Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. september 2024 MatvælaráðuneytiðBjarkey Olsen Gunnarsdóttir

Ávarp á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands - Neskaupstað, 31. ágúst 2024

Ágæta samkoma

Það er búið að vera gaman að vera með ykkur í dag á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands og fá öll þessi fræðsluerindi og ekki síður að skoða skógræktina hér í Neskaupsstað sem og á Kirkjumel. Skógræktarfélögin hafa í áratugi gegnt afar mikilvægu hlutverki í því að efla skógrækt á Íslandi og mér þykir gaman að sjá hversu mörg taka þátt í þessu mikilvæga starfi. Með áhuga ykkar og eldmóði hafið þið lagt grunninn að árangursríkri skógrækt.

Ég vil sérstaklega nefna nýjan samning til fimm ára um Landgræðsluskóga sem tryggir framhald þessa verkefnis. Þó að ekki sé um aukið fjármagn að ræða leggjum við áherslu á ræktun skóga á lítt eða ógrónu landi og uppbyggingu skóga í nágrenni þéttbýlis. Þetta eru mikilvæg verkefni sem stuðla að betri umhverfis- og lífsskilyrðum fyrir alla.

Sjálf kynntist ég skógrækt í gegnum Jóhann Þorvaldsson sem þá var skólastjóri í barnaskóla Siglufjarðar. Hann hafði óbilandi trú á því að skógur gæti vaxið á Siglufirði en mörgum þótti hann á þeim tíma draumóramaður. Jóhann og síðan Anton Sigurðsson kennari fóru oft með okkur nemendur í skógræktina ýmist til að planta eða bara vera og njóta. Í dag er þetta algjör útivistarparadís og mikið sótt af íbúum og gestum.

Ég neita því ekki að ég hef áhyggjur af framtíð skógræktarfélaga sem glíma ein sog mörg önnur félagasamtök við skort á nýliðun og ekki síst ungu fólki. Ég veit ekki hvort samhæft átak þarf til að laða að, ekki síst, ungt fólk. Alla vega tel ég að bregðast þurfi við með einhverjum hætti svo starfið geti áfram dafnað.

Ég bý í Ólafsfirði ásamt manni mínum og höfum við haft mikinn áhuga á skógrækt og potað talsvert niður af trjám aðallega í hlíðinni fyrir ofan húsið okkar sem er skammt frá skíðasvæði Ólafsfirðinga. Reyndar er öll hlíðin að verða skógi vaxin og af því ég veit að formaður skógræktarfélagsins í Ólafsfirði er hér í salnum þá verð ég að segja að hún hefur verið mjög dugleg við að planta í bænum og fengið með sér fólk til þess sem er þakkarvert. En eins og forðum þegar ég var krakki á Sigló þá var sama hugsunin í Ólafsfirði að þar myndi nú ekki lifa nokkurt tré enda jarðvegurinn of saltur. En reyndin er nú önnur og ég alla vega þakklát þeim sem létust ekki segjast og lögðu af stað í gróðursetningu.

En að öðru á haustmánuðum 2022 samþykktu stjórnvöld heildstæða stefnu um landgræðslu og skógrækt – Land og líf, sem gildir til ársins 2031. Með henni fylgir aðgerðaráætlun til ársins 2026. Þetta markar tímamót í okkar stefnumótun, þar sem aldrei áður hefur verið sett fram slík stefna sem byggir á lögum. Lögin kveða á um vinnu við landsáætlun um landgræðslu og skógrækt til tíu ára í senn, sem mun tryggja skýrari framtíðarsýn og stuðla að markvissum aðgerðum.

Stefnan, Land og líf, leggur áherslu á að koma upp skógum í nágrenni þéttbýlis, til dæmis fyrir útivist og til að efla lýðheilsu. Þetta undirstrikar mikilvægi skógræktarfélaga og þeirra framlags til samfélagsins.

Land og skógur munu áfram vinna náið með skógræktarfélögunum og nú er í gangi vinna við nokkur mikilvæg verkefni innan stofnunarinnar sem tengjast starfi ykkar. Þar má nefna endurskoðun á stuðningskerfi við landgræðslu- og skógræktarverkefni og setningu gæðaviðmiða fyrir val á landi til skógræktar.

Við munum leggja áherslu á vistkerfisnálgun, til þess að gæta að áhrifum aðgerða á vistkerfi á hverju svæði. Þessi viðmið munu móta verklag okkar og ná einnig til einkaaðila, sveitarfélaga og félagasamtaka. Þetta er líka mikilvægt í ljósi þess að einkaaðilar eru í stórauknum mæli að standa fyrir skógrækt án aðkomu ríkisins.

Nýsamþykkt Landsskipulagsstefna fjallar ítarlega um samspil landnotkunar, loftslagsmála og líffræðilegrar fjölbreytni. Skipulagsmál munu því verða æ mikilvægari fyrir skógræktarstarf. Það er lykilatriði að stefna stjórnvalda sé skýr varðandi svæði til skógræktar, losun og bindingu kolefnis, endurheimt vistkerfa og verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Skógrækt er langtímaverkefni og við verðum að tryggja að skógræktarsvæði verði ekki tekin undir aðra innviðauppbyggingu.

Það má segja að ræktun og vöxtur skógar annars vegar og val á landi til skógræktar hins vegar séu tvö aðskilin mál. Þess vegna er svo mikilvægt að stefna stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, um ráðstöfun á landi til slíkra verkefna sé skýr og taki mið af þeim lögum og alþjóðlegu skuldbindingum sem fara á eftir. Það er allra hagur að vandað sé til verka þegar kemur að ræktun skóga því það verkefni er til mjög langs tíma.

Við eigum mikið undir því að vinna vel saman og tryggja að okkar aðgerðir stuðli að sjálfbærni, vernd og uppbyggingu. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs við ykkur öll og þakka fyrir ykkar mikilvæga framlag til skógræktarstarfs á Íslandi.

Takk fyrir.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta