglegri meðferð um svæðaskiptingu strandveiða. Sú niðurstaða þingsins mun leiða til þess að áfram mun halla á Norður- og Austurland ef heimildir klárast fyrir ágústlok.
Sameinaðar stofnanir öflugri
Frumvarp um sameiningu Landgræðslu og Skógræktar var samþykkt. Mikil fagleg samlegð er milli verkefna þeirra og ný stofnun, Land og skógur, mun hafa stórt hlutverk á sviði umhverfis- og loftslagsmála til framtíðar.
Mörg skref þarf til orkuskipta
Engin ein töfralausn dregur úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi í eitt skipti fyrir öll. Þrjú skref voru þó stigin nú í vor með samþykkt frumvarpa um umbætur á stjórnkerfi fiskveiða sem tengjast grænum skrefum í sjávarútvegi. Í fyrsta lagi frumvarp þar sem innleiddir voru hvatar til orkuskipta skipa í krókaflamarkskerfinu, í öðru lagi frumvarp sem hefur það markmið að stuðla að því að aðilar á strandveiðum hafi hvata til þess að fjárfesta í nýjum bátum eða skipum eða gera breytingar á skipum þannig að þau gangi fyrir rafmagni í stað jarðefnaeldsneytis. Í þriðja lagi varð að lögum frumvarp um aflvísa þar sem útgerðum er heimilað að nýta m.a. hæggengari vélar til að draga úr olíunotkun.
Umbætur á ýmsum sviðum
Fyrir jól voru samþykktar breytingar á veiðigjöldum, en frumvarpið flytur til greiðslur í tíma þannig að veiðigjöld þessa árs eru hærri en annars hefði verið. Þá samþykkti þingið frumvarp sem kemur í veg fyrir ofveiði á deilistofnum botnfisks með breytingum heimilda um tegundatilfærslu. Fleiri umbótamál urðu að lögum á þinginu, mál um hnúðlax og samræming á gjaldtökuheimildum Matvælastofnunar.
Skýr sýn til framtíðar
Síðast en ekki síst voru samþykktar tvær stefnur á Alþingi; matvælastefna og landbúnaðarstefna. Matvælastefnan myndar grunnstefið í heildarstefnumótun innan matvælaráðuneytisins og verður höfð til hliðsjónar við aðra stefnumótun.
Landbúnaðarstefna er fyrsta heildstæða stefnan fyrir landbúnað á Íslandi og er henni ætlað að renna sterkum stoðum undir innlenda landbúnaðarframleiðslu til framtíðar til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.
Uppskera vetrarins er því á heildina litið góð. En vinnan heldur áfram og nú er unnið að því að undirbúa þingmál næsta vetrar, enda eru málaflokkarnir sem heyra undir matvælaráðuneytið lifandi og áskoranirnar fjölbreyttar. Tækifærin til umbóta og aukinnar verðmætasköpunar eru ótvíræð.