Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. júní 2024 MatvælaráðuneytiðBjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Kynning á tillögum að aðgerðum í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum fyrir landbúnað, landnotkun og haftengda starfsemi - 14. júní 2024

Ég mun hér fjalla stuttlega um þær aðgerðir sem birtast í uppfærðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og snúa beint að málaflokkum matvælaráðuneytisins; landbúnaði, landnotkun og haftengdri starfsemi eins og sjávarútvegi og lagareldi.
Ég vil segja:

Landbúnaður

Fyrir landbúnað eru skilgreindar 14 tillögur að aðgerðum. Þar af er áætlað að sex aðgerðir leiði til samdráttar í losun til ársins 2030 sem svarar 50 þ.t CO2íg. ofan á núverandi þróun og sögulega losun.

Helstu aðgerðir eru:
• Rannsóknir á losun vegna íslensks landbúnaðar. Markmiðið er að bæta upplýsingar um losun vegna landbúnaðar og mögulega að endurskoða þá stuðla sem notaðir eru til að reikna losun vegna landbúnaðar. Dæmi um þetta eru rannsóknir á metanlosun íslenskra gripa og losun vegna geymslu búfjáráburðar.
• Innleiðing hvata til aukinnar framleiðni einkum í sauðfjárrækt og nautgriparækt. Reiknað er með að þessir hvatar taki einkum mið af árangri af aðgerðum bænda.
• Skoðun á því hvort hefja megi notkun á íblöndunarefnum í fóður til að draga úr metanlosun.
• Gert er ráð fyrir stuðningi til að bæta nýtingu áburðar s.s. með betri tækni, jarðvegsefnagreiningum og kölkun túna þar sem þess er þörf.
• Einnig að stuðla að aukinni notkun lífræns áburðar m.a. með því að til verði skýrar gæðakröfur vegna lífræns áburðar í fóður- og matvælaframleiðslu.

Ráðuneytið og Bændasamtök Íslands eru í samstarfi um að vinna sameiginlega að útfærslu aðgerða. M.a. er byggt á þeirri reynslu og þekkingu sem byggst hefur upp í verkefninu Loftslagsvænum landbúnaði. Ég tel mikilvægt til framtíðar að við byggjum undir fjölbreytta ræktun og bætum landnýtingu, sem leiðir mig að næsta lið!
Landnotkun (LULUCF)

Samtals voru 17 loftslagsaðgerðir og stuðningsverkefni skilgreind vegna landnotkunar (LULUCF). Umfang aðgerða byggir á núverandi fjárlagaramma.
Mest losun vegna landnotkunar er frá framræstum mýrum og öðru votlendi en binding í skógrækt og með uppgræðslu lands hefur aukist síðustu ár og er það vel. Hér eru gríðarleg tækifæri til sóknar og tel ég brýnt að við gefum í, í þessum efnum.

• Mikil áhersla er á að bæta gögn um losun og bindingu vegna landnotkunar, ekki síst í ljósi krafna sem settar eru í reglum ESB. Fyrirséð er að reglur ESB geta falið í sér verulegar áskoranir fyrir Ísland, bæði vegna kröfu um samdrátt í losun frá landi, en einnig vegna aukinna og breyttra krafna um gæði gagna sem liggja til grundvallar fyrir mati á losun á gróðurhúsalofttegundum og bindingu kolefnis.
Ekki liggur fyrir kostnaðargreining á því verkefni en gerð er krafa um að ná ákveðnum áföngum fyrir annars vegar árið 2026 og hins vegar árið 2030.
• Skilvirkasta leiðin til að draga úr losun frá landi er að endurheimta votlendi. Í því ljósi er mikil áhersla á slíkar aðgerðir, bæði í einkalöndum og á jörðum í eigu ríkisins.
o Ég hyggst í því samhengi leggja fram þingsályktun um átak í endurheimt votlendis á ríkisjörðum á næsta þingi.
• Til að ýta undir einkafjármögnun landnotkunaraðgerða er gert ráð fyrir að mótuð verði aðferðafræði við endurheimt votlendis og þurrlendisvistkerfa sem uppfyllir verklag og staðla til að hægt sé að skrá kolefnisbindingu svæðanna sem vottaðar hágæðakolefniseiningar. Þetta hefur þegar verið gert fyrir skógrækt með þróun Skógarkolefnis sem er kröfusett fyrir framleiðslu vottaðra kolefniseininga í skógrækt.
• Lögð er áhersla á hlutverk sveitarfélaga við að móta skýrar áherslur um hvernig vernda megi kolefnisrík vistkerfi, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis með skipulagsgerð. Þetta er í góðu samræmi við nýsamþykkta Landsskipulagsstefnu.
• Að sama skapi er lagt til að greina betur veikleika í núverandi regluverki og framfylgd þess um verndun votlendis og annarra vistkerfa. Dæmi um þetta eru ákvæði náttúruverndarlaga um sérstaka vernd óraskaðs votlendis yfir 2 ha stærð gegn raski sem allt bendir til að sé ekki fylgt eftir.
• Áfram er gert ráð fyrir að ríkið styðji einkaaðila við ræktun nytjaskóga og endurheimt vistkerfa en unnið er að endurskoðun þess stuðnings.

Haftengd starfsemi (sjávarútvegur og lagareldi)
Fyrir haftengda starfsemi eru skilgreindar 13 tillögur að aðgerðum. Aðgerðirnar tengjast margar hverjar haftengdri starfsemi sem falla undir málaflokka matvælaráðuneytisins, sjávarútvegi og lagareldi.
Aðgerðir á ábyrgð matvælaráðuneytis eru:

• Að meta árangur hvata í strandveiðikerfi fyrir hreinorkubáta,
• Efling hafrannsókna og vöktun helstu nytjastofna í hafi til að tryggja eins og kostur er gott ástand þeirra og þar með að lágmarka orkunotkun við að veiðar.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta