Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Áfram á vaktinni

Öllum takmörkunum hefur verið aflétt á Íslandi eftir tveggja ára baráttu við farsóttina illræmdu. Veröldin hefur þurft að takast á við margslungnar afleiðingar farsóttarinnar sem hafa birst með ýmsum hætti. Það tímabil sem nú sér fyrir endann á hefur reynst mikill prófsteinn á innviði fjölmargra ríkja. Þannig hefur reynt verulega á heilbrigðiskerfi, styrk hagstjórnar ríkja sem og alþjóðlega samvinnu.

 

Framkvæmd aðgerða og árangur Íslands

Á heimsvísu er hægt að fullyrða að einkar vel hafi tekist til við stjórn efnahagsmála en mannfall var mjög mismunandi eftir ríkjum heimsins. Hægt er að fullyrða að á Íslandi hafi tekist vel til við að verja líf og heilsu fólks en dánartíðni á hvern íbúa er sú lægsta í veröldinni. Allt það frábæra fagfólk sem staðið hefur vaktina í heilbrigðiskerfinu á miklar þakkir skildar fyrir framlag sitt í faraldrinum. Þá tókst okkur einnig að halda skólakerfinu gangandi í gegnum farsóttina og er það mikilli þrautseigju okkar skólafólks að þakka. Reglulega sýndi það mikla aðlögunarhæfni í skólum landsins til þess að glíma við breytilegar aðstæður sem takmarkanir tengdar faraldrinum leiddu af sér. Að sama skapi má segja að efnahagsaðgerðir séu vel heppnaðar. Landsframleiðsla hefur verið að sækja í sig veðrið og jókst um 4,1% á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs og er áætlað að hagvöxtur ársins 2021 verði um 5%. Atvinnuleysi hefur minnkað hratt og slakinn í þjóðarbúinu minnkar ört. Að sama skapi hefur verðbólga aukist í 6,2% í febrúar og hefur ekki verið hærri í tæpan áratug. Skýrist þessi mikla verðbólga að stórum hluta af mikilli hækkun húsnæðisverðs ásamt umfangsmiklum hækkunum alþjóðlegs hrávöruverðs og flutningskostnaðar. Afar brýnt er að ná tökum á verðbólgunni án þess þó að aðgerðirnar skaði efnahagsbatann. Það kann að vera að þessi háa verðbólga verði tímabundin, þar sem eftirspurn á heimsvísu mun minnka um leið og áhrif efnahagsaðgerðanna dvína. Það má einnig fastlega búast við því að óverjanleg innrás Rússlands inn í Úkraínu muni hafa áhrif á verðlagningu ýmissa vöruflokka sem og eftirspurn. Þannig má gera ráð fyrir að verðbólga aukist tímabundið vegna hærra olíuverðs og annarrar hrávöru.

 

Saman sem samfélag

Strax í upphafi faraldurs ákvað ríkisstjórnin að beita ríkisfjármálunum af krafti til þess að tryggja öfluga viðspyrnu samfélagsins eins og þurfa þykir hverju sinni – með svokallaðri efnahagslegri loftbrú. Sú brú var stór og er heildarumfang efnahagsráðstafana árin 2020 og 2021 um 215 milljarðar króna svo dæmi sé tekið. Lögð var áhersla á að koma til móts við fólk og fyrirtæki sem urðu illa fyrir barðinu á veirunni. Fyrir stjórnvöld var það sanngirnismál að beita ríkisfjármálunum með þeim hætti og tryggja að við færum saman sem samfélag í gegnum kófið.

 

Það sem Thatcher gerði

Fyrr í mánuðinum viðraði ég hugmyndir í þessum anda um aukna aðkomu bankanna að fjölskyldum og fyrirtækjum, sérstaklega í ferðaþjónustu, sem til að mynda vaxtahækkanir snerta með þyngri hætti en aðra. Til að ná slíkum markmiðum nefndi ég einnig í því samhengi svokallaðan hvalrekaskatt í anda Margrétar Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, á ofurhagnað bankanna sem nemur yfir 80 milljörðum króna árið 2022. Fór hægri konan Thatcher þessa leið árið 1981 þegar breskir bankar högnuðust verulega vegna hækkunar stýrivaxta þar í landi. Búast má við því að sama verði upp á teningnum í afkomu banka hér á landi þar sem vaxtamunur mun aukast í kjölfar hærri stýrivaxta. Undanfarið hefur margt fólk þurft að ráðast í dýrar fjárfestingar til að tryggja sér og sínum þak yfir höfuðið á fasteignamarkaði sem einkennist af miklum skorti á íbúðum vegna langvarandi lóðaskorts. Þennan hóp þarf að styðja við strax í upphafi þrenginga til að draga úr líkum á greiðsluvanda seinna meir. Þar skiptir samvinna stjórnvalda, fjármálafyrirtækja og fjölskyldna máli.

 

Landsvirkjun áfram í eigu okkar allra

Það hugarfar að við séum öll í þessu saman hefur reynst okkur vel í gegnum faraldurinn. Á sama tíma er ljóst að við blasa áskoranir í ríkisfjármálum til að vinda ofan af þeim halla sem myndast hefur vegna heimsfaraldurs og viðspyrnuaðgerða sem honum tengjast. Við ætlum okkur að vaxa út úr þeim halla með aukinni verðmætasköpun í samfélaginu. Þar munu stjórnvöld halda áfram að skapa einstaklingum og fyrirtækjum hagfellt og hvetjandi umhverfi til að sækja fram. Hugmyndir um að selja allt að 40% hlut almennings í Landsvirkjun eiga ekki að vera leiðin til að fjármagna ríkissjóð til skamms tíma og get ég slegið því föstu að slík sala mun aldrei eiga sér stað á meðan Framsókn á sæti í ríkisstjórn Íslands. Við viljum að Landsvirkjun verði áfram í eigu allra Íslendinga, sem burðarás fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Ég tel mjög breiða samfélagslega sátt ríkja um slíkt og það eigum við að virða.

 

Þrátt fyrir krefjandi tíma undanfarin ár vegna veirunnar og góðan árangur sem náðst hefur í gegnum þann tíma er mikilvægt að sofna ekki á verðinum. Við lifum enn á viðsjárverðum tímum vegna óafsakanlegrar innrásar Rússa í Úkraínu, sem hefur áhrif á stöðu mála hér í Evrópu. Við munum takast á við þær áskoranir af festu og með samvinnu til að tryggja að Ísland verði áfram í sterkri stöðu til framtíðar.

Höfundur er menningar-, ferða- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. febrúar 2022. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta