Ávarp á sjómannadaginn, 2. júní 2024 í Hörpu
Góðan daginn og gleðilegan sjómannadag! Það er mér mikill heiður að vera með ykkur hér í dag.
Hvergi á byggðu bóli er sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur annarsstaðar en hér á Íslandi. Dagurinn er fyrst og fremst helgaður stéttabaráttu sjómanna en hefur líka öðlast sess í hjörtum okkar allra, sem dagur minninga, þar sem við heiðrum sjómenn fyrri tíma, þá sem hafa látist við að draga björg í bú og fjölskyldur þeirra þá og nú.
Sjómannadagurinn er sameiningartákn sjómannastéttarinnar. Í dag eru 86 ár liðin frá því að sjómannafélögin héldu daginn fyrst hátíðlegan. Samtakamáttur sjómanna hefur allar götur síðan verið helsti aflvaki sjósóknar hér við land enda hafa sjómenn staðið í stafni og stýrt dýrum knerri, þjóð sinni til stolts og sóma, eins og Egill Skallagrímsson sagði forðum. Á það erum við minnt þegar sjómannadagurinn gengur í garð.
En það er þó ekki nóg að minnast sjómanna eina stund, á tyllidögum til hátíðarbrigða. Frá því sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur hafa lög verið sett á kjara¬deilur sjó¬manna og útvegsmanna í fjórtán skipti, oftar en á nokkra aðra stétt sem segir sína sögu um sam¬stöðu sjó¬manna og seiglu, en jafnframt um mikilvægi þeirra í virðiskeðju sjávarútvegsins og fyrir þjóðarbúið.
Þess vegna er sjómennska ekki aðeins saga hetjudáða, dirfsku og frægðar. Hún er saga um baráttu, um réttindi og um samstöðu. Sjómenn eru stéttasamtök sem hafa um langa hríð heyjað harða baráttu fyrir réttindum sínum. Með þeim samtakamætti hafa sjómenn í gegnum tíðina bætt kjör sín og réttindi samhliða því að skapa sér öruggara vinnuumhverfi sem hefur frá upphafi verið sérstakt baráttumál enda var sjóskaði algengur hér á árum áður.
Bætt vinnuaðstaða skiptir sköpum fyrir sjósókn, enda starfið eftir sem áður líkamlega erfitt og krefst mikilla fórna af hálfu sjómanna sem oft eru í burtu frá fjölskyldum sínum um langan tíma. Með tækniframförum, aukinni vitund um öryggismál og bættum veðurspám hefur sjóslysum fækkað mikið. Hér eftir sem hingað til getum við ekki slegið slöku við í þeirri viðleitni að bæta öryggi sjómanna og koma í veg fyrir slys.
Þá vil ég minnast á þau sem sinna óeigingjörnum björgunarstörfum og hafa gert um langa hríð. Vökulu, styrku og viðbragðsskjótu björgunar- og gæslufólki eigum við miklar þakkir fyrir sitt framlag til öryggis sjómanna.
Við höfum frá öndverðu átt mikið undir sjávarúvegi, og það er ekki ofmælt að segja að nytjar á hafinu hafi á síðustu öld fleytt okkur frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu til þess velmegunarsamfélags sem erum í dag. Það er afskaplega mikilvægt að sjávarútvegurinn fái að vaxa og dafna og að blómleg og fjölbreytt útgerð geti um ókomna framtíð tryggt vinnu, vöxt og velferð á landinu öllu.
Þar spila vísindin stóran þátt og hefur það verið gæfa okkar að nýta fiskistofna við Íslandsstrendur með ábyrgum og sjálfbærum hætti síðustu áratugi. En engin mannanna verk eru svo fullkomin að þau megi ekki bæta. Og ég trúi því að við séum sammála um það að fiskurinn í sjónum er sameiginleg auðlind okkar allra, að því þurfum við að stefna.
Kæru vinir, sjómannadagurinn er dagur til að minnast, heiðra og fagna. Sem sjómannsdóttir verð ég að segja að ekki er oft rætt um konurnar sem hafa í gegnum tíðina verið heima og séð um fjölskylduna í löngum fjarverum sjómanna. Ég man þá tíð þegar mamma var að fylgjast með pabba á sjónum í gegnum talstöð í eldhúsinu og menn létu vita af sér á leið í land oft í misjöfnum veðrum. En sjómannskonur ykkar er dagurinn líka. Allt fram á þennan dag hefur fiskurinn í sjónum verið lífsviðurværi okkar, hvort sem er til matar eða hagnýtingar. Sú hagsæld sem við njótum nú sem samfélag byggir á þeim nytjum. Hlutur sjómannsins í framþróun samfélagsins verður aldrei að fullu metinn. Það er með virðingu og vinsemd sem ég óska sjómönnum, fjölskyldum þeirra og aðstandendum til hamingju með daginn.