Hoppa yfir valmynd

Starfsemi matvælaráðuneytisins á árinu 2022

Matvælaráðuneytið tók formlega til starfa 1. febrúar 2022 og var unnin stefnumótun á starfssviðum ráðuneytisins á fyrsta starfsári.

Í febrúar 2022 gaf ráðherra út greinargerð um áherslur og verklag við stefnumótun á sviði matvæla þar sem lýst var fyrirhugaðri vinnu við matvælastefnu og undirstefnum hennar á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar og fiskeldis. Unnið hefur verið eftir þessari áætlun.

Víðtækt stefnumótunarverkefni á sviði sjávarútvegs var kynnt í júní 2022 undir heitinu Auðlindin okkar. Bráðabirgðatillögur voru gefnar út í janúar 2023 og munu lokatillögur verði kynntar í júní 2023.

Í kjölfar útboðs var samið við ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group um gerð skýrslu um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi en lagareldi er yfirheiti yfir sjókvía-, land-, þörunga- og úthafseldi. Skýrslan var gefin út í febrúar 2023. Skýrslan mun nýtast við stefnumótun lagareldis til framtíðar.

Þá var Matvælaþing haldið í fyrsta sinn í nóvember 2022. Á þinginu voru drög að matvælastefnu til umræðu.

Á vorþingi 2023 var tillaga til þingsályktunar um matvælastefnu lögð fram auk tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu.

Í janúar 2023 var gefin út sameinuð landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt til ársins 2031 undir heitinu „Land og líf“ auk aðgerðaáætlunar í landgræðslu og skógrækt 2022-2026. Þá var frumvarp lagt fram um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar sem var samþykkt í mars 2023.

Matvælaráðherra er Svandís Svavarsdóttir og ráðuneytisstjóri Benedikt Árnason.

Fréttayfirlit yfir helstu verkefni matvælaráðuneytisins á árinu 2022 má sjá hér

Uppbygging og stefna matvælaráðuneytisins

Ráðuneytið samanstendur af skrifstofum landbúnaðar, sjávarútvegs og matvæla. Skrifstofur sjálfbærni og fjármála eru stoðskrifstofur sem vinna að faglegri samþættingu verkefna. Gagnsæi, skýr og fagleg stjórnsýsla ásamt sveigjanleika eru leiðarljós í allri vinnu ráðuneytisins.

Stefna matvælaráðuneytisins er að Ísland verði í fremstu röð á heimsvísu í framleiðslu matvæla. Áhersla er lögð á ábyrga umgengni við náttúru, endurheimt landgæða, sjálfbæra nýtingu auðlinda, öfluga nýsköpun og vöruþróun í hæsta gæðaflokki. Fullvinnsla afurða, hringrásarhagkerfi og lágmörkun kolefnisspors eru meginmarkmið. Matvæla- og fæðuöryggi er einnig meginstef í störfum ráðuneytisins.

Við ákvarðanatöku eru vistvæn nálgun og varúðarsjónarmið höfð að leiðarljósi. Litið er í senn til samfélagsgæða, viðkvæmra vistkerfa og efnahagslegra hagsmuna þjóðarinnar.

Orðspor Íslands sem framleiðanda matvæla er dýrmætt og hluti af þeim hagsmunum sem ráðuneytið þarf að standa vörð um í samskiptum við önnur ríki og alþjóðastofnanir.

Hér má sjá yfirlit skrifstofa matvæla, landbúnaðar, sjálfbærni og sjávarútvegs yfir verkefni ársins 2022.

Landbúnaðarvörur

Fréttaannáll matvælaráðuneytisins 2022

Hér má sjá fréttir af helstu verkefnum matvælaráðuneytisins á árinu 2022 (PDF skjal).

Samantekt skrifstofu matvæla fyrir árið 2022

Við veiðar

 

Lagareldi

Fiskeldi á Íslandi hefur vaxið með miklum hraða síðustu ár. Framleiðsla hefur sexfaldast frá árinu 2014 og náði framleiðslan á árinu 2022 samtals 51.350 tonnum.

Atvinnugreinin hefur vaxið hraðar en geta stjórnvalda til að fylgja henni eftir og fljótt varð ljóst eftir að ráðherra tók við málaflokknum að margar brotalamir væri að finna í stjórnsýslu tengdri greininni. Til að mynda hafði eftirliti og rannsóknum ekki verið fylgt eftir í samræmi við umfang og vöxt greinarinnar.

Í upphafi árs 2022 óskaði ráðherra eftir því að Ríkisendurskoðun framkvæmdi stjórnsýsluúttekt á sjókvíaeldi í heild sinni og skoðaði þætti ráðuneytisins, Hafrannsóknarstofnunar og eftirlitsaðila. Í mars var staðfesti ráðherra umhverfismat áætlana varðandi burðarþol fjarða og áhættumat erfðablöndunar og þær áætlanir voru endurútgefnar í samræmi við umhverfismatsskýrslu sem unnin var af ráðuneytinu í samvinnuvinnu við VSÓ ráðgjöf og Hafrannsóknastofnun.

Stefnumarkandi áætlun varðandi sjókvíaeldi var einnig samþykkt á árinu þegar lokið var við gerð haf- og strandsvæðaskipulags fyrir Austfirði og Vestfirði. Átti ráðuneytið fulltrúa í svæðisráði sem vann tillögu að strandsvæðaskipulaginu.

Úthlutað var samtals um 191 milljón króna úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis til tíu verkefna. Þá úthlutaði Fiskeldissjóður í annað sinn styrkjum til sveitarfélaga þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað. Alls var úthlutað um 185 miljónum króna til níu verkefna.

Tveir starfshópar voru stofnaðir á árinu í tengslum við þær áskoranir sem fylgja sjókvíaeldi. Annar skoðaði smitvarnir og sjúkdóma í fiskeldi og vann tillögur til umbóta. Hinn hópurinn fjallaði um strok úr sjókvíaeldi og skoðaði leiðir að draga úr líkum á stroki og stuðla að bættu eftirliti.

Um mitt ár var boðin út gerð skýrslu er skyldi marka framtíðarsýn lagareldis á Íslandi. Að loknu útboði var samið við Boston Consulting Group um gerð skýrslunnar þar sem gerð verður ítarlega úttekt á stöðu lagareldis og möguleikum greinarinnar til framtíðar.

Matvæli

Vinna við matvælastefnu hófst á vormánuðum 2022 en tilgangur hennar er að vera leiðarljós sem dregur fram áherslur stjórnvalda, ásamt því að móta framtíðarsýn, markmið og aðgerðaáætlun til að innleiða í íslenskt atvinnulíf og stjórnkerfi. Matvælastefnan var kynnt á fyrsta Matvælaþinginu sem fór fram í nóvember og var hún jafnframt opin til umsagnar á Samráðsgátt stjórnvalda. Matvælastefna til ársins 2040 var samþykkt á Alþingi í lok maí 2023. Á málefnasviði matvæla voru innleiddar tæplega 200 EES-reglugerðir. Matvælasjóður úthlutaði 584, 6 milljónum, en 211 umsóknir bárust á árinu 2022.

Samantekt skrifstofu landbúnaðar fyrir árið 2022

 

Í mars 2022 var sérstakur stuðningur greiddur til bænda til að koma til móts við miklar verðhækkanir á áburði sem má rekja til verðhækkana á jarðgasi, olíu og annarra ytri aðstæðna. Stuðningurinn var greiddur í formi viðbótarálags á jarðræktarstyrki og landgreiðslna, alls 650 milljónir króna. Þessu til viðbótar voru 50 milljónir króna sem er ætlað að efla ráðgjöf um bætta nýtingu áburður og jarðrækt hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.

Í byrjun júní 2022 skipaði matvælaráðherra svokallaðan spretthóp vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi. Verðhækkanir á helstu aðföngum í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu voru farin að hafa alvarleg áhrif á rekstur bænda. Spretthópurinn skilaði tillögum í sama mánuði þar sem lagt var til að ríkið kæmi til móts við þessar verðhækkanir með 2.460 milljóna króna stuðningi á árinu 2022. Stuðningurinn var greiddur út í skrefum á árinu sem viðbótarálag á ákveðnar greiðslur samkvæmt gildandi búvörusamningum auk þess sem 450 milljónir voru ætlaðar til stuðnings svína-, alifugla- og eggjaframleiðslu. Spretthópurinn lagði einnig til átta tillögur að aðgerðum sem miðuðust við lengra tímabil. Þær snerta m.a. neyðarbirgðahald, eflingu grænmetisframleiðslu, kornræktar, jarðræktarrannsókna, lífræna framleiðslu og aukið fæðuöryggi landsins.

Landbúnaðarháskóli Íslands skilaði ráðherra tillögum og greinargerð að fæðuöryggisstefnu fyrir Ísland. Tillögurnar eru í 16 liðum og miða að því að efla fæðuöryggi og er unnið með þessar tillögur samhliða annarri stefnumótun stjórnvalda. Til að tryggja megi fæðuöryggi til framtíðar er í tillögunum m.a. lögð áhersla á vöktun á umhverfisbreytum og skuldbindingu stjórnvalda um að ná stjórn á áhrifum loftslagsbreytinga á fæðukerfi. Þá er bent á að ásættanleg fjárhagsleg afkoma bænda sé ein af undirstöðum fæðuöryggis sem þurfi að huga að ásamt því að styrkja sem best jarðrækt á Íslandi hvort sem um er að ræða gras- eða kornrækt, útiræktun á grænmeti eða ylrækt. Þá kemur fram að neyðarbirgðir geti skipt sköpum í öryggisviðbúnaði þjóðarinnar. 

Landbúnaðarháskóla Íslands var jafnframt falið að vinna drög að aðgerðaáætlun til eflingar kornræktar. Mikilvægi innlendrar kornræktar hefur aukist verulega í takti við aukið vægi fæðuöryggis síðustu misseri. Efling innlends kornmarkaðar er eitt stærsta viðfangsefni verkefnisins en einnig verður nauðsynleg uppbygging skilgreind á sviði kynbóta, bútækni og aðlögun stuðningskerfa í takti við það sem þekkist erlendis. Fýsileiki innlends kornsamlags verður kannaður og skilgreindar þarfir á lágmarksbirgðum kornvöru í landinu.

Nýr samningur um markaðsverkefnið Horses of Iceland var undirritaður. Allt að 25 milljónum króna, gegn jafnháu mótframlagi aðila úr greininni, verður varið árlega næstu þrjú árin til að styðja við markaðssetningu á Íslenska hestinum og hestatengdum vörum. Markmið verkefnisins er að byggja upp orðspor íslenska hestsins á völdum erlendum mörkuðum og leggja þannig grunn að aukinni verðmætasköpun og útbreiðslu hestsins á heimsvísu. 

Þá undirritaði matvælaráðherra samning við ráðgjafafyrirtækið Environice um gerð tillagna að aðgerðaáætlun fyrir eflingu lífrænnar framleiðslu. Tillögur að aðgerðaráætlun til eflingar kornræktar og aðgerðaráætlun til eflingar lífrænni framleiðslu eru unnar í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem áhersla er lögð á öfluga íslenska matvælaframleiðslu.

Matvælaráðherra undirritaði samning um verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður. Markmið hans er að efla verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður á árinu 2022, auðvelda framkvæmd þess, bæta mat á árangri þátttakenda í verkefninu og undirbúa það fyrir frekari stækkun. Verkefnið byggir á samstarfi Landgræðslunnar, Matvælaráðuneytis, Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins, Skógræktarinnar og umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytisins og er meginmarkmið þess að  draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og landnýtingu ásamt því að auka kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri.

Starfshópur um tryggingavernd bænda skilaði skýrslu til matvælaráðherra. Hópurinn var skipaður sl. ár og var ætlað að greina stöðu tryggingaverndar bænda vegna óvæntra áfalla í búskap og gerði hann ákveðnar tillögur að úrbótum.

Samantekt skrifstofu sjálfbærni fyrir árið 2022

 

Matvælaráðherra fer með forræði verkefna á einum málaflokki á málefnasviði 17: Umhverfismál, málaflokkur 17.10 Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla. Undir málaflokkinn heyra tvær stofnanir, Landgræðslan og Skógræktin.

Gefin var út stefna stjórnvalda fyrir landgræðslu og skógrækt til tíu ára sem ber heitið Land og líf. Samtímis var gefin út aðgerðaáætlun til fimm ára. Í stefnunni kemur m.a. fram eftirfarandi framtíðarsýn:

  • Ástand vistkerfa og líffræðileg fjölbreytni þeirra er í samræmi við vistgetu.

  • Nýting skóga, votlendis og annarra vistkerfa er sjálfbær og þau hafa öflugan viðnámsþrótt gegn náttúrulegum áföllum og öðru raski.

  • Vistkerfi landsins geyma ríkulegt magn af kolefni í jarðvegi og gróðri og gegna lykilhlutverki í að Ísland bindi meira kolefni en það losar.

  • Aukin landgæði í skógum og blómlegri vistkerfum styðja við bætt lífsgæði, lýðheilsu og eykur þanþol samfélaga gagnvart umhverfisbreytingum.

  • Land býr yfir gæðum sem styðja við fjölbreytta atvinnustarfsemi og sjálfbæra þróun byggða um allt land

Ráðherra ákvað í kjölfar forathugunar að leggja fram frumvarp um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Niðurstaða forathugunar var að fagleg og rekstrarleg rök væru fyrir sameiningu stofnananna tveggja og að með góðum undirbúningi mætti tryggja að slík sameining skilaði ávinningi. Tækifæri væru til staðar og horfa mætti til þess að ná fram aukinni skilvirkni í málaflokknum. Stærstu tækifærin eru talin snúa að heildstæðari sýn á landnýtingu sem geti flýtt framgangi fjölmargra verkefna, m.a. í þágu loftslagsmála.

Samantekt skrifstofu sjávarútvegs fyrir árið 2022

Starfsemi á málefnasviði 13, Sjávarútvegur og fiskeldi er á forræði matvælaráðherra.

Á málefnasviðinu eru þrjár stofnanir, Fiskistofa, Verðlagsstofa skiptaverðs og Hafrannsóknastofnun en einnig fellur undir málefnasviðið starfsemi Fiskræktarsjóðs, Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, Verkefnasjóður sjávarútvegsins og Fiskeldissjóðs, auk ýmissa samninga og verkefna, s.s. vegna rannsókna og alþjóðlegs samstarfs.

Til að tryggja íslenskum sjávarafurðum samkeppnishæfni á alþjóðamörkuðum hefur áhersla verið lögð á sjálfbæra nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Þýðingarmikið er að stjórn fiskveiða byggi á vísindalegri þekkingu og að eftirlit sé skilvirkt. Það er samtímis grundvöllur þess að veiðar séu í samræmi við verndunarsjónarmið sem stjórnvöld setja og að ekki sé veitt umfram vísindalega ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Í mars var gerður samningur um hagræna úttekt á hvalveiðum. Markmið verkefnisins er að meta efnahagsleg áhrif hvalveiða á Íslandi. Matvælaráðherra setti einnig reglugerð sumar 2022 sem veitti Matvælastofnun heimild til að viðhafa aukið reglubundið eftirlit við hvalveiðar. Tilgangur eftirlitsins var að stuðla bættri velferð dýra við hvalveiðar.

Eftir undirbúningsvinnu, hönnunarferli og útboðsferli á nýju hafrannsóknaskipi var þann 1. apríl undirritað samningur við skipasmíðastöðina Armon Vigo á Spáni. Við tók um tveggja og hálfs árs smíðatími og verður mikið tilhlökkunarefni að fá skipið til þjónustu fyrir Hafrannsóknastofnun og styrkja þar með grunnrannsóknir á vistkerfi hafsins.

Matvælaráðherra ákvað í lok júní að skipa starfshóp um hnúðlax þar sem rannsaka þarf möguleg áhrif hnúðlaxins á lífríkið og villta stofna sem fyrir eru í íslenskum ám og skoða erlendar rannsóknir um efnið. Gera þarf viðbragðsáætlun til að mæta aukningu í hnúðlaxagengd í íslenskum ám.

Verkefnið Auðlindin okkar hófst í upphafi ársins þegar kynntar voru áherslur og verklag við stefnumótun á sviði matvæla. Í ljósi reynslu af vinnu við endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni á undanförnum árum og áratugum varð niðurstaða matvælaráðherra sú að beita þyrfti nýrri nálgun við þær fjölmörgu áskoranir og tækifæri sem eru í sjávarútvegi og snerta samfélagið allt með beinum og óbeinum hætti. Í lok maí skipaði matvælaráðherra fjóra starfshópa til að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum ásamt því að meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Í október og nóvember voru haldnir fjórir opnir fundir um verkefnið þar sem verkefnið var kynnt og kallað eftir ábendingum og skoðunum landsmanna. Í október var einnig opnuð heimasíða fyrir verkefnið, audlindinokkar.is, þar sem unnt er að nálgast umfangsmikið gagnasafn um sjávarútveg. Starfshóparnir tóku viðtöl við fjölmarga hagaðila og öfluðu gagna á árinu ásamt því að vinna 60 bráðabirgðatillögur.

Matvælaráðuneytið og Intellecta gerðu með sér samning í nóvember um markvissari og skilvirkari öflun og úrvinnslu gagna í sjávarútvegi. Í kringum sjávarútveg og tengdar greinar verður til mikið magn af gögnum sem skila sér ekki alltaf á sömu staði og nýtast því ekki sem skyldi. Markmið verkefnisins er annars vegar að greina hvaða gögnum er safnað í sjávarútvegi í dag, hvar þau eru, hverjir þurfa á þeim að halda og hins vegar að benda á tækifæri og leiðir til að nýta gögnin betur til virkari stjórnsýslu, eftirlits og til eflingu rannsókna. Um er að ræða gögn frá rekstraraðilum, stjórnsýslunni og rannsóknargögn sem má nýta betur en nú er gert. Með aukinni þróun í gervigreind við gagnaúrvinnslu hafa orðið til nýir möguleikar til gagnaöflunar og upplýsingagjafar sem draga úr kostnaði og tryggja meiri áreiðanleika.

Í byrjun október gerði ráðuneytið samning við Samkeppniseftirlitið um athugun á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi í samvinnu við Fiskistofu, Skattinn og Seðlabanka Íslands. Athuguninni er fyrst og fremst ætlað að auka gagnsæi og bæta stjórnsýslu á sviði eftirlits með stjórnunar- og eignartengslum í sjávarútvegi. Safnað er upplýsingum og kortlögð eignatengsl sjávarútvegsfyrirtækja sem hafa fengið úthlutað ákveðnu umfangi aflaheimilda og áhrifavaldi eigenda sjávarútvegsfyrirtækja í gegnum beitingu atkvæðisréttar og stjórnarsetu í fyrirtækjunum. Kortlagningin verður sett fram í skýrslu sem liggja mun fyrir 31. desember 2023 og mun skýrslan nýtast við vinnslu heildarlaga sem og við mótun upplýsingatækniumgjörðar sem nýtast mun við frekari kortlagningu og eftirlit með stjórnunar- og eignatengslum í íslensku atvinnulífi almennt.

Í október 2022 skilaði Jóhann Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri Hafrannsóknarstofnun til Matvælaráðuneytisins greinargerð um stöðu haf- og fiskirannsókna og leiðir til að efla þær. Í greinargerðinni er litið til nágrannalanda og alþjóðastofnana varðandi fyrirkomulag og þróun haf- og fiskirannsókna. Einnig var bent á tækninýjungar sem geta dregið úr kostnaði við rannsóknir og bætt aðferðir og styrkt þekkingaöflun um hafið. Í greinargerðinni kemur m.a. fram að stærsta áskorunin sé vöktun og rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga á fiskistofna og lífríkið í heild, þ.m.t. súrnun sjávar. Þá sé áhersla lögð á mikilvægi vistkerfanálgunar ásamt því að fjármögnun til aukinna grunnrannsókna og vöktunar nytjastofna sé tryggð. Einnig var bent á að lögfesta þurfi ramma fyrir fiskveiðar og aflareglur fyrir mikilvægustu fiskistofna. Þá þurfi að setja langtímamarkmið um vernd og sjálfbæra nýtingu fiskistofna í anda nútíma vistkerfisnálgunar ásamt formlegri óháðri og utanaðkomandi úttekt á fimm ára fresti.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta