Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

9. júlí 2024 MatvælaráðuneytiðBjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Riðulaust Ísland - ræða haldin við útgáfu landsáætlunar um landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu - 8. júlí 2024

Kæru gestir,
Riðulaust Ísland!

Í dag stígum við stórt skref fyrir landbúnað á Íslandi með undirritun landsáætlunar um útrýmingu á sauðfjárriðu. Þetta er sameiginlegt verkefni Matvælastofnunar, Bændasamtaka Íslands og matvælaráðuneytisins, og það markar tímamót í baráttunni gegn riðuveiki sem hefur herjað á íslenskan landbúnað um langt skeið.

Talið er að sauðfjárriða hafi borist til Íslands árið 1878 og undanfarna áratugi höfum við staðið í stöðugri baráttu við þessa skæðu veiki. Nú höfum við sett fram nýja nálgun við útrýmingu riðunnar, þar sem megináherslan verður lögð á að útrýma veikinni með ræktun búfjárstofns sem ber verndandi arfgerðir gegn smitefni hennar.
Drög að áætluninni voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í maí og bárust alls 17 umsagnir frá hagaðilum. Ég vil þakka öllum sem lögðu sitt af mörkum með athugasemdum og ábendingum.

Það er mikið kappsmál fyrir okkur öll, en ekki síst fyrir innlendan landbúnað, að við náum tökum á riðuveiki sem hefur hefur valdið miklum skaða í búskap, bæði fyrir menn og dýr. Með þeim áformum sem kynnt eru í áætluninni verða stigin markviss skref í átt að því að útrýma þessum vágesti og skapa aðstæður til að létta jafnt og þétt íþyngjandi höftum af sauðfjárbændum. Samhliða því munum við minnka fjárútlát hins opinbera vegna aðgerða, niðurskurðar á fé, greiningu riðusýna og viðhaldi varnargirðinga.

Til að útrýma riðuveiki verður megináherslan lögð á ræktun fjárstofns sem ber verndandi arfgerðir gegn smitefninu. Slíkar aðgerðir eru þegar hafnar. Til dæmis runnu 86% sæðingastyrkja vegna sæðinga á vegum sauðfjársæðingastöðva á síðasta ári til sæðinga með hrútum sem bera verndandi arfgerð gegn riðuveiki.

Samkvæmt áætluninni verða aðgerðir stjórnvalda áhættumiðaðar og stigvaxandi. Gert er ráð fyrir fyrir flokkun á riðubæjum, áhættubæjum og öðrum bæjum í áhættuhólfi. Öllum sauðfjáreigendum verður skylt að rækta gegn riðuveiki í samræmi við markmið landsáætlunar. Bætur taka mið af framgangi ræktunar miðað við ræktunarmarkmiðin. Á riðubæjum verður krafa um að eingöngu verði fé sem ber verndandi eða mögulega verndandi arfgerðir.

Með þessum aðgerðum munum við treysta heilbrigði sauðfjár. Heilbrigði dýra er lykilþáttur í velferð þeirra, og við höfum af því allan hag að bæta umgengni okkar við dýrin sem við höldum til manneldis. Þessi áætlun er því mikilvægt framfaraskref fyrir íslenskan landbúnað.

Ég vil þakka þeim sem hafa komið að þessari vinnu, sérstaklega starfshópnum undir forystu Sigurborgar Daðadóttur yfirdýralæknis, og meðlimunum Trausta Hjálmarssyni, Eyþóri Einarssyni, Sigurbjörgu Ólöfu Bergsdóttur og Auði Lilju Arnþórsdóttur. Þeir hafa unnið frábært starf.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta