Glæsilegur árangur
Um helgina lauk 72. alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín. Hátíðin er með þeim virtari í heimi kvikmyndanna en mikill heiður fylgir því að eiga þar tilnefnt verk. Óhætt er að segja að árangur Íslands á hátíðinni sé glæsilegur en listrænir stjórnendur hennar völdu fjórar íslenskar myndir í aðaldagskrá hátíðarinnar. Aldrei hafa jafn margar íslenskar myndir tekið þátt í dagskránni og átti Ísland flest framlög allra Norðurlanda í ár. Þannig fengu gestir hátíðarinnar að njóta kvikmyndanna Berdreymi og Against the Ice, stuttmyndarinnar Hreiðurs og sjónvarpsþáttanna Svörtu sanda við góðan orðstír.
Árangur þessi er enn ein staðfesting á þeim mikla krafti sem býr í íslenski kvikmyndmyndagerð. Ljóst er að slíkt gerist ekki að sjálfu sér. Allt það hæfileikaríka fólk sem starfar í kvikmyndagerð á Íslandi á miklar þakkir skildar fyrir frumsköpun sína, elju og dugnað við framleiðslu og miðlun verka sinna. Þá skiptir einnig miklu máli að því fagfólki og fyrirtækjum sem starfa í kvikmyndagerð sé sköpuð traust og samkeppnishæf umgjörð utan um störf sín.
Vatnaskil urðu í umhverfi kvikmyndagerða árið 1999 þegar að lög um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi voru samþykkt. Með þeim var rekstrarumhverfi kvikmyndageirans styrkt og samkeppnishæfni aukin til munar. Allar götur síðan hefur árangurinn birst okkur með skýrum hætti. Kvikmyndagerð hefur verið áberandi í íslensku menningar- og atvinnulífi og hefur velta greinarinnar þrefaldast undanfarinn áratug og nemur nú um 30 milljörðum króna á ársgrundvelli en vel á fjórða þúsund starfa við kvikmyndagerð.
Meðbyrinn er mikill og til að mynda vill sífellt fleira ungt fólk starfa við skapandi greinar, eins og kvikmyndagerðina. Starfsumhverfið er spennandi en óþarft er að telja upp öll þau stórverk sem tekin hafa verið upp á hér á landi með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á ferðaþjónustuna og ímynd landsins. Af ofangreindu má álykta að með aukinni fjárfestingu muni greinin geta skilað þjóðarbúinu talsvert meiri verðmætum en hún gerir nú. Með þetta í huga kynntu stjórnvöld nýja kvikmyndastefnu til ársins 2030 en hún var afrakstur góðrar samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs.
Stjórnvöld hafa einhent sér í að fylgja hinni nýju stefnu eftir af fullum krafti. Þannig voru til dæmis fjármunir strax tryggðir til þess að koma á laggirnar háskólanámi í kvikmyndagerð við Listaháskóla Íslands og á fjárlögum þessa árs má finna rúmlega 500 m.kr hækkun til kvikmyndamála – sem að stærstum hluta rennur til framleiðslu á kvikmynda- og sjónvarpsefni. Þá er vinna þegar hafin í nýju menningar- og viðskiptaráðuneyti sem miðar að því auka alþjóðlega samkeppnishæfni kvikmyndagerðar hér á landi með hærri endurgreiðslum til að laða að stór kvikmyndaverkefni til Íslands.
Ljóst er að árangur líkt og birtist okkur í Berlín hvetur okkur enn frekar til dáða við að stuðla að enn öflugra umhverfi kvikmyndagerðar hér á landi. Tækifærin eru mýmörg og þau ætlum við að grípa.
Höfundur er menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. febrúar 2022.