Hoppa yfir valmynd
02. mars 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Fjalir fullar af lífi

Það má reikna fastlega með að framlag lista og menningar til andlegrar og efnahagslegrar viðspyrnu þjóðarinnar verði þýðingarmikið nú þegar sóttvarnatakmörkunum hefur verið aflétt. Mannsandinn nærist meðal annars á menningu, að skemmta sér í góðra vina hópi, sækja tónleika, leiksýningar eða aðra menningarviðburði. Í gegnum faraldurinn einsettu stjórnvöld sér að styðja af miklum myndarskap við menningu og listir til að tryggja þeim kröftugri viðspyrnu að faraldri loknum.

Það er ánægjulegt að heyra fregnir af því að uppselt sé á fjölmargar sviðslistasýningar sem glæða fjalir leikhúsanna lífi að nýju við góðan orðstír. Okkur hefur tekist að endurheimta eðlilegt líf okkar með tilheyrandi framboði af úrvalssýningum þar sem allir geta fundið eitthvað fyrir sinn smekk.

Góður vitnisburður um þá miklu grósku sem á sér stað í sviðslistaheiminum er nýleg úthlutun úr Sviðslistasjóði. Í vikunni var tilkynnt um 160 milljóna kr. úthlutun úr sjóðnum til 23 atvinnusviðslistahópa leikárið 2022/23 sem fylgja 170 listamannalaunamánuðir. Tuttugu mánuðir voru veittir einstaklingum utan sviðslistahópa. Á vormánuðum verður einnig kynntur aukaumsóknarfrestur í Sviðslistasjóð og launasjóð sviðslistafólks vegna viðspyrnuaðgerða ríkisstjórnarinnar. Þá verða til úthlutunar 25 milljónir úr Sviðslistasjóði og 50 mánuðir úr launasjóði sviðslistafólks með áherslu á umsóknir frá ungu sviðslistafólki, 35 ára og yngra – sem er nýlunda.

Samhliða auknum fjármunum í sviðslistir hefur umgjörð þeirra einnig verið efld undanfarin ár. Árið 2019 voru fyrstu heildarlögin um sviðslistir sett hér á landi sem hafa það að markmiði búa leiklist, danslist, óperuflutningi, brúðuleik eða skyldri liststarfsemi hagstæð skilyrði. Á þeim grunni var meðal annars sviðslistaráð sett á laggirnar og fyrir skemmstu tók ný Sviðslistamiðstöð formlega til starfa – en sambærilegar miðstöðvar hafa lengi verið starfræktar fyrir aðrar listgreinar. Með Sviðslistamiðstöð skapast fleiri sóknarfæri fyrir sviðslistafólk innanlands sem utan, meðal annars með stuðningi í formi ráðgjafar, tengslamyndunar, kynningar og miðlunar. Samhliða þessu hafa fleiri hópum verið tryggðir kjarasamningar og vinna við þarfagreiningu vegna óperustarfsemi í landinu sem heldur áfram með það að markmiði að setja á laggirnar Þjóðaróperu.

Allt ofantalið eru atriði sem skipta máli í öflugu menningarlífi þjóðarinnar. Við getum verið ótrúlega stolt af þeirri miklu frumsköpun og framleiðslu á menningu sem okkar frábæra listafólk drífur áfram. Stjórnvöld munu halda áfram að skapa menningu í landinu góð skilyrði og styðja þannig við fjalir fullar af lífi.

 

Höfundur er menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. mars 2022

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta