Hoppa yfir valmynd

Starfsemi matvælaráðuneytisins á árinu 2023

 

Uppbygging og stefna matvælaráðuneytisins

Undir matvælaráðuneyti heyra málefni lagareldis, landbúnaðar, landgræðslu, sjávarútvegs, og skógræktar. Ráðuneytið samanstendur af skrifstofum landbúnaðar, sjávarútvegs og matvæla. Skrifstofur sjálfbærni og fjármála eru stoðskrifstofur sem vinna að faglegri samþættingu verkefna. Gagnsæi, skýr og fagleg stjórnsýsla ásamt sveigjanleika eru leiðarljós í allri vinnu ráðuneytisins.

Stefna matvælaráðuneytisins er að Ísland verði í fremstu röð á heimsvísu í framleiðslu matvæla. Áhersla er lögð á ábyrga umgengni við náttúru, endurheimt landgæða, sjálfbæra nýtingu auðlinda, öfluga nýsköpun og vöruþróun í hæsta gæðaflokki. Fullvinnsla afurða, hringrásarhagkerfi og lágmörkun kolefnisspors eru meginmarkmið. Matvæla- og fæðuöryggi er einnig meginstef í störfum ráðuneytisins.

Við ákvarðanatöku eru vistvæn nálgun og varúðarsjónarmið höfð að leiðarljósi. Litið er í senn til samfélagsgæða, viðkvæmra vistkerfa og efnahagslegra hagsmuna þjóðarinnar.

Orðspor Íslands sem framleiðanda matvæla er dýrmætt og hluti af þeim hagsmunum sem ráðuneytið þarf að standa vörð um í samskiptum við önnur ríki og alþjóðastofnanir.

Hér má sjá yfirlit skrifstofa matvæla, landbúnaðar, sjálfbærni og sjávarútvegs yfir verkefni ársins 2023.

Helstu verkefni matvælaráðuneytisins 2023

Árið 2023 var annað starfsár matvælaráðuneytisins, en ráðuneytið tók til starfa 1. febrúar árið 2022. 

Mat á brottkasti og losun gróðurhúsalofttegunda

Í janúar 2023 fól matvælaráðherra Fiskistofu að gera kerfisbundið mat á brottkasti á Íslandsmiðum. Markmiðið var að þróa aðferðafræði til að meta umfang brottkasts á íslenskum fiskimiðum, safna upplýsingum og meta áhrif brottkasts á stofnstærðir.

Í sama mánuði var ýtt úr vör verkefni um endurmat á losun gróðurhúsalofttegunda frá ræktarlandi. Verkefnið er unnið í samvinnu við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og var Landgræðslunni falin framkvæmd þess. Seinna á árinu sameinuðust Landgræðslan og Skógræktin undir merkjum nýrrar stofnunar sem fékk heitið Land og skógur.

Smitvarnir, verndun hafsvæða og bleikir akrar

Starfshópur um smitvarnir í sjókvíaeldi skilaði tillögum til matvælaráðherra í febrúar. Hlutverk hópsins var að meta gildandi regluverk, þ.m.t þau viðbrögð sem viðhöfð eru þegar smitsjúkdómar koma upp, ásamt því að bera saman smitvarnir og löggjöf í öðrum löndum. Sjókvíaeldi er ein þeirra greina sem falla undir lagareldi en ný skýrsla um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi var kynnt í febrúarlok. Niðurstöður skýrslunnar munu nýtast við stefnumótun fiskeldis á Íslandi til framtíðar. Leiðarljós í vinnunni voru vernd náttúrunnar og vöxtur greinarinnar í sátt við umhverfi.

Matvælaráðherra staðfesti í upphafi marsmánaðar nýja reglugerð um verndarráðstafanir vegna viðkvæmra hafsvæða og botnvistkerfa. Við gildistöku reglugerðarinnar voru allar botnveiðar bannaðar á sautján svæðum í fiskveiðilandhelgi Íslands en svæðin taka til tæplega 2% af fiskveiðilandhelginni.

Um miðjan mánuð var skýrslan Bleikir akrar kynnt á opnum fundi. Skýrslan fjallar um eflingu kornræktar á Íslandi og var unnin af hópi sérfræðinga frá Landbúnaðarháskóla Íslands að beiðni matvælaráðherra.

Landbúnaðarverðlaun og nýting lífrænna efna

Samantekt á stöðu nýtingar lífrænna efna í landbúnaði og landgræðslu var einnig skilað til matvælaráðherra í mars. Þar koma fram tillögur að meginmarkmiðum og aðgerðum sem nýtast við mótun stefnu og aðgerðaáætlana í landbúnaði, landgræðslu, skógrækt, lagareldi og sjávarútvegi.

Í sama mánuði greindi matvælaráðherra frá þeirri ætlun stjórnvalda að endurvekja aðild Íslands að Laxaverndunarstofnuninni (NASCO). Matvælaráðherra greindi frá þessu á ráðstefnunni Salmon Summit sem haldin var í Reykjavík af verndarsjóði villtra laxastofna (NASF).
 Í lok mánaðarins lagði ráðherra fram þingsályktunartillögu um matvælastefnu fyrir Ísland. Stefnan er mörkuð til ársins 2040 og er ætlað að vera leiðarstef í ákvarðanatöku til að auka verðmætasköpun í innlendri matvælaframleiðslu, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru.

Landbúnaðarverðlaunin voru afhent í marslok af matvælaráðherra á Búnaðarþingi og hlutu verðlaunin þau Þorgrímur Einar Guðbjartsson og Helga Elínborg Guðmundsdóttir á Erpsstöðum í Dalabyggð. Landnýting, loftslagsmál og umhverfisvernd voru, ásamt tækni og nýsköpun, uppistaða nýrrar landbúnaðarstefnu sem matvælaráðherra mælti fyrir á Alþingi og mörkuð er til ársins 2040.

Samþykktar stefnur og frumvörp til laga

Landbúnaðarstefna var samþykkt á Alþingi í júní 2023. Meginmarkmið stefnunnar er að efla og styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

Matvælastefna til ársins 2040 var einnig samþykkt á þingi. Stefnunni er ætlað að vera leiðarstef í ákvarðanatöku til aukinnar verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu á Íslandi, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru.

Að lögum urðu líka frumvarp um lax- og silungsveiði sem heimilar veiðifélögum og veiðiréttarhöfum veiðar á hnúðlaxi, frumvörp um breytingu á lögum á stjórna fiskveiða vegna rafvæðingar smábáta og afnám tegundatilfærslu í deilistofnum botnfisks o.fl.

Breyting á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands vegna aflvísis fiskiskipa var einnig samþykkt auk frumvarps til laga um Land og skóg og frumvarp um samræmingu á gjaldtökuheimildum Matvælastofnunar var samþykkt í júní.

Viðhorf til sjávarútvegs kannað, skilvirkari gagnaúrvinnsla í sjávarútvegi

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands skilaði könnun til matvælaráðuneytisins í apríl um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegsmála. Könnunin var liður í stefnumótunarverkefninu Auðlindin okkar sem var ýtt úr vör árið 2022. Tilgangur könnunarinnar var að fá skýrar vísbendingar um viðhorf almennings til aðskilinna þátta íslensks fiskveiðistjórnunarkerfis. Í sama mánuði skilaði ráðgjafafyrirtækið Intellecta skýrslu til matvælaráðherra um markvissari og skilvirkari öflun og úrvinnslu gagna í sjávarútvegi. Meginmarkmið var að greina upplýsingamyndun við fiskveiðar, allt frá veiðiferð til útskipunar.

Útrýming riðuveiki og styrkir til góðra verka

Í lok apríl ákvað matvælaráðherra að vinna yrði hafin við framkvæmd tillögu yfirdýralæknis um breytta aðferðafræði við útrýmingu riðuveiki. Ný nálgun felur í sér að markvisst verður unnið að hraðari ræktun riðuþolins sauðfjársstofns á ræktunarsvæðum sem eru skilgreind sem áhættusvæði.

Stjórn Fiskeldisjóðs úthlutaði í maímánuði styrkjum til tólf verkefna í sjö sveitarfélögum, samtals að fjárhæð 247,7 milljónum króna. Einnig var úthlutað rúmum 93 milljónum króna til 27 þróunarverkefna í landbúnaði, og í lok mánaðarins úthlutaði matvælaráðherra um 577 milljónum króna úr Matvælasjóði til 53 verkefna.

Samið við Grænland og Landbúnaðarháskóla Íslands, veiðar á langreyðum stöðvaðar tímabundið

Samningur á milli ráðuneytisins og Landbúnaðarháskóla Íslands var undirritaður í júní. Gert var samkomulag um þjónustu á sviði rannsókna, þróunarvinnu og sérhæfðrar ráðgjafar á sviði landbúnaðar og matvælaframleiðslu.

Reglugerð um frestun veiða á langreyðum til 31. ágúst var sett í kjölfar birtingu álits fagráðs um velferð dýra.
Samningar voru undirritaðir í ágúst við Grænland um skiptingu loðnu og gullkarfa og í lok sama mánaðar voru lokaniðurstöður starfshópa verkefnisins Auðlindin okkar kynntar og settar í samráðsgátt stjórnvalda. Samhliða vinnu við verkefnið voru unnin drög að stefnu um sjávarútveg sem m.a. byggja á matvælastefnu til 2040. Stefnan inniheldur framtíðarsýn íslensks sjávarútvegs til 2040, gildi sjávarútvegs og áherslur og er ætlað að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku um sjávarútveg í sátt við umhverfi og samfélag.

Auknar fjárveitingar, Land og skógur tekur til starfa

Fjárlagafrumvarp var birt í september og var þar gert ráð fyrir auknum fjárveitingum upp á 126 milljónir króna vegna eftirlits í sjókvíaeldi en umfang greinarinnar hefur vaxið hratt síðustu ár.

Einnig var gert ráð fyrir auknu framlagi til hafrannsókna hjá Hafrannsóknastofnun (Hafró) upp á 180 milljónir króna til að skapa sjávarútvegi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar auk fjárheimildar upp á 126 milljónir króna til að styrkja verkefni Hafró á sviði burðarþolsmats fjarðakerfa, þ.m.t. eldissvæðaskiptingu, mat á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis, áhættumat erfðablöndunar og rannsóknir á dreifingu laxa- og fiskilúsar. Í september var Ágúst Sigurðsson einnig skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stofnunar sem varð til við sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.

BIODICE

Matvælaráðuneytið og BIODICE héldu saman málþing 21. september um vistkerfisnálgun við nýtingu auðlinda og var markmið þess að vekja athygli á hugtakinu vistkerfisnálgun og hlutverki þess í stefnumörkun matvælaráðuneytisins.

Samantekt um nýtingu lífbrjótanlegra efna í landbúnaði og landgræðslu ásamt tillögum að markmiðum og aðgerðum var skilað til matvælaráðuneytisins í lok september. Samantektin var unnin af ráðgjafarfyrirtækinu Eflu með þátttöku vinnuhóps með fulltrúum matvælaráðuneytisins, Landgræðslunnar, Matís, Matvælastofnunar og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Ný stefnumótun um lagareldi, matvælaþing og loftslagsvænn landbúnaður

Matvælaráðherra kynnti drög að nýrri stefnumótun lagareldis í byrjun október. Stefnumótunin nær til ársins 2040 og aðgerðaáætlun til ársins 2028. Takmark stefnumótunarinnar er að framtíðaruppbygging í lagareldi byggi á skýrum viðmiðum sjálfbærrar nýtingar, vistkerfisnálgunar og varúðar. Áhersla er lögð á að eftirlit, vöktun og rannsóknir með framleiðslunni standist ítrustu kröfur til að koma megi í veg fyrir að greinin hafi neikvæð áhrif á umhverfið í framtíðinni.

Matvælaráðherra undirritaði þann 17. október samstarfssamning um loftslagsvænan landbúnað við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Landgræðsluna og Skógræktina. Samningurinn gildir út árið 2024 og eflir verkefnið sem hefur verið í gangi síðan 2020. Í lok árs 2022 voru 46 bú í verkefninu, 22 í sauðfjárrækt og 24 í nautgriparækt.

Matvælaþing var haldið í Hörpu 15. nóvember. Hringrásarhagkerfið, í samhengi við nýsamþykkta matvælastefnu til ársins 2040 var meginviðfangsefni þingsins. Þær fjölmörgu og ólíku starfsgreinar sem koma að framleiðslu vinnslu og dreifingu matvæla á Íslandi komu saman undir einu þaki á þinginu. Gestafyrirlesar voru þær Ladeja Godina Košir frá Circular Change samtökunum í Slóveníu og Anne Pøhl Enevoldsen frá dönsku matvælastofnuninni, þær fluttu erindi um innleiðingu hringrásarhagkerfis í matvælaframleiðslu á alþjóðlega vísu.

Stuðningur við bændur, efling lífrænnar framleiðslu og nýtt frumvarp um lagareldi

Drög að aðgerðaáætlun um eflingu lífrænnar matvælaframleiðslu voru kynnt á fundi sem haldinn var 30. nóvember. Aðgerðaáætlunin var unnin í matvælaráðuneytinu og byggir á tillögum Umhverfisráðgjafar Íslands ehf. Við mótun áætlunarinnar var einnig tekið mið af annarri stefnumótun á málefnasviðinu, áherslum matvælaráðherra og matvælaráðuneytis.

Í byrjun desember lögðu matvælaráðaherra, innviðaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra tillögur fyrir ríkisstjórn að aðgerðum til stuðnings bændum sem áttu í fjárhagserfiðleikum vegna efnahagsástandsins. Tillögurnar byggðu á mati hóps sem var skipaður af ríkisstjórn til að fjalla um fjárhagsstöðu landbúnaðar á Íslandi og var skipaður ráðuneytisstjórum þriggja ráðuneyta; matvælaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og innviðaráðuneytis. Sérstakar stuðningsgreiðslur til bænda vegna verkefnisins bárust fyrir jól.

Nýtt frumvarp matvælaráðherra um lagareldi var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 6. desember. Frumvarpið er afrakstur umfangsmikillar stefnumótunarvinnu sem hófst í byrjun árs 2022. Í frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi. Markmið frumvarpsins er að skapa lagareldi á Íslandi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi og dýravelferð og að sjúkdómavarnir verði með besta hætti á heimsvísu.

Matvælaráðherra frá í apríl 2024 er Bjarkey Olsen Gunnarssdóttir, frá sama tíma er ráðuneytisstjóri Bryndís Hlöðversdóttir.

Fréttaannáll

Hér má sjá fréttir af helstu verkefnum matvælaráðuneytisins á árinu 2023 (PDF skjal).

Samantekt skrifstofu matvæla fyrir árið 2023

Við veiðar

Lagareldi

Fiskeldi á Íslandi hefur vaxið með miklum hraða síðustu ár. Framleiðsla hefur sexfaldast frá árinu 2014 og náði framleiðslan á árinu 2022 samtals 51.350 tonnum en framleiðslan minnkaði lítillega árið 2023 og var 50.000 tonn.

Atvinnugreinin hefur vaxið hraðar en geta stjórnvalda til að fylgja henni eftir og fljótt varð ljóst eftir að ráðherra tók við málaflokknum að margar brotalamir væri að finna í stjórnsýslu tengdri greininni. Til að mynda hafði eftirliti og rannsóknum ekki verið fylgt eftir í samræmi við umfang og vöxt greinarinnar.

Í upphafi árs 2022 óskaði ráðherra eftir því að Ríkisendurskoðun framkvæmdi stjórnsýsluúttekt á sjókvíaeldi í heild sinni og skoðaði þætti ráðuneytisins, Hafrannsóknarstofnunar og eftirlitsaðila. Ríkisendurskoðun skilaði úttektinni í janúar 2023 og leiddi hún í ljós að ýmsar brotalamir væru bæði hvað varðaði lagaumgjörð og stjórnsýslu málaflokksins.

Tveir starfshópar voru stofnaðir á árinu 2022 í tengslum við þær áskoranir sem fylgja sjókvíaeldi. Annar skoðaði smitvarnir og sjúkdóma í fiskeldi og vann tillögur til umbóta og var skýrslu starfshópsins skilað í janúar 2023. Hinn hópurinn fjallaði um strok úr sjókvíaeldi og skoðaði leiðir að draga úr líkum á stroki og stuðla að bættu eftirliti og skilaði hann skýrslu í júní 2023.

Um mitt ár 2022 var boðin út gerð skýrslu er skyldi marka framtíðarsýn lagareldis á Íslandi. Að loknu útboði var samið við Boston Consulting Group (BCG) um gerð skýrslunnar. Í skýrslunni sem skilað var í febrúar 2023 var gerð ítarleg úttekt á stöðu lagareldis og möguleikum greinarinnar til framtíðar.

Stefnumótun um lagareldi var unnin í MAR á árinu á grunni áðurnefndrar úttektar Ríkisendurskoðunar, skýrslu BCG og vinnuhópa. Var stefnumótunin unnin í ítarlegu samráði við skilgreinda hagaðila. Drög að stefnumótuninni voru síðan kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda í október 2023.

Á grunni stefnumótunarinnar voru í ráðuneytinu unnin drög að frumvarpi þar sem sett var fram tillaga að nýju heildstæðu lagaumhverfi fyrir lagareldi. Var þar meðal annars í fyrsta skipti fjallað sérstaklega um landeldi og úthafseldi ásamt því að hert var verulega á ákvæðum sem ætlað er að stuðla að sjálfbærum rekstri atvinnugreinarinnar hér við land. Drögin voru birt í Samráðsgátt í desember 2023.

Úthlutað var samtals um 188,3 milljón króna úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis til þriggja verkefna. Þá úthlutaði Fiskeldissjóður í þriðja sinn styrkjum til sveitarfélaga þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað. Alls var úthlutað um 247,7 miljónum króna til tólf verkefna.

Matvæli

Vinna við matvælastefnu hófst á vormánuðum 2022 en tilgangur hennar er að vera leiðarljós sem dregur fram áherslur stjórnvalda, ásamt því að móta framtíðarsýn, markmið og aðgerðaáætlun til að innleiða í íslenskt atvinnulíf og stjórnkerfi. Matvælastefna til ársins 2040 var samþykkt á Alþingi í lok maí 2023.

Á málefnasviði matvæla voru innleiddar tæplega 200 EES-reglugerðir. Matvælasjóður úthlutaði 584,6 milljónum til 58 verkefna en 177 umsóknir bárust á árinu 2023.

Ísland fór með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og var haldinn ráðherrafundur landbúnaðar-, sjávarútvegs, matvæla og skóga hér á landi í júní 2023. Samhliða voru kynntar nýjar norrænar næringarráðleggingar á glæsilegum viðburði í Hörpu. Matvælaþing var haldið í nóvember 2023 og bar yfirskriftina Hringrásarhagkerfið.

Aðgerðaáætlun til að útrýma riðuveiki var skilað á haustmánuðum 2023.

Samantekt skrifstofu landbúnaðar fyrir árið 2023

Í mars voru kynntar tillögur að aðgerðaáætlun til eflingar kornrækt á Íslandi sem unnar voru af Landbúnaðarháskóla Íslands. Aðgerðaáætlunin er lögð fram í 30 liðum og eru meðal annars gerðar tillögur um sérstakan stuðning við kornrækt, bæði við framleiðslu og fjárfestingar í nauðsynlegum innviðum.

Landbúnaðarstefna fyrir Ísland til ársins 2024 var samþykkt á alþingi í júní. Í tillögunni er sett fram metnaðarfull framtíðarsýn varðandi heildarumgjörð landbúnaðar sem tekur til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni landbúnaðarafurða. Til þess að hrinda stefnunni í framkvæmd er kveðið á um að gerðar verði aðgerðaáætlanir til fimm ára í senn.

Seinni endurskoðun búvörusamninga hófst á árinu og umfangsmikil vinna átti sér stað í tengslum við endurskoðunina, sem lauk í upphafi árs 2024.

Í nóvember voru drög að fyrstu aðgerðaáætlun til eflingar lífrænni framleiðslu kynnt á opnum fundi. Í kjölfarið var aðgerðaáætlunin sett í opið samráð á samráðsgátt stjórnvalda. Aðgerðaáætlunin byggir á tillögum Umhverfisráðgjafar Íslands ehf (Environice). Aðgerðaáætlunin var unnin í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en á meðal áhersluverkefna sem þar eru tilgreind er mótun heildstæðrar áætlunar til eflingar lífrænnar framleiðslu.

Matvælaráðherra og rektor Landbúnaðarháskóla Íslands (Lbhí) undirrituðu samning um þjónustu á sviði rannsókna, þróunarvinnu og sérhæfðrar ráðgjafar fyrir árin 2023-2024. Samkvæmt samningnum felur ráðuneytið skólanum að vinna að rannsóknum, þróun og nýsköpun á sviði landbúnaðar og matvælaframleiðslu.

Matvælaráðherra undirritaði samstarfsamning um verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður fyrir árin 2023-2024. Markmið samningsins er að stækka og efla verkefnið, bæta upplýsingagjöf um það, meta árangur og reynslu, og móta framtíðarfyrirkomulag þess. Verkefnið er samstarfsverkefni matvælaráðuneytis, umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytis, Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins og Lands og skógar.
Starfshópur ráðuneytisstjóra þriggja ráðuneyta; matvælaráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og innviðaráðuneytisins, sem skipaður var til að fjalla um fjárhagsstöðu landbúnaðar á Íslandi, skilaði tillögum í desember að aðgerðum til stuðnings þeim bændum sem áttu í fjárhagserfiðleikum vegna efnahagsástandsins. Í tillögunum var lögð áhersla á að stuðla að nýliðun og kynslóðaskiptum í greininni með aðstoð við yngri bændur sem eru undirstaða landbúnaðarframleiðslu framtíðarinnar. Jafnframt var lögð áhersla á að stuðningskerfi styðji við atvinnugreinina með skilvirkum hætti í samræmi við áherslur stjórnvalda og gagnist þeim fjölskyldubúum sem eiga í hvað mestum vanda til skemmri tíma litið vegna hækkaðs fjármagnskostnaðar og langvarandi afkomubrests. Stuðningur var greiddur fyrir lok árs 2023 til 982 bænda, alls 1.600 milljónir króna.

Í nóvember barst skýrsla Ríkisendurskoðunar vegna stjórnsýsluútttektar stofnunarinnar á eftirliti Matvælastofnunar með velferð búfjár. Í skýrslunni er ítarleg umfjöllun um umfang og framkvæmd eftirlits og var tilgangur úttektarinnar að kanna hvort eftirlitið væri skilvirkt og árangursríkt og hvort það væri í samræmi við lög og reglugerðir um velferð dýra. Í skýrslunni koma fram ábendingar í 13. liðum er snúa annars vegar að Matvælastofnun og hins vegar matvælaráðuneytinu sem miða að því að styrkja stjórnsýslu og eftirlit með dýravelferð.

Samantekt skrifstofu sjálfbærni fyrir árið 2023

Unnið var að undirbúningi sameiningar Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og gekk sameiningin formlega í gildi 1. janúar 2024.

Meginverkefni nýrrar stofnunar er að fylgja eftir stefnumörkun stjórnvalda, Land og líf, sem gefin var út haustið 2022.

Samráðsvettvangur um loftslagsaðgerðir í landbúnaði og landnotkun, sem í eru fulltrúar hagsmunaaðila og stofnana, fjallaði um endurskoðun aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Gerður var samningur við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins um tillögur að aðgerðum og lagði það grunninn að tillögum í endurskoðaða aðgerðaáætlun. Sú vinna stóð yfir haustið 2023 og leiddi matvælaráðuneytið vinnu við endurskoðun aðgerða fyrir landbúnað og landnotkun.

Unnin var skýrsla fyrir ráðuneytið um kolefnisspor matvælaframleiðslu þar sem markmiðið var að skilgreina aðferðafræði við mat á kolefnisspori matvælaframleiðslu á Íslandi. Jafnframt að gera grein fyrir helstu áhrifaþáttum losunar gróðurhúsalofttegunda vegna matvælaframleiðslu og reikna losun vegna helstu matvælaframleiðslugreina.

Unnið hefur verið að umbótum á losunarbókhaldi landbúnaðar í samstarfi við Umhverfisstofnun og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Markmiðið er að nýta gögn sem þegar er safnað innan landbúnaðarins og auðvelda úrvinnslu þeirra gagna fyrir losunarbókhaldið. Þá hefur verið samið við LBHÍ um rannsóknir á iðragerjun nautgripa til þess að fá sértæka losunarstuðla og draga úr óvissu niðurstaðna bókhaldsins.

Sömuleiðis hefur verið unnið eftir gildandi áætlun um umbætur á losunarbókhaldi vegna landnotkunar. Samhliða hefur verið unnið að því að uppfæra áætlunina m.a. með hliðsjón af kröfum ESB.

Matvælaráðuneytið og BIODICE stóðu fyrir málþingi í september um vistkerfisnálgun við nýtingu auðlinda. Á málþinginu var vistkerfisnálgun sett í samhengi við auðlindanýtingu og verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Sérfræðingar stofnana og hagaðilar fóru yfir hvaða lausnir hafa reynst vel og hvernig má vinna að vistkerfisnálgun við nýtingu. Markmið málþingsins var að vekja athygli á hugtakinu vistkerfisnálgun, og hlutverki þess í stefnumörkun matvælaráðuneytisins. Í kjölfar málþingsins tók BIODICE saman greinargerð með tillögum varðandi innleiðingu vistkerfisnálgunar .

Matvælaráðherra skipaði stýrihóp um verndarsvæði í hafi í mars. Hlutverk hópsins samkvæmt skipunarbréfi er að rýna stjórnkerfi verndunar og nýtingar hafsins í ljósi áherslu á virka svæðisvernd í hafi (e. Other Effective Area-Based Conservation Measures, OECM) m.a. með hliðsjón af leiðbeiningum alþjóðastofnana og alþjóðasamninga. Stýrihópurinn skilaði áfangaskýrslu til ráðherra í desember.

Matvælaráðuneytið á fulltrúa í mörgum nefndum sem vinna þvert á ráðuneytið. Nefna má ráðgjafarnefnd um landsskipulagsstefnu, verkefnastjórn aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum, verkefnisstjórn um kolefnisbindingu í þjóðlendum, stýrihópi um Sjálfbært Ísland og starfshópi um kortlagningu stöðu og tækifæra til viðskipta með kolefniseiningar, þátttaka í svæðisráði um skipulag haf- og strandsvæða.

Samantekt skrifstofu sjávarútvegs fyrir árið 2023

Starfsemi á málefnasviði 13, Sjávarútvegur og fiskeldi er á forræði matvælaráðherra.

Á málefnasviðinu eru þrjár stofnanir, Fiskistofa, Verðlagsstofa skiptaverðs og Hafrannsóknastofnun en einnig fellur undir málefnasviðið starfsemi Fiskræktarsjóðs, Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og Fiskeldissjóðs, auk ýmissa samninga og verkefna, s.s. vegna rannsókna og alþjóðlegs samstarfs.

Til að tryggja íslenskum sjávarafurðum samkeppnishæfni á alþjóðamörkuðum hefur verið lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Þýðingarmikið er að stjórn fiskveiða byggi á vísindalegri þekkingu og að eftirlit sé skilvirkt sem er grundvöllur þess að veiðar séu í samræmi við þau verndunarsjónarmið sem stjórnvöld setja og að ekki sé veitt umfram vísindalega ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Mikið starf átti sér stað í verkefninu Auðlindin okkar á árinu 2023. Þann 17. janúar 2023 voru birtar bráðabirgðatillögur í stefnumótun um sjávarútveg frá starfshópunum Samfélag, Aðgengi, Umgengni og Tækifæri. Voru bráðabirgðatillögurnar einnig kynntar í samráðsgátt og þá var haldinn opinn fundur Auðlindarinnar okkar í Reykjavík þann 8. febrúar 2023 þar sem tillögurnar voru m.a. kynntar. Í apríl voru birtar niðurstöður könnunar um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegsmála, sem unnin var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Könnunin var liður í að fá skýrar vísbendingar um viðhorf almennings til sjávarútvegs og voru niðurstöður könnunarinnar einnig birtar með lokaskýrslu starfshópa sem kynnt var 29. ágúst 2023. Í skýrslunni eru sett fram drög að stefnu um sjávarútveg, greining á niðurstöðum könnunar um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegs og mat á þjóðhagslegum ávinningi fiskveiðistjórnunarkerfisins ásamt tillögum starfshópanna. Skýrslan var birt í samráðsgátt stjórnvalda, ásamt áformum um lagasetningu í ágúst. Drög að stefnu um sjávarútveg og drög að frumvarpi til laga um sjávarútveg sem byggðu m.a. á tillögum starfshópanna voru birt í samráðsgátt í nóvember 2023 og lauk umsagnafresti í janúar 2024.

Á kvennafrídaginn 24. október 2023 var tilkynnt um nafn nýs hafrannsóknaskips sem hlaut nafnið Þórunn Þórðardóttir með einkennisstafina HF-300. Skipið dregur nafn sitt af fyrstu íslensku konunni með sérmenntun í hafrannsóknum og var frumkvöðull í rannsóknum á frumframleiðni smáþörunga í hafinu við Ísland. Hafrannsóknaskipið var sjósett 12. janúar 2024 í skipasmíðastöðinni Astilleros Armón í Vigó á Spáni og stefnt er að afhendingu skipsins í nóvember 2024.

Í janúar var sett af stað átaksverkefni um brottkast en helstu markmið verkefnisins er að áætla raunverulegt brottkast á Íslandsmiðum og þróa aðferðafræði til að meta umfang brottkasts og safna upplýsingum um umfang eftir veiðarfærum, svæðum og tegundum og meta áhrif brottkasts á stofnstærðir. Jafnframt að öðlast skýrari sýn á umgengni við auðlindina og nýta þekkinguna til að fræða og draga úr brottkasti

Í mars var tilkynnt um áætlun stjórnvalda að endurvekja aðild Íslands að Laxaverndunarstofnuninni (NASCO), en stofnunin var stofnsett í Reykjavík 1984 í þeim tilgangi að stuðla að verndun, uppbyggingu og sjálfbærri nýtingu laxastofna í Norður Atlantshafi, en Ísland dró aðild sína til baka í lok árs 2009.

Verndarsvæði í hafi voru nokkuð í brennidepli á árinu 2023. Þann 1. mars 2023 var staðfest reglugerð um verndun viðkvæmra hafsvæða og botnvistkerfa, og botnveiðar bannaðar á sautján svæðum í fiskveiðilandhelgi Íslands. Flest svæðanna hafa verið lokuð fyrir veiðum með botnvörpu og/eða línu allt frá árinu 1971 og þar af hafa ellefu svæði kóralla verið vernduð. Skilgreind voru þrjú ný svæði þar sem botnveiðar eru óheimilar, og er stefnan að auka hlutfall hafsvæða með svæðisbundinni verndun í samræmi við samþykktir samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD) um verndun a.m.k. 30% hafsvæða heimsins fyrir 2030. Í apríl var skipaður starfshópur um vernd hafsvæða innan íslenskrar lögsögu sem var falið að vinna tillögur um framhaldið. Hópurinn hefur rýnt stjórnkerfi verndunar og nýtingar hafsins og lagt áherslu á virka svæðisvernd í hafi fyrir svæði sem hafa mikið verndargildi, með vistfræðilega sérstöðu og svæði sem eru í hættu á að vera raskað, sem og að gera tillögu að svæðum sem þurfa verndunar við. Lögð var áhersla á að markmið verndunar séu skýr, að árangur sé tryggður með vöktun og eftirliti, unnið verði á vísindalegum grunni og í samráði við haghafa. Starfshópurinn skilaði áfangaskýrslu til ráðherra í desember 2023 og áætlað er að niðurstöður hópsins liggi fyrir í júní 2024.

Þriðji samningur undir hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja (BBNJ) var samþykktur í New York í mars 2023 eftir 10 ára samningaferli og þar voru sett fram markmið um verndun alþjóðlegra hafsvæða. Á ársfundi Norðuraustur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC) í nóvember var svo samþykkt að gera tillögu um verndarsvæði (OECM) sem tilkynna á til samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og verða svæðin fyrsta framlag ráðsins til markmiða samnings um verndun a.m.k. 30% hafssvæða heimsins fyrir 2030. Þá var á ársfundi Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðistofnunarinnar (NAFO) einnig samþykkt verndarsvæði sem tilkynnt verða til samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Einnig voru samþykktar verndunar- og stjórnunarráðstafanir fyrir árið 2024 varðandi m.a. norsk-íslenska síld, makríl, blálögnu og ýsu á Rockall banka, á grundvelli ráðgjafar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES).

Ráðuneytið og Intellecta gerðu með sér samning í nóvember 2022 um markvissari og skilvirkari öflun og úrvinnslu gagna í sjávarútvegi og lá fyrsti hluti skýrslu um gagnaauðlind sjávarútvegs fyrir í apríl 2023. Í skýrslunni eru greind þau tækifæri sem eru til staðar fyrir betri gagnanýtingu í sjávarútvegi ásamt yfirliti um tilgang gagnaöflunar og gagnavistun og -söfnun. Eitt meginmarkmið verkefnisins er að draga saman tækifæri og leiðir til að nýta gögn í sjávarútvegi betur til virkari stjórnsýslu, eftirlits og til eflingar rannsókna.
Árið 2023 var lögð aukin áhersla á almennt tvíhliða fiskveiðisamstarf við önnur strandríki við Norðaustur-Atlantshaf. Teknir voru upp árlegir ársfundir við Noreg og Evrópusambandið, til viðbótar við þá fundi sem þegar voru árlega við Færeyjar, Grænland og Bretland. Mjög tíðir fundir voru um stóru deilistofnana; makríl, norsk-íslenska síld og kolmunna á árinu 2023. Vel á annan tug funda voru haldnir í London þar sem ítrekaðar tilraunir voru gerðar til að ná heildarsamkomulagi strandríkja um þessa mikilvægu stofna.

Í júlí 2023 var undirritaður samningur milli Íslands og Grænlands um skiptingu loðnu en skv. samningnum eykst hlutdeild Íslands um 1% úr 80% í 81%, Grænlands úr 15% í 18% og hlutdeild Noregs fer úr 5% í 1%, kjósi Noregur að gerast aðili að samkomulaginu. Ísland og Grænland gerðu einnig nýjan samning um gullkarfa. Í samningnum er að finna sektarákvæði vegna umframveiða og allur kvóti umfram leyfilega 5% umframveiði fluttur frá því ríki sem veiðir of mikið yfir til hins samningsríkisins. Þá felur samningurinn í sér að hlutdeild Íslands verður 89% (var 90%) og Grænlands 11% (var 10%). Þá eru sett til hliðar 300 tonn (voru 350 tonn) fyrir Færeyjar og eru þau dregin af heildaraflamarki áður en úthlutun milli Íslands og Grænlands er skipt.

Í desember 2023 var svo undirritað samkomulag milli Íslands og Grænlands um gagnkvæmar heimildir til veiða á makríl innan lögsagna ríkjanna. Hvorri þjóð er heimilt að veiða allt að 10.000 tonn af makríl á tveimur skipum innan lögsögu hins ríkisins.
Sem hluti af sjávarútvegssamstarfi Norðurlanda og í samræmi við áherslur Íslands var í september á vegum Matís, haldin ráðstefna um umhverfisáhrif sjávarafurða og orkuskipti í fiskveiðum. Á ráðstefnunni var lögð áhersla á það hvernig Norðurlöndin hafa tækifæri til að taka forystu í orkuskiptum í sjávarútvegi. Vegna formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023 voru einnig haldnir viðburðir um það hvernig megi efla samstarf rannsókna og iðnaðar á Norðurlöndum með það að markmiði að ná sjálfbærri nýtingu sjávarauðlinda og framleiðslu á hágæða afurðum og efla þannig norrænt sjávarlífhagkerfi.

Í maí 2023 var birt eftirlitsskýrsla Matvælastofnunar um velferð hvala við veiðar á langreyðum á Íslandi á árinu 2022. Þar sem kom fram að veiðar á stórhvelum samræmdust ekki markmiðum laga um velferð dýra. Í kjölfarið var fagráði um velferð dýra falið að meta hvort veiðar á stórhvelum geti uppfyllt markmið laganna og lá mat fagráðsins fyrir 19. júní 2023. Í kjölfarið voru hvalveiðar stöðvaðar tímabundið. Þá voru að beiðni ráðuneytisins unnar nokkrar skýrslur um hvalveiðar á árinu, m.a. skýrslan „Hvalir í vistkerfi sjávar“ (júní 2023) unnin af Dr. Eddu Elísabetu Magnúsdóttur, lektor í líffræði við Háskóla Íslands og skýrslan „Efnahagsleg áhrif hvalveiða“ (ágúst 2023) sem unnin var af ráðgjafafyrirtækinu Intellecon. Í júlí 2023 var skipaður starfshópur sérfræðinga sem lögðu mat á leiðir til að fækka frávikum við hvalveiðar og skilaði hópurinn tillögum sínum 28. ágúst 2023. Í kjölfarið var sett ný reglugerð til að bæta umgjörð veiða á langreyðum með hertum skilyrðum við hvalveiðar.

Þá gegndi Ísland formennsku í Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðinu (NAMMCO) á árinu, en ráðið hefur það markmið að styðja aðildarríki ráðsins í að uppfylla skyldur sínar skv. 65. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna um að eiga samstarf á vettvangi alþjóðastofnana um verndun, stjórnun veiða og rannsóknir.

Fjölmörg frumvörp á sviði sjávarútvegs voru til umfjöllunar á árinu 2023, má þar nefna frumvarp um rafvæðingu smábáta og fiskiskipa sem knúin eru rafmagni sem aðalaflgjafa, sem er heimilt að sækja um löndun 750 kg í þorskígildum talið af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð, á strandveiðum á fiskveiðiárinu 2022/2023, í stað 650 kg. Þannig hafa eigendur smábáta eða minni fiskiskipa hvata til að fjárfesta í nýjum bátum og skipum eða breytingum til að siglt sé fyrir afli rafmagns í stað jarðefnaeldsneytis.

Einnig var samþykkt frumvarp um heimildir smærri togskipa til veiða innan 12 mílna beltis fiskveiðilandhelginna og snýr m.a. að hámarkslengd og vélarafli í svonefndum aflvísi. Þá voru gerðar breytingar til að greiða fyrir orkuskiptum og þá sérstaklega notkun tvíorkuskipa í fiskveiðum. Samhliða því voru gerðar breytingar á aflvísi, þar sem útgerðum er heimilað að nýta m.a. hæggengari vélar til að draga úr olíunotkun í samræmi við markmið stjórnvalda að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.

Þá var samþykkt frumvarp til að tryggja að veiðar á gullkarfa og grálúðu séu í samræmi við útgefið aflamark og vísindaráðgjöf og þannig sé stuðlað að sjálfbærri nýtingu þessara fiskistofna. Einnig var lögfest tímabundið ákvæði til að bregðast við göngu hnúðlaxa í íslenskar ár og vötn og veiðifélögum veitt heimild til að veiða hnúðlax með ádráttarnetum frá 2023 til 2025. Þá voru á árinu undirbúin frumvörp fyrir 154. löggjafarþing, m.a. breytingar á lögum um leyfi til prófana á vinnslu og veiðarfærabúnaði og um verðlagsstofu skiptaverðs er varðar forstöðu og stafrænt aðgengi.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum