Bréf frá Íslandi
Eftir Lilju Dögg Alfreðsdóttur og Pär Ahlberger
Um þessar mundir er þess minnst að 250 ár eru liðin frá merkum vísindaleiðangri sem Englendingurinn sir Joseph Banks leiddi til Íslands árið 1772. Með honum í för og einna fremstur þeirra vísindamanna sem þátt tóku í leiðangrinum var hinn sænski Daniel Solander, náttúrufræðingur og fyrrverandi nemandi Linnæusar við Uppsalaháskóla.
Daniel Solander fæddist árið 1733 í Norðurbotni og það kom brátt í ljós að hann var góðum hæfileikum búinn. Solander er lýst af samtímafólki sem vinsælum og heillandi manni sem klæddist iðulega litríkum fatnaði. Að loknu námi í Uppsölum leiddi vísindastarfið Solander til Lundúna þar sem hann hóf störf við British Museum sem sérfræðingur í flokkunarkerfi Linnæusar. Í kjölfarið varð hann jafnframt samstarfsmaður Josephs Banks, hins fræga enska náttúrufræðings. Áður en af Íslandsförinni varð tóku þeir Banks meðal annars þátt í miklum landkönnunarleiðangri um Kyrrahafið með Cook kafteini og varð Solander þá fyrstur Svía til að sigla umhverfis hnöttinn.
Sir Lawrence, skipið sem bar leiðangursmenn frá Bretlandi, sigldi þann 29. ágúst inn Hafnarfjörð. Solander hélt rakleiðis til Bessastaða á fund stiftamtmanns og amtmanns og hétu embættismennirnir fullum stuðningi við leiðangurinn. Sir Lawrence fékk m.a. leyfi til að kasta akkerum í Hafnarfirði, en til þess þurfti leyfi vegna einokunarverslunar Dana sem enn var við lýði.
Ferðalöngunum var tekið með kostum og kynjum hér á landi. Þeir nutu félagsskapar frammámanna í samfélaginu, stunduðu náttúrurannsóknir, söfnuðu ýmsum ritheimildum og skrásettu jafnframt líf og aðbúnað í landinu í máli og myndum. Einn af hápunktum leiðangursins var ferð um Suðurland þar sem m.a. var gengið á Heklu.
Hinn 9. október 1772 sigldi Sir Lawrence aftur frá Hafnarfirði og áleiðis til Bretlands með gögn um náttúru, samfélag og sögu. Þessi tiltölulega stutta heimsókn til Íslands markaði djúp spor.
Með í leiðangrinum til Íslands var Uno von Troil sem síðar varð erkibiskup í Uppsölum. Hann skrifaði bók um ferð þessa, Bref rörande en resa till Island eða Bréf frá Íslandi, sem var gefin út árið 1777. Bók Uno von Troil var næstu ár á eftir þýdd á þýsku, ensku, frönsku og hollensku. Bókin seldist vel og var prentuð í nokkrum upplögum. Lýsing hans á Íslandi hafði mikil áhrif í Evrópu 18. aldar og vakti áhuga nágranna okkar á landi og þjóð.
Áhrifa leiðangursins varð ekki síst vart í Svíþjóð, þar sem Bréf frá Íslandi átti þátt í að skapa tilfinningu fyrir djúpum tengslum þjóðanna, í gegnum tungumál, sögu og menningu. Sambland af sögulegri tengingu Íslands og Svíþjóðar, forvitni og félagslyndum eiginleikum Solanders og von Troils ásamt einstakri þekkingu þeirra skipti sköpum fyrir leiðangurinn. Mennirnir tveir mynduðu sterk tengsl við íslensku gestgjafana í gegnum sameiginlegan bakgrunn í norrænu tungumáli, menningu og sögu.
Í samstarfi við menningar- og viðskiptaráðuneytið mun sænska sendiráðið standa fyrir mikilli dagskrá tengdri rannsóknarferð Daniels Solanders sem mun standa yfir í tvö ár með þátttöku um 30 íslenskra samstarfsaðila. Þema verkefnisins er Solander 250 – Bréf frá Íslandi. Tímamótaárið einkennist af nánu samtali lista og vísinda. Það er þvermenningarlegt og opnar á samtal milli norðurskauts- og Kyrrahafssvæðisins og innan Norðurlanda. Tímamótaárið lítur jafnframt fram á við, inn í sameiginlega framtíð okkar. Verkefnið snýst um samtal vinaþjóðanna Íslendinga og Svía um sameiginlega sögu, sem og loftslag, náttúru og menningu í fortíð, nútíð og framtíð.
Einstök listasýning er hornsteinn tímamótaársins. Í samstarfi við Íslenska grafík hefur tíu íslenskum listamönnum verið boðið að hugleiða Ísland, Solander og leiðangurinn árið 1772. Listamennirnir sem taka þátt í því eru Anna Líndal, Aðalheiður Valgeirsdóttir, Daði Guðbjörnsson, Gíslína Dögg Bjarkadóttir, Guðmundur Ármann Sigurjónsson, Iréne Jensen, Laura Valentino, Soffía Sæmundsdóttir, Valgerður Björnsdóttir og Viktor Hannesson. Tíu grafíklistaverk þeirra mynda sýningu sem heitir Solander 250: Bréf frá Íslandi. Sýningin verður formlega vígð í Hafnarfirði í ágúst.
Sýning þessi verður sýnd á ellefu stöðum víðsvegar um Ísland ásamt listasýningunni Paradise Lost – Daniel Solander's Legacy og inniheldur verk eftir tíu listamenn frá Kyrrahafssvæðinu sem áður hafa verið sýnd á Nýja-Sjálandi, í Ástralíu og Svíþjóð. Þetta er einstakur viðburður, samtal í gegnum list milli norðurslóða og Kyrrahafs, hér á Íslandi. Vonast er einnig til þess að þetta veki áhuga meðal hinna fjölmörgu erlendu gesta Íslands. Auk þess er ætlunin, með öllu verkefninu árin 2022 og 2023, að vekja áhuga og forvitni barna á náttúruvísindum og stórkostlegri flóru Íslands. Við sendum vissulega bréf frá Íslandi með þönkum um listir og vísindi, um menningartengsl og um sameiginlega framtíð okkar!
Lilja Dögg er menningar- og viðskiptaráðherra og Pär Ahlberger sendiherra Svíþjóðar á Íslandi.