Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. júní 2024 MatvælaráðuneytiðBjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ávarp á málþingi Matís um framtíð matvælaframleiðslu - 31. maí 2024

Góðan daginn gott fólk – gott að vera með ykkur hérna í dag.

Það er áleitin en spennandi spurning sem er borin upp í yfirskrift þessa málþings, „Hvað verður í matinn?“ Hvernig við förum að því að fæða heiminn á nýjan og heilsusamlegan hátt án þess að ganga frá umhverfinu – þetta er eitt mikilvægasta úrlausnarefni samtímans. Vísindin koma þar sterk inn enda tækifærin mörg eins og þið vitnið til um hér í dag.

Sífellt eykst þörf fyrir næringarrík og heilnæm matvæli sem unnar eru úr takmörkuðum náttúruauðlindum. Þekking á áhrifum matvælaframleiðslu á loftslag, vistkerfi og náttúruauðlindir er vaxandi og hefur orðið ákveðin vitundarvakning um neikvæð áhrif matvælaframleiðslu á náttúru og umhverfi. Stefnumótun á sviði matvæla verður að taka mið af þessum atriðum. Slíka nálgun er enda að finna í Matvælastefnu til ársins 2040 (sem unnin var í tíð Svandísar Svavarsdóttur í matvælaráðuneytinu).

Með öflugu rannsókna- og nýsköpunarstarfi byggjum við undir betri framtíð, stuðlum að fæðuöryggi, aukum velsæld og eflum samfélagið til að mæta örum tæknibreytingum og framtíðar áskorunum. Liður í því er að til staðar sé öflugt stuðningsumhverfi, háskólar, stofnanir og virkt innlent og erlent rannsókna- og þróunarsamstarf. Matís er í mínum huga lykilstofnun í þessum efnum.

Það er deginum ljósara að nýsköpun fær ekki þrifist án markviss stuðnings frá stjórnvöldum. Mikilvægt er að slíkur stuðningur byggi undir lýðheilsu, og að við treystum þau grundvallar mannréttindi að matvæli framtíðarinnar verði aðgengileg öllum, framleidd með sjálfbærum hætti og verði bæði heilnæm og holl.

Við þurfum sem samfélag að horfast í augu við að óbreyttar framleiðsluaðferðir og neysla matvæla er ósjálfbær til langs frama. Mikilvægt er að við drögum út matarsóun á öllum stigum framleiðslu og neyslu og vinnum þannig bug á þeirri gengdarlausu neysluhyggju sem sligar velferð okkar og eykur svo um munar álag á umhverfi og náttúru.

Nýsköpun og hagnýting hugvits er lykillinn að því að skapa ný hráefni og afurðir, hámarka nýtingu auðlinda á sjálfbæran hátt, lágmarka matarsóun og sóun við framleiðslu, auka verðmætasköpun og fjölbreytni og fjölga spennandi og verðmætum störfum í allri matvælaframleiðslu.Náttúruauðlindir Íslands eru takmarkaðar og alls óvíst að hægt sé að nýta hráefna sem við nú nýtum í matvælaframleiðslu óbreytt um ókomna tíð.

Það er því brýnt að nýta hráefni sem allra best og nálgast viðfangsefnið með þeim augum að loka hringrás næringarefna á heildstæðan hátt í allri matvælaframleiðslu. Við höfum séð jákvæð teikn um þetta hér á landi. Á síðustu árum hefur þróunin í nýtingu hráefnis í sjávarútvegi tekið stakkaskiptum, en með því að nýta betur hliðarafurðir í matvælaframleiðslu hefur verðmætasköpun aukist gríðarlega í greininni. Þá leið viljum við feta í allri okkar matvælaframleiðslu, að nýta – ekki henda. Að finna not fyrir sporðinn og sundmagann, - að tapa ekki þeim næringarefnum sem finnast í „hliðar-afurðum“ út úr hringrás matvælaframleiðslunnar.

Það er ljóst að þessi þróun mun verða hröð á næstu árum og eftirspurn eftir slíkum gæðum muni aukast. - Á næstu áratugum er útlit fyrir að þörf fyrir próteingjafa muni aukast og hefur því verið spáð að eftir 20 ár gæti þriðjungur af „kjöti“ á markaði verið líftæknilega ræktað og stórt hlutfall fisks sömuleiðis. Einnig er því spáð að um fjórðungur kjöts og fiskafurða verði af plöntuuppruna sem kjöt- eða fisklíki.

Með hverju árinu sem líður verða neytendur opnari fyrir líftækniframleiddum matvælum og afurðum úr plönturíkinu með lágt kolefnisfótspor.
Þetta eru miklar breytingar og er ekki laust við að manni verði hugsað til vísindaskáldskaps þegar prentuð matvæli ber á góma.

Það liggja mikil tækifæri í því fyrir Ísland að taka virkan þátt í þessari þróun og má sjá fyrir sér að hér nýtist þekking úr matvælaframleiðslu til að ræktun á prótein- og næringarríkum afurðum úr plönturíkinu og öðrum vistkerfum með lægra kolefnisfótspor, eins og þörungum.
Fyrir íslenskan matvælaiðnað og samfélag er mikilvægt að dragast ekki aftur úr öðrum þjóðum, enda erum við útflutningsþjóð sem eigum mikið undir matvælaframleiðslu.

Eins og ég kom inná áðan er mikilvægt að stjórnvöld standi þétt að baki nýsköpun í matvælaiðnaði. Stjórnvöld geta verið hreyfiafl þegar kemur að stuðningsumhverfi nýsköpunar og ýtt undir hvata til að auka rannsóknir og þróun innan íslenskra fyrirtækja og stofnana. Við þurfum að leggja lóð á vogarskálina til að skapa lifandi umhverfi sem laðar að hugvit, sérfræðiþekkingu og fjárfestingu. Þetta er meðal annars gert í gegnum Matvælasjóð sem styður við nýsköpun landbúnaðar- og sjávarafurða með beinum hætti, sömuleiðis er gert ráð fyrir 100 m.kr. aukalega til Matís sem mótframlag við erlenda styrki til að auka getu Matís til að sækja um í erlenda samkeppnissjóði svo fátt eitt sé nefnt.

Að endingu vil ég segja að við þurfum að hugsa út fyrir kassan, endurnýta næringarefni og tryggja fullnýtingu afurða. Við þurfum að endurmeta hvernig við nýtum landið og hafsins auðlindir, sem hafa fætt okkur í aldanna rás. Það er á okkar ábyrgð að umgangast þessar auðlindir með þeim hætti að komandi kynslóðir geti líka notið þeirra.
Sjálfbær matvælaframleiðsla þarf að vera leiðarstef matvælaframleiðslu framtíðarinnar og þar verðum við að treysta á vísindin til þess að leiða þá nýsköpun og tækniþróun sem til þarf.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta