Skipulag menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins
Skipurit

Skrifstofa ráðuneytisstjóra
Skrifstofunni er stýrt af ráðuneytisstjóra sem tilnefnir einn skrifstofustjóra ráðuneytisins sem staðgengil sinn. Skrifstofa ráðuneytisstjóra ber ábyrgð á verklagi ráðuneytisins, forgangsröðun og að starfsáætlun sé gefin út, skýr og fylgt eftir. Að auki annast hún gæðamál, innleiðingu á ferlum og gæðahandbók. Þá tryggir skrifstofan að stjórnsýsla ráðuneytisins sé vönduð.
Skrifstofan heldur utan um stefnumótunarvinnu ráðuneytisins og eftirfylgni hennar, hefur yfirsýn yfir áætlanagerð og hefur frumkvæðishlutverk í umbótamálum, samræmingu stjórnsýslu, starfsemi og samvinnu. Skrifstofan tryggir að stefnumótun sé framkvæmd á áhrifaríkan hátt með því að veita stuðning og sérfræðiþekkingu um stefnumótunarferli til fagskrifstofa. Starfsfólk skrifstofunnar styður við innra starf ráðuneytisins, m.a. við störf hópa og teyma sem starfa þvert á ráðuneytið. Ráðuneytisstjóri gætir að samhæfingu innan málefnasviða ráðuneytisins.
Skrifstofan fer jafnframt með mál er varða alla aðstoð og þjónustu við ráðherra; s.s dagskrá ráðherra, skipulag viðtala, heimsóknir og ferðir, undirbúningur funda og mál sem varða þingstörf ráðherra. Skrifstofan sinnir öllum tilfallandi verkefnum sem henni eru falin af ráðherra innan þeirra marka sem lög og reglur kveða á um.
Skrifstofan hefur umsjón með upplýsingamiðlun, fjölmiðlasamskiptum og útgáfumálum ráðuneytisins. Skrifstofan fer einnig með forsvar gagnvart alþjóðasamstarfi og réttindamálum á málefnasviðum ráðuneytisins.
Skrifstofan fer með mannauðsmál innan ráðuneytisins sem og forstöðumanna stofnana ráðuneytisins. Skrifstofan ber ábyrgð á launasetningu, jafnlaunakerfi og aðbúnaði starfsfólks ráðuneytisins. Að auki fer skrifstofan með jafnréttismál, fræðslu og starfsþróun starfsfólks.
Skrifstofa fjármála og rekstrar
Skrifstofan hefur yfirumsjón með gerð fjárlaga og fjármálaáætlunar og er leiðandi í teymi ráðuneytisins um opinber fjármál. Hún hefur eftirlit með framkvæmd fjárlaga og umsjón með fjárheimildum á málefnasviðum ráðuneytisins. Skrifstofan tryggir lögbundið eftirlit með fjárreiðum, rekstri og uppgjöri ríkisaðila og heldur utan um verkefni tengd framkvæmda- og húsnæðismálum stofnana ráðuneytisins. Jafnframt annast hún lögbundið eftirlit með aðilum sem fá styrki eða framlög frá ráðuneytinu.
Skrifstofan ber ábyrgð á innkaupum og almennum rekstri ráðuneytisins, áætlanagerð og gerð samninga er varða rekstur þess. Þá ber skrifstofan ábyrgð á skjalamálum og málaskrá ráðuneytisins, auk þess að annast áhrifa- og kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla í samvinnu við fagskrifstofur.
Fagskrifstofur
Fagskrifstofur ráðuneytisins eru þrjár: skrifstofa háskóla og vísinda, skrifstofa menningar og skapandi greina og skrifstofa nýsköpunar, rannsókna og stafrænna mála. Sú síðastnefnda vinnur þvert á hinar fagskrifstofurnar tvær til að tryggja samlegð málaflokka ráðuneytisins, ekki síst á sviði nýsköpunar, rannsókna og gervigreindar.
Skrifstofurnar fara með stefnumótunar- og framkvæmdarhlutverk fyrir málefnasvið sín með stuðningi skrifstofu ráðuneytisstjóra. Þær fara með stjórnsýsluhlutverk síns málaflokks. Þær hafa samstarf og samráð við hagaðila og sinna samskiptum vegna stofnana og sjóða sem undir málefnasvið þeirra heyra. Skrifstofurnar tryggja jafnframt lögbundið eftirlit með ríkisaðilum og öðrum sem starfa að stjórnarframkvæmd á málefnasviðum skrifstofanna.
Skrifstofurnar vinna í umboði ráðherra að stefnumarkandi langtímaverkefnum; svo sem mótun og innleiðingu á stefnum stjórnvalda í tengslum við málefnasvið sín, fjárlögum og fjármálaáætlun, lagafrumvörpum, reglugerðum og aðgerðaáætlunum sem heyra undir málefnasvið skrifstofanna.
Skrifstofurnar fara með alþjóðasamskipti og sinna alþjóðlegri hagsmunagæslu í málaflokkum þeirra fyrir Íslands hönd. Skrifstofurnar undirbúa jafnframt skipanir og tilnefningar í nefndir og ráð, jafnt innlands sem og í alþjóðlegu samstarfi.
Teymi
Áhersluverkefni eru unnin þvert á skrifstofur með aðstoð teyma. Þrjú grunnteymi eru til staðar en að auki eru fagteymi sett saman eftir þörfum.
Grunnteymin eru:
- Fasteignateymi, leitt af skrifstofu fjármála og rekstrar
- LOF teymi, leitt af skrifstofu fjármála og rekstrar
- Samningateymi, leitt af skrifstofu háskóla og vísinda
Um ráðuneytið
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.