Hinar gjöfulu greinar
Það var hátíðleg stund á Alþingi í vikunni þegar fyrsta stefnuræða kjörtímabilsins var flutt á fullveldisdegi okkar Íslendinga hinn 1. desember. Stefnuræðan markar ávallt ákveðin tímamót sem gefa okkur kjörnum fulltrúum tækifæri til þess að líta yfir farinn veg og horfa til framtíðar. Undanfarin fjögur ár hefur margt áunnist á fjölmörgum sviðum samfélagsins og boðar nýr stjórnarsáttmáli áframhaldandi framfarir.
Gert hærra undir höfði
Liður í þeim breytingum sem kynntar hafa verið er hið nýja ráðuneyti ferða-, menningar- og viðskiptamála sem undirrituð mun fara fyrir. Breytingarnar eru tímabærar enda eru tugþúsundir sem starfa við menningu, skapandi greinar og ferðaþjónustu sem fléttast saman með ýmsu móti, auka aðdráttarafl Íslands og skapa gríðarleg verðmæti fyrir þjóðarbúið. Greinarnar eru ekki síður mikilvægar til þess að skapa Íslandi ákveðinn sess í samfélagi þjóðanna með hinu mjúka valdi og jákvæðum hughrifum sem þeim fylgja. Öflug menning og ferðaþjónusta eru einnig mikilvægur hluti samfélaganna hringinn í kringum landið og hafa á undanförnum árum gætt ýmis svæði nýju lífi.
Áframhaldandi menningarsókn
Á síðasta kjörtímabili var grunnur menningar styrktur verulega. Þannig hefur nýtt stuðningskerfi við bókaútgáfu skilað 36% aukningu í útgefnum bókum, starfslaunum var fjölgað, fyrstu sviðslistalögin sett, hópum listamanna tryggðir kjarasamningar, listmenntun efld, ný menningarhús fjármögnuð, nýjar kvikmynda- og bókamenntastefnur settar fram ásamt aðgerðaáætlun í menningarmálum svo að fá dæmi séu tekin. Byggt verður á þessum góða grunni næstu fjögur ár og strax á næsta ári verður rúmum milljarði varið í nýja kvikmyndastefnu og til aukinna endurgreiðslna í kvikmyndagerð, nýjar myndlistar- og tónlistastefnur kláraðar og ný Sviðslistamiðstöð hefja starfsemi svo stiklað sé á stóru.
Ferðaþjónusta á heimsmælikvarða
Ferðaþjónustan verður áfram stór þáttur í íslensku efnahagslífi og er mikilvægt að hún fái tækifæri til uppbyggingar eftir áföll heimsfaraldursins. Lögð verður áhersla á að ferðaþjónusta á Íslandi sé arðsöm og samkeppnishæf atvinnugrein í sátt við náttúru og íslenska menningu. Við viljum að Ísland sé í fararbroddi í sjálfbærri þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu. Á kjörtímabilinu verður áfram unnið að uppbyggingu innviða í takt við fjölgun ferðamanna, stefnu í ferðaþjónustu til 2030 sem mótuð var á síðasta kjörtímabili í góðri samvinnu hagaðila verður fylgt eftir ásamt heildstæðri aðgerðaáætlun.
Framtíðin er björt
Fullt tilefni er til þess að líta björtum augum til framtíðar og er ég full tilhlökkunar að takast á við ný verkefni. Ég heiti því að leggja mig alla fram í þágu minna málaflokka – hinna gjöfulu greina.
Höfundur er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu