Halldór Kiljan Laxness í 120 ár
120 ár eru frá því að Halldór Kiljan Laxness fæddist í Reykjavík 23. apríl árið 1902 og því fögnum við. Til að undirbúa þau tímamót las ég bók Halldórs Guðmundssonar: Halldór Laxness ævisaga. Þessi bók er stórvirki og fjallar um ævi skáldsins og menningar- og stjórnmálasögu Íslands, Evrópu og Bandaríkjanna á 20. öld. Bókin greinir frá bernsku Halldórs, námsárum, dvöl hans í Kaupmannahöfn, Taormínu, Hollywood, samskiptum hans við helstu lista- og stjórnmálamenn þjóðarinnar, verkum hans og svo hvernig átakanleg heilabilunin náði undirtökunum í lokin. Saga Halldórs er aldarspegill síðustu aldar.
Skáldið
Fyrsta skáldsaga Halldórs, Barn náttúrunnar, kom út haustið 1919 þegar höfundurinn var aðeins 17 ára gamall! Sagan vakti athygli og í Alþýðublaðinu sagði m.a.: „Og hver veit nema að Halldór frá Laxnesi eigi eftir að verða óskabarn íslensku þjóðarinnar.“ Upp frá þessu sendi Halldór frá sér bók nánast á hverju ári í yfir sex áratugi. Afköst hans voru mikill og skrifaði hann fjölda skáldsagna, leikrita, kvæða, smásagnasafna og endurminningabóka og gaf auk þess út mörg greinasöfn og ritgerðir. Kunnustu bókmenntaverk Halldórs eru skáldsögurnar; Salka Valka, Sjálfstætt fólk, Heimsljós, Íslandsklukkan og Gerpla, og raunar mætti telja upp mun fleiri. Árið 1955 hlaut Halldór Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, fyrstur Íslendinga, fyrir sagnaskáldskap sinn sem endurnýjað hafði stórbrotna íslenska frásagnarlist. Verðlaunin vöktu mikla athygli á verkum Halldórs erlendis og hafa bækur hans komið út á yfir fjörutíu tungumálum um víða veröld og útgáfurnar eru yfir 500 talsins!
Persónan Halldór
Halldór var umdeildur vegna skrifa sinna og skoðana. Fylgispekt hans við Sovétríkin og þá hugmyndafræði er réttilega mest gagnrýnd og eldist einkar illa. Í Skáldatíma, sem kom út árið 1963, gerir Halldór tilraun til að gera þetta tímabil upp. Ýmsum fylgdarmönnum hans mislíkaði mjög hvernig hann skrifaði um Sovétríkin en öðrum að hann hefði getað gengið lengra. Það mál verður ekki krufið hér enda erum við að fagna afrekum Nóbelsskáldsins. Að mínu mati eru það ekki aðeins skáldverk Halldórs sem eru aldarspegill íslensku þjóðarinnar heldur líka ævi hans sjálfs. Hann fæðist á tíma þegar Íslendingar eru fátæk þjóð og þegar hann kveður er heimalandið orðið eitt farsælasta ríki veraldarinnar. Umbreytingarnar eru gríðarlegar á þessu stuttu tímabili og engan skyldi undra að mikil hugmyndafræðilega átök hafi átt sér stað á Íslandi. Eitt af því sem hefur heillað mig við ævi Halldórs er hversu mikið hugrekki hann sýndi við að tileinka sér stefnur og strauma erlendis. Ungur sigldi hann til Kaupmannahafnar, dvaldi á Ítalíu, hann fór til Hollywood til að kynna sér allt um hinn vaxandi kvikmyndaiðnað, var umhverfis- og húsafriðunarsinni. Hann var á undan sinni samtíð og án efa hefur þetta gert Halldór að þeim heimsborgara sem hann var en líka orðið til þess að hann sá land sitt og sögu í öðru ljósi.
Stafsetningastríð
Meðan seinni heimsstyrjöldin geisaði háðu Íslendingar stríð um stafsetningu. Frétt birtist í Vísi í október 1941 um væntanlegar bækur frá Víkingsprenti, þar sem áformað var að gefa Íslendingasögurnar út í nýrri útgáfu, þar sem textinn yrði með nútímastafsetningu og ættartölulanglokum yrði sleppt. Tilkynnt var að Laxdæla yrði fyrsta bókin í flokknum. Að þessari útgáfu stóðu þeir Ragnar Jónsson – kenndur við Smára, Stefán Ögmundsson og Halldór K. Laxness. Upp hófst hið svokallað stafsetningastríð. Jónas Jónsson frá Hriflu var alfarið á móti þessari útgáfu en hafði afrekað það að gjörbylta menntakerfinu, stofna Ríkisútvarpið og leggja drög að stofnun Þjóðleikhússins. Jónas taldi að Alþingi yrði að koma í veg fyrir að dýrgripir þjóðarinnar, fornritin, væru dregin niður í svaðið, eins og hann orðaði það á þingi. Miklar deilur ríktu um útgáfuna í hartnær tvö ár, höfðað var mál gegn útgáfunni og lyktaði með því að Hæstiréttur batt enda á stafsetningarstríðið í júní 1943 þegar þremenningarnir voru sýknaðir, þar sem dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að fornritalögin brytu í bága við stjórnarskrána. Vegna þessara deilna endurnýjaði Halldór kynni sín við fornbókmenntirnar enn frekar næstu árin og afrakstur þess, Gerpla, kom út árið 1952.
Ný sókn fyrir fornbókmenntir
En af hverju er ég að rifja upp þessa sögu og hvers vegna þykir mér hún merkileg? Sagan er merkileg vegna þess að þarna voru í stafni helstu forystumenn þjóðarinnar og höfðu sterka skoðun á tungumálinu og menningararfinum. Ég tel að okkar kynslóð skuldi fyrri kynslóðum að við gerum fornbókmenntunum betri skil og færum þær nær unga fólkinu. Ég tel að það eigi að endurútgefa Íslendingasögurnar með það að markmiði að einfalda aðgengi að þeim. Sögurnar eru okkar arfleifð og eru stórskemmtilegar. Hins vegar er það því miður svo að unga kynslóðin á sífellt erfiðara með nálgast inntakið. Eitt af því sem ég hef dáðst að undanfarin ár er endursögn Kristjáns Guðmundssonar á Grettis sögu og myndlýsingar Margrétar Einarsdóttur Laxness. Það sama má segja um endursögn Brynhildar Þórarinsdóttur á Egils sögu, Njálu og Laxdælu, endursögn Einars Kárasonar á sögu Grettis og Emblu Ýrar Bárudóttur á sögum úr Njálu. Eins hefur Þórarinn Eldjárn endursamið Hávamál Snorra-Eddu fyrir börn. Ég hvet höfunda okkar eindregið til að halda áfram á þessari braut og gera miklu meira af því að nútímavæða fornbókmenntirnar okkar fyrir kynslóðir nýrra lesenda. Hollywood hefur gert góða hluti með Marvel-myndunum sínum um Þór! Ég fullyrði að ein besta afmælisgjöf til nóbelskáldsins væri að við gerðum átak í þessa veru og tryggðum með því enn betra aðgengi barna að menningararfinum. Öll börn ættu að þekkja Freyju, Þór og Óðin!
Að mínu mati stendur þó eitt stendur upp úr þegar ævi Halldórs er skoðuð; það atlæti og ást sem hann hlaut sem ungur drengur frá foreldrum sínum og ömmu. Þau áttuðu sig fljótt á því að hann var hæfileikaríkur og þau gerðu allt sem í þeirra valdi stóð, þó efnalítil, til að stuðla að framgöngu hans og að Halldór gæti látið drauma sína rætast – sem um leið urðu draumar þjóðar.
Höfundur er viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.