Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Til hamingju með daginn!

Við minnumst í dag fæðingardags hins merka skálds og vísindamanns Jónasar Hallgrímssonar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, undir forystu Björns Bjarnasonar fv. menntamálaráðherra, hafði frumkvæði að því að gera fæðingardag Jónasar að degi íslenskrar tungu árið 1996. Allar götur síðan hafa skólar, stofnanir, fjölmiðlar og almenningur beint athygli að tungumálinu okkar á þessum degi, gildi þess fyrir menntun, menningu og þjóðarvitund. Kveðskapur Jónasar hefur fært þjóðinni margar gleði- og lærdómsstundir og hefur nýyrðasmíð hans verið okkur til fyrirmyndar og eftirbreytni.

Þjóð- og frelsisskáldið Jónas Hallgrímsson er í sérstöku dálæti hjá mér. Jónas lagði ríka áherslu á að rækta málið í orðsins fyllstu merkingu þess, ásamt því að mennta þjóðina. Hans hugsjón var að íslenskan væri notuð alls staðar í samfélaginu; í leik og starfi, námi og vísindum, skáldskap, bókmenntum og öðrum listum. Þess vegna stundaði hann nýyrðasmíð af kappi og þýddi erlent efni sem hann taldi eiga erindi við þjóðina. Þjóðin stendur í mikilli þakkarskuld við þjóðskáldið og mikilvægt að halda hans vegferð áfram.

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld lagt ríka áherslu á tungumálið okkar. Árið 2019 ályktaði Alþingi að efla skyldi íslensku sem opinbert mál. Aðgerðaáætlun til þriggja ára var samþykkt, þar sem meginmarkmiðin voru þrjú; að íslenska væri notuð á öllum sviðum samfélagsins, að íslenskukennsla yrði efld á öllum skólastigum og að framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi væri tryggð. Stór hluti aðgerðaáætlunarinnar er kominn til framkvæmda. Stuðningur við bókaútgáfu og fjölmiðla er orðinn að veruleika og í kjölfarið hafa barna- og ungmenntabókmenntir blómstrað. Útgáfa hefur aukist, sem hefur aukið aðgengi barna að fjölbreyttu les- og menningarefni á íslensku. Stuðningur við fjölmiðla treystir rekstrargrundvöll þeirra sem miðla til okkar umfjöllun um málefni líðandi stundar, en slíkt er lykilatriði fyrir málvitund þjóðarinnar. Þá hefur máltækniáætlun stjórnvalda verið hrint í framkvæmd, svo tölvur og snjalltæki kunni íslenskt rit- og talmál. Orðasöfn, málfarsbankar, beygingarlýsingar og hljóðupptökur í þúsundavís eru forritaðar inn í stýrikerfi og árangurinn hingað til lofar góðu. Dæmi um hann má sjá á vefsíðunni almannaromur.is, sem ég hvet alla til að skoða.

Í fyrstu innsetningarræðu Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta og handhafa verðlauna Jónasar Hallgrímssonar, fjallaði hún um þýðingu íslenskrar tungu fyrir þjóðina. „Tungan geymir sjóð minninganna, hún ljær okkur orðin um vonir okkar og drauma. Hún er hið raunverulega sameiningartákn okkar og sameiningarafl.“ Þessi orð Vigdísar eru jafn sönn í dag og þau voru fyrir 41 ári. Til hamingju með daginn.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta