Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Bráðum kemur betri tíð!

Það er tilefni til bjartsýni. Það er farið að hilla undir lok heimsfaraldursins eins og við höfum þekkt hann undanfarin tvö ár með tilheyrandi áhrifum á daglegt líf okkar. Þessi tími er fordæmalaus. Það sem stendur þó upp úr er óneitanlega það hversu vel íslensku samfélagi hefur gengið að takast á við þær fjölmörgu áskoranir sem fylgt hafa faraldrinum. Strax í upphafi faraldurs ákvað ríkisstjórnin að beita ríkisfjármálunum af krafti til þess að tryggja öfluga viðspyrnu samfélagsins eins og þurfa þykir hverju sinni – með svokallaðri efnahagslegri loftbrú. Loftbrúin er stór, en þannig nemur heildarumfang efnahagsráðstafana árin 2020 og 2021 um 215 milljörðum króna. Undanfarna daga hafa stjórnvöld kynnt sínar nýjustu og vonandi síðustu aðgerðir í þessum anda, sem er ætlað að styðja við samfélagið í kjölfar áhrifa ómíkron-afbrigðisins.

 

 

Staðan á Íslandi og á heimsvísu

Aðgerðirnar hafa skipt miklu máli. Efnahagsbatinn á Íslandi hefur verið sterkur og gerir Seðlabankinn ráð fyrir 5,1% hagvexti á árinu. Störfum hefur fjölgað hratt og atvinnuleysi er að verða svipað og það var fyrir heimsfaraldurinn. Hins vegar hefur vöxtur kortaveltu dregist hratt saman í upphafi árs sökum fjölgunar smita í samfélaginu. Velta bæði íslenskra og erlendra korta dróst skyndilega saman fyrstu 10 daga mánaðarins. Heildarkortavelta er nú 4% minni en 2019. Landsmenn hafa dregið sig til hlés vegna bylgju ómíkron-afbrigðisins. Því er mikilvægt að framlengja efnahagsaðgerðir og beina þeim sérstaklega í átt að þeim geirum sem hafa orðið verst úti í farsóttinni. Það sama má segja um hagvaxtarhorfur á heimsvísu en þær hafa versnað á fyrsta ársfjórðungi og gerir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ráð fyrir 4,9% hagvexti árið 2022. Það eru einkum þrír þættir sem skýra versnandi horfur: væntanlegar vaxtahækkanir í Bandaríkjunum og minnkandi einkaneysla, þrálát verðbólga og viðkvæm staða fasteignamarkaðarins í Kína.

 

 

Viðspyrnu- og lokunarstyrkir framlengdir

Meðal þeirra aðgerða sem stjórnvöld kynntu í vikunni voru framlengingar almennra viðspyrnustyrkja til handa fyrirtækjum um fjóra mánuði – en áætlað umfang þeirra nemi um tveimur milljörðum króna. Nú þegar hafa 10 milljarðar króna verið greiddir út til um 1.800 rekstraraðila en um 400 umsóknir á eftir að afgreiða. Aukinheldur samþykkti ríkisstjórnin framlengingu lokunarstyrkja til þeirra sem hafa tímabundið þurft að loka starfsemi sinni vegna sóttvarnaráðstafana og orðið af verulegum tekjum vegna þess. Umfang aðgerðanna er mikið en um leið mikilvægt til þess að standa áfram með íslensku atvinnulífi á lokaspretti faraldursins. Styrkirnir gera rekstraraðila betur í stakk búna til þess að taka þátt af fullum krafti að nýju þegar samfélag án takmarkana tekur við og hjól hagkerfisins fara að snúast hraðar.

 

 

Veitingastaðir varðir

Rekstur margra veitingastaða hefur þyngst verulega vegna tekjusamdráttar í kjölfar sóttvarnaráðstafana umfram flestar atvinnugreinar, meðal annars vegna styttri afgreiðslutíma. Veitingastaðir eru mikilvægir samfélaginu sem við búum í og eru nauðsynlegir til að sinna þeim fjölda ferðamanna sem heimsækja Ísland. Því kynntu þau sérstaka styrki fyrir veitingastaði til þess að tryggja viðspyrnu þeirra að sóttvarnaráðstöfunum liðnum. Gert er ráð fyrir að einstakir rekstraraðilar geti fengið að hámarki 10-12 milljóna styrk á fjögurra mánaða tímabili til að mæta rekstrarkostnaði.

 

 

Staðið með menningunni

Stjórnvöld einsettu sér að standa með listum og menningu í gegnum heimsfaraldurinn en hann hefur haft afar mikil og neikvæð áhrif á verðmætasköpun í menningargeiranum, sérstaklega þeim greinum hans sem byggja tekjuöflun sína að mestu á viðburðahaldi. Þannig voru greiðslur til rétthafa í tónlist vegna tónleikahalds á árinu 2021 til að mynda 87% lægri en samsvarandi tekjur árið 2019. Þá hafa sjálfstæð leikhús og leikhópar farið verulega illa út úr faraldrinum vegna þeirra sóttvarnaaðgerða og lokana. Það var því ánægjulegt að kynna í vikunni 450 m.kr. viðspyrnuaðgerðir fyrir tónlist og sviðlistir. Miða þær að því að tryggja viðspyrnu í viðburðahaldi, efla frumsköpun og framleiðslu listamanna ásamt því að styðja við sókn á erlenda markaði. Við eigum listafólkinu okkar margt að þakka, meðal annars að stytta okkur stundirnar á tímum heimsfaraldurs með hæfileikum sínum. Það verður ánægjulegt að geta sótt viðburði þeirra að nýju með vinum og vandamönnum.

 

Flestir munu kveðja þær takmarkanir sem fylgt hafa veirunni með litlum söknuði og undirbúa sig að sama skapi undir betri tíð. Það styttist því í að hin fleygu orð Stuðmanna „bráðum kemur ekki betri tíð, því betri getur tíðin ekki orðið“ verði orð að sönnu á sama tíma og samfélagið allt mun lifna við af meiri krafti en við höfum áður kynnst.

Höfundur er ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta