Brauðkarfa Evrópu
Úkraína er gjöfult land og eitt mesta landbúnaðarsvæði veraldar. Innrás Rússa í Úkraínu hefur leitt af sér miklar hörmungar sem hafa birst okkur að undanförnu með áhrifum sem hríslast út um víða veröld. Daglegu lífi þessarar fjölmennu Evrópuþjóðar var á einni nóttu snúið á hvolf með þeim afleiðingum að milljónir hafa neyðst til að rífa sig upp með rótum og flýja heimili sín vegna árása Rússlandshers. Fjölskyldur hafa verið skildar í sundur á grimmilegan hátt, þegar synir og feður kveðja systur og mæður í þann mund er þeir grípa til vopna og verja heimaland sitt. Þúsundir hafa nú þegar látið lífið. Þetta er þyngra en tárum taki og sannkölluð veröld sem var.
Af þessu leiðir einnig að milljónir hafa misst lífsviðurværi sitt í þessu gjöfula landi. Úkraína hefur stundum verið nefnd brauðkarfa Evrópu vegna þess jarðvegurinn er einn sá frjósamasti í veröldinni, ríkur af gróðrarmold sem hentar fullkomlega til ýmiss konar ræktunar. Yfir 70% af landinu hentar vel til landbúnaðar, sem er stundaður á 32 milljónum hekturum lands. Þannig er Úkraína stærsti sólblóma og sólblómaolíuframleiðandi heims. Ásamt þessu er landið einn af stærstu framleiðendum á byggi, maís, rúg, kartöflum og hveiti sem að stórum hluta eru flutt út til landa Evrópusambandsins, Kína, Tyrklands, Indlands og Afríkulanda.
Ljóst er að stríð Rússa setur þessa mikilvægu viðskiptahagsmuni Úkraínu í uppnám með tilheyrandi áhrifum á íbúa landsins. Nýverið neyddust stjórnvöld í Úkraínu til að réttilega banna útflutning á matvælum frá landinu til þess að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar á átakatímum. Hin hagrænu áhrif stríðsátakanna eru mikill og teygja sig á heimsvísu, meðal annars hingað til lands.
Verð á hveiti hefur til að mynda hækkað um 26% og verð á korni hækkað um 7,5%. Þessar hækkanir eru miklar og til þess fallnar að auka verðbólgu í heiminum. Matarkarfan er að hækka og mun það leiða til þess að neysla eftir öðrum vörum mun minnka og hagvöxtur sömuleiðis.
Ísland er háð innflutningi á ofangreindum vörum, meðal annars frá Úkraínu. Það því ljóst að stríðsátökin munu hafa áhrif á verðþróun á Íslandi, að minnsta kosta tímabundið. Vísitala neysluverðs mældist í mánuðinum 6,2% og ræðst að mestum hluta af hækkun húsnæðisverðs og svo hrávöruverðs. Að mínu mati er afar brýnt að stjórnvöld geri allt sem í sínu valdi stendur til að leggjast á árarnar með Seðlabanka Íslands til að ná tökum á verðbólgunni. Ráðherranefnd um efnahagsmál fundaði með Seðlabanka Íslands í vikunni og eru allir lykilaðilar sem koma að hagstjórn lands á sömu blaðsíðu varðandi mikilvægi þess að verðbólgan hjaðni og ná niður langtímaverðbólguvæntingum. Við munum gera það sem þarf!
Stjórnvöld í Rússlandi bera sína ábyrgð á þessari stöðu, en óskiljanlegur og mannskæður stríðsrekstur þeirra hefur kynt undir verðbólgu í heiminum eins og rakið er að ofan. Íslensk stjórnvöld munu sem fyrr standa heilshugar með íbúum Úkraínu til að tryggja þeim frið og frelsi í eigin landi og styðja við þarlend stjórnvöld eftir fremsta megni á þeim erfiðu tímum sem nú eru.
Höfundur er viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu