Hoppa yfir valmynd

Helstu verkefni á árinu 2022

Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Skrifstofa menningar- og fjölmiðla

1. Máltækniáætlun ríkisstjórnarinnar 2018-2022. Verklok, úttekt, framhald.

Verklok kjarnalausna máltækniverkefnisins út frá verkáætluninni Máltækni fyrir íslensku 2018-2022 voru 1. október 2022. Menningar- og viðskiptaráðuneytið samdi við fyrirtækið Intellecta ehf. um úttekt á framkvæmd Almannaróms og SÍM á máltækniáætluninni til að meta hvort Almannarómur hafi uppfyllt markmið sem sett voru fram með grunnsamningi frá 2018 og viðaukum. Niðurstöður úttektarinnar gáfu til kynna að Almannarómur hefði staðið við skuldbindingar sbr. grunnsamning, með nokkurri aðlögun í ljósi þeirra tæknibreytinga sem hafa orðið frá því verkáætlunin var gefin út.  

Unnið er að því að setja á laggirnar starfshóp fagaðila sem mun hafa það hlutverk að leggja fram tillögur að verkefnum í máltækni fyrir íslensku og forgangsröðun þeirra fyrir áætlaðar 200 m.kr. næstu fjögur árin. Áætlað er að starfshópur skili tillögum á haustmánuðum 2023. 

Stefnt er að því að viðhalda þeim kjarnalausnum sem urðu til með máltækniverkefninu. Til stendur einnig að vekja athygli á afurðum máltækniverkefnisins með markvissum hætti.  

2. Ný tónlistarlög, tónlistarstefna og tónlistarmiðstöð

Tónlistarstefna fyrir árin 2023-2030 hefur verið í mótun frá lok árs 2021 með aðkomu mennta- og barnamálaráðuneytisins, háskóla-, iðnaðar-, og nýsköðpunarráðisins og hagaðila. Með tónlistarstefnu er mótuð framtíðarsýn og vegvísar með það að markmiði að styðja við tónlist sem listgrein, tónlistarfólk og aðra sem starfa við tónlist. Tillaga til þingsályktunar um tónlistarstefnu hefur verð lögð fram á Alþingi ásamt frumvarpi til laga um tónlist. Um er að ræða fyrstu heildarlög um tónlist og inniheldur frumvarpið ákvæði um nýja Tónlistarmiðstöð, nýjan tónlistarsjóð, tónlistarráð og fleira. Ráðgert er að tónlistarmiðstöð taki til starfa snemma á árinu 2023 og er gert ráð fyrir 150 milljóna framlagi til hennar.  

3. Myndlistarstefna

Í október 2020 var verkefnahópi með fulltrúum stjórnvalda og myndlistarlífs, stofnana- og stuðningskerfis, félagasamtaka og atvinnulífs myndlistar falið að móta heildstæða stefnu um málefni myndlistar á Íslandi til ársins 2030. Tillaga til þingsályktunar um myndlistarstefnu til ársins 2030 er nú í meðförum Alþingis. Hún kallar á fjölbreyttan stuðning við listsköpun, menntun og myndlæsi sem styðji við kraftmikla myndlistarmenningu. Öflug myndlistarmenning getur þannig aukið þekkingu og áhuga almennings á myndlist og bætt lífsgæði og ánægju. Í stefnunni eru lögð til markviss skref til þess að einfalda en styrkja stofnana- og stuðningskerfi myndlistar og hlúa markvissar en áður að innviðum atvinnulífs myndlistar. Með því má bæta samkeppnishæfni fyrirtækja og efla útflutning og markaðssetningu á íslenskri myndlist. 

4. Stefna í málefnum hönnunar og arkitektúrs

Vinna við gerð nýrrar stefnu í málefnum hönnunar og arkitektúrs hófst vorið 2022. Stefnan byggir á eldri stefnumótun sem fram fór árin 2011-2013 og stefnu sem í gildi var árin 2014-2018, drögum að nýrri stefnu sem kynnt var árið 2018 og umsögnum sem um þau bárust og niðurstöðum stefnumóts Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs sem fram fór í júní 2021. Drög stefnunnar voru kynnt í Samráðsgátt sumarið 2022 og stefnan sjálf kynnt í febrúar 2023. 

5. Fjölmiðlastefna

Vinna við gerð fjölmiðlastefnu hófst 2022 og er áætlað að ljúki með framlagningu þingsályktunar á vormánuðum 2023. Um er að ræða fyrstu fjölmiðlastefnu stjórnvalda en þingsályktunartillagan tekur meðal annars til einkarekinna fjölmiðla, fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og miðla- og upplýsingalæsis. 

6. Tillaga til þingsályktunar um aðgerðir í þágu íslenskrar tungu

Þingsályktunartillaga um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026 verður lögð fram á þingi vorið 2023. Áætlunin er unnin í menningar- og viðskiptaráðuneyti og lögð fram af menningar- og viðskiptaráðherra en mun spanna vítt svið íslenskrar tungu og þar verða jafnframt aðgerðir sem heyra undir aðra ráðherra sem tengjast málefnum íslenskunnar í ráðherranefnd um íslenska tungu. Aðgerðirnar snerta flest svið samfélagsins, svo sem skólakerfið og atvinnulífið, og snúast um máltækni, íslenskukennslu fyrir útlendinga, veforðabækur, íslenskugátt, talsetningu og textun, notkun íslensku í ferðaþjónustu o.fl.  

7. Tillaga til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls 

Tillaga til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaáætlun með málstefnunni voru unnar af starfshópi skipuðum fulltrúum Málnefndar um íslenskt táknmál, Félags heyrnarlausra og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra með víðtæku samstarfi við sérfræðinga í málaflokknum. Með fyrstu opinberu málstefnunni um íslenskt táknmál er staða íslenska táknmálsins skýrð og er hún unnin í samræmi við drög að íslenskri málstefnu. Tillagan ásamt aðgerðaáætlun verður lögð fram á þingi vorið 2023. 

8. Hækkun listamannalauna og fjölgun mánaða

Markmið listamannalauna er að efla listsköpun í landinu og hefur verið lögð áhersla á að þau hækki í samræmi við launa og verðlagshækkun. Að þessu sinni hækkuðu listamannalaun því um 4,6% í úthlutun ársins 2022. Samhliða var sérstök 100 m.kr. fjárveiting í fjárlögum ársins 2022 til að hækka listamannalaun. Með því hækkaði hver mánaðargreiðsla um 62.500 kr. og numu listamannalaun ársins því 490.920 kr. á mánuði. Úthlutun fengu 236 listamenn. 

Í ráðuneytinu er nú unnið að frumvarpi sem fjölgar mánuðum til úthlutunar og bætir við þremur nýjum sjóðum, ungliðasjóði, kvikmyndahöfundasjóði og “senior”-sjóði sem ráðgert er að komi í stað heiðurslauna listamanna sem Alþingi úthlutar árlega.  

9. 450 milljónir í viðspyrnuaðgerðir til tónlistar og sviðslista

Ríkisstjórn Íslands ákvað í ársbyrjun 2022 að verja 450 milljónum króna til viðspyrnuaðgerða í þágu tónlistar- og sviðslistageiranna vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. 

Heimsfaraldurinn hafði afar mikil og neikvæð áhrif á hagkerfið og samdrátturinn hafði gríðarleg áhrif á verðmætasköpun í menningargeiranum, sérstaklega þeim greinum hans sem byggja tekjuöflun sína að mestu á viðburðahaldi. 

10. Ísland í framkvæmdastjórn UNESCO

Ísland er fulltrúi Norðurlandanna í framkvæmdastjórn Menningarmálastofnunar Sþ og er stjórnarsetan meginverkefni Íslands innan UNESCO fram til loka árs 2025. Ísland er jafnframt í stýrihópi um áratug frumbyggjamála 2022-2032. Áhersla er lögð á stefnumótun í menningarmálum og í september sl. var ný yfirlýsing menningarmálaráðherra samþykkt af 150 löndum á ráðherraráðstefnunni Mondiacult 2022. Fram undan er vinna við ramma um menntun á sviði lista og menningar sem ráðgert er að taki gildi í desember nk. og einnig er lögð áhersla er á mannréttindi, fjölmiðlafrelsi og jafnréttismál. Ísland er samstíga bandalags- og samstarfsríkjum í aðgerðum til stuðnings Úkraínu og hefur á vettvangi framkvæmdastjórnarinnar einnig verið í forsvari fyrir áherslu á að styðja við rétt stúlkna og kvenna í Afganistan til menntunar. 

11. Samningur UNESCO um vernd menningarverðmæta í stríðsátökum

Ísland staðfesti á árinu 2022 Haag-samning UNESCO frá 1954 um vernd menningarverðmæta komi til vopnaðra átaka. Gögnum þar að lútandi var skilað til höfuðstöðva UNESCO í París í desember sl. Unnið var að fullgildingu samningsins í menningar- og viðskiptaráðuneyti í samstarfi við utanríkisráðuneyti. Samningurinn er umfangsmesti fjölþjóðasamningurinn sem snýr að verndun menningarverðmæta á heimsvísu og er mikilvægt verkfæri til verndar menningarverðmætum í yfirstandandi stríði í Úkraínu. 

12. Fjölmiðlamál -  vinna við endurskoðun á styrkjum til einkarekinna fjölmiðla og styrkir til staðbundinna fjölmiðla

Fyrir liggur frumvarp sem mælt var fyrir í lok árs 2022 sem framlengir styrki til einkarekinna fjölmiðla um eitt ár. Á þessu ári verður lokið við endurskoðun styrkjanna og umhverfi einkarekinna fjölmiðla í heild sinni og stefnt að framlagningu frumvarps sem festir styrkina í sessi að lok þeirri vinnu. 

Menningar- og viðskiptaráðuneytið auglýsti eftir umsóknum um styrki til staðbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins í lok nóvember. Að tímafresti liðnum höfðu ráðuneytinu borist níu umsóknir sem uppfylltu öll skilyrði fyrir styrkveitingunni skv. reglum nr. 1265/2022 um styrkveitingar til staðbundinna fjölmiðla. Ráðstöfunarupphæðin skiptist því jafnt milli níu umsækjenda, eða 625 þús. kr. á hvern umsækjanda.   

13. Framtíðarfyrirkomulag SAFT verkefnisins

Yfir stendur samráð viðkomandi ráðuneyta um framtíðarfyrirkomulag SAFT verkefnisins, vakningarátak um örugga og jákvæða netnotkun. Ekki eru lengur fyrir hendi fjárframlög frá Evrópusambandinu, og því ráðist í endurskoðun á fjármögnun og hlutverki SAFT. Fjölmiðlanefnd hefur samkvæmt 10. gr laga um fjölmiðla nr. 38/2011 skyldu til að efla miðla- og upplýsingalæsi allra aldurshópa og auka skilning á hlutverki og notkun ólíkra miðla meðal almennings. Búist er við tillögum um framtíðarfyrirkomulag SAFT verkefnisins á næstu vikum, sem lagðar verða fyrir ríkisstjórn til samþykktar. 

14. Málefni á sviði höfundaréttar

Vinna við veitingu viðurkenningar rétthafasamtaka/umsýslustofnana hófst árið 2022 og er áætlað að ljúka við veitingu viðurkenninga á vormánuðum 2023.  

Unnið hefur verið að innleiðingu DSM tilskipunarinnar um höfundarétt og systurtilskipunar hennar um ákveðin netnot útvarpsstöðva á höfundavörðu efni. Stefnt er að því að frumdrög að frumvarpi liggi fyrir í haust og verði þá kynnt hagaðilum. 

15. Þjóðskjalasafn Íslands – innviðavæðing og efling rafrænnar skjalavistunar hjá hinu opinbera. 

Þjóðskjalasafn Íslands fékk á þessu ári auknar fjárveitingar til að styrkja tæknilega innviði safnsins og þróa nýja tæknilausn sem tryggir varðveislu og aðgengi að öllum safnkosti og þeim gögnum sem munu berast frá afhendingarskyldum aðilum á rafrænu formi. Til að fylgja því eftir hefur safnið skilað inn minnisblaði til menningar- og viðskiptaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis sem greinir frá leiðum til uppbyggingar næstu fimm ára í húsnæðismálum og endurnýjun rafrænna innviða.  

16. Evrópsku kvikmyndaverðlaunin

Evrópsku kvikmyndaverðlaunin voru haldin í Hörpu 10 desember sl. Verkefnið var viðamikið samstarfsverkefni ríkis og borgar. Mikil heiður fylgir því að halda hátíðina en annað hvert ár er hún haldin í Berlín en þess á milli í öðrum evrópskum borgum. Þetta er fyrsti svokallaði A-lista viðburðurinn sem haldinn hefur verið hér á landi. 

Sýnt var beint frá hátíðinni í 29 löndum. Um 1500 gestir sóttu viðburðinn í Hörpu, þar af 700 erlendir gestir frá allri Evrópu. Auk þess sem 160 erlendir blaðamenn komu til Íslands. 

Ýmiskonar viðburðir tengdir verðlaunaafhendingunni voru á dagsská dagana fyrir og eftir kvikmyndaverðlaunin. Flestir viðburðir voru opnir almenningi.  

17. Sviðslistastefna og Sviðslistamiðstöð

Fyrsta heildstæða sviðslistastefna Íslands er í vinnslu. Stefnan mun setja fram heildstæða sýn fyrir sviðslistir. Sérstök áhersla verður lögð á danslistina og sjálfstæðu senuna við mótun stefnunnar.  

Sviðslistamiðstöð tók formlega til starfa þann 1. febrúar sl. Miðstöðin gegnir því hlutverki að styðja íslenskar sviðslistir og „auka sýnileika þeirra og hróður innan lands sem utan.“  

18. Feneyjatvíæringur í myndlist 2022

Feneyjatvíæringurinn er einn mikilvægasti vettvangur samtímamyndlistar á alþjóðavísu. Myndlistarmaðurinn Sigurður Guðjónsson var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2022. Framlag hans til 59. alþjóðlegu myndlistarsýningarinnar var listaverkið Ævarandi hreyfing. Sýningarstjóri var Mónica Bello. Sigurður Guðjónsson er þekktur fyrir magnþrungin vídeóverk þar sem mynd, hljóð og rými mynda órofa heild. Íslenski skálinn var að þessu sinni í Arsenale, einu af aðalsvæðum hátíðarinnar.  

19. Menningarhús á Austurlandi

Sláturhúsið, nýtt menningarhús á Egilsstöðum í sveitarfélaginu Múlaþingi, var opnað formlega í september á síðasta ári, en menningar- og viðskiptaráðherra skrifaði undir samkomulag um framkvæmdina árið 2018. 

Með tilkomu hússins batnar sviðslistaaðstaða og aðstaða til listsýninga til muna á svæðinu en nýr 247 fermetra svartur kassi var meðal annars tekinn í gagnið sem mun nýtast listafólki til góðs bæði til sýninga og æfinga.  

20. Formennska í Norrænu ráðherranefndinni.

Ísland tók við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 1. janúar 2023 og mun gegna henni út árið. Yfirskrift formennsku Íslands er: “Norðurlönd - afl til friðar.” Formennskan er viðamikið og mikilvægt verkefni sem snertir öll ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands í gegnum þátttöku í ráðherra- og embættismannanefndum ráðherranefndarinnar.  

Menning spilar lykilhlutverk í norrænu samstarfi en menningarsamstarf á Norðurlöndum var grundvöllur fyrir stofnun ráðherranefndarinnar árið 1971. Ísland ætlar að vekja athygli á að Norðurlöndin eru eftirsóknarvert og skapandi svæði og að fjölbreytt menningarstarfsemi er lykilþáttur í atvinnulífi Norðurlanda. Lögð verður sérstök áhersla á listamenn frá norðurslóðum.  

21. Listaverkasafn Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur til Listasafns Íslands

Í byrjun árs 2022 afhenti Listaverkasjóður Þorvaldar Guðmundssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur Listasafni Íslands listaverkasafn hjónanna til framtíðarvörslu en það skartar perlum íslenskrar listasögu, ekki síst þeirra listamanna sem teljast til frumherja íslenskrar málaralistar. Listasafn Íslands mun á næstu misserum skrá þetta einstaka sérsafn og gera það aðgengilegt til sýninga og með stafrænum hætti. Að auki er stefnt að bókaútgáfu um safneignina.  

22. Menningarsókn 

Í ráðuneytinu hefur á undanförnum vikum verið farið markvisst yfir Menningarsókn - aðgerðaáætlun um listir og menningu í þeim tilgangi að heimfæra einstakar aðgerðir á vegum ráðuneytisins upp á áætlunina og meta hvar þarf að gefa í.  

23. Annað

Frumvarp til laga um breytingu á kvikmyndalögum – framleiðslustyrkur til lokafjármögnunar, frumvarp til laga um breytingu á safnalögum, lögum um Þjóðminjasafn Íslands og lögum um Náttúruminjasafn Íslands (samráð og skipunartími) og frumvarp til laga um breytingar á fjölmiðlalögum til innleiðingar á breytingartilskipun 2018/1808/ESB, verða lögð fram á vorþingi.  

Skrifstofa viðskipta og ferðamála

1. 550 milljónir í markaðsverkefni fyrir ferðaþjónustuna

Í febrúar 2022 undirritaður samningur um framhald „Ísland saman í sókn“ sem er markaðsverkefni fyrir íslenska ferðaþjónustu. Verkefnið er hluti af viðspyrnu stjórnvalda vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Með samningnum eru verkefninu tryggðar 550 milljónir króna í viðbótarfjármagn sem nýttar verða til að framlengja markaðsverkefnið 2022.

2. Hækkun á endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar

Á vorþingi 2022 var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Lögin voru samþykkt í júní 2022 og fela í sér að stærri og lengri tíma verkefni eiga rétt á 35% endurgreiðslu, í stað 25% endurgreiðslur. Lögin hafa þegar haft áhrif og stærri verkefni eru í tökum á Íslandi. 

3. Vinnuhópur um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna

Skipaður í júní 2022. Falið að greina gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna. 

4. Stjórnsýsla samkeppnis- og neytendamála

Starfshópur var skipaður í ágúst 2022 sem falið er að skoða leiðir til að skapa eftirliti samkeppnis- og neytendamála nýja stjórnsýslulega stöðu innan stofnanakerfis ríkisins. Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna er kveðið á um að stefnt verði að sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu. Þá er einnig stefnt að því að kannaðir verði eftir atvikum kostir á sameiningu við aðrar stofnanir þar með talið fyrirtækjaskrá, ársreikningaskrá og hlutafélagaskrá sem aukið geti samlegðaráhrif og skilvirkni í opinberu eftirliti. 

5. Stefnumótun á sviði neytendamála

Árið 2022 var kynnt vinna um heildarstefnumótun á sviði neytendamála og unnið að henni. Felur m.a. í sér frumvarp til nýrra Markaðssetningarlaga, sem lagt verður fram á vorþingi 2023. Einnig endurskoðun á stofnanaumgjörð neytendamála, sbr. framangreint, og að styrkja Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa, sem var gert árið 2022 og 2023 með auknu framlagi til nefndarinnar. 

6. Endurgreiðslur vegna hljóðritunar

Á haustþingi 2022 var lagt fram frumvarp um áframhaldandi stuðning og endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist. Markmið laga nr. 110/2016 um endurgreiðslur vegna hljóðritunar er að efla tónlistariðnað á Íslandi með því að veita útgefendum hljóðrita rétt til endurgreiðslu hluta kostnaðar sem fellur til við hljóðritun hér á landi, sambærilegan við þær endurgreiðslur sem kvikmyndagerð nýtur. Frumvarpið var afgreitt og tók gildi um áramót.   

7. Afgreidd frumvörp á sviði viðskiptamála 2022

Á haustþingi 2022 voru lögð fram og samþykkt frumvörp til einföldunar og aukinnar skilvirkni á sviði félagaréttar og almennra viðskiptamála. Annars vegar frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga (hluthafafundir o.fl.). Og hins vegar frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019 (skipti eða slit tiltekinna skráningarskyldra aðila). 

8. Ferðamálastefna 2030 og aðgerðaráætlun

Árið 2022 hófst vinna við ferðamálastefnu til ársins 2030 og aðgerðaráætlun hennar. Búið er að uppfæra „stefnuramma“ ferðaþjónustu sem unninn var 2019. Leggur hann grunn að ferðamálastefnunni og þeim aðgerðum sem ýta þarf úr vör til að ná markmiðum ferðamálastefnu og framtíðarsýn. Unnið verður að gerð aðgerðaráætlunar með atvinnugreininni í nokkrum undirhópum og stefnan er að leggja fram á haustþingi 2023 tillögu til þingsályktunar um ferðamálastefnu til 2030 og aðgerðaráætlun. 

9. Annað

Auk framangreinds má nefna eftirfarandi stærri verkefni sem hófust 2022 og unnin verða á árinu 2023: Heildarlöggjöf um rýni erlendra fjárfestinga. Frumvarp til laga um rafrænar skuldaviðurkenningar. Frumvarp um breytingar á lögum um sölu fasteigna og skipa (ástandsskýrslur fasteigna). Starfshópur er að störfum um öll þessi þingmál. 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta