Hoppa yfir valmynd
17. júní 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Samvinna er hugmyndafræði

Eftir Sigurð Inga Jóhannsson, Lilju Dögg Alfreðsdóttur og Ásmund Einar Daðason

 

Á þessum hátíðardegi fögnum við því að 78 ár eru liðin frá ákvörðun Alþingis um að stofna lýðveldið Ísland. Hver þjóðhátíðardagur markar tímamót í sögu landsins og veitir okkur tækifæri til þess að líta yfir farinn veg og horfa til framtíðar. Saga íslenska lýðveldisins er saga framfara. Allar götur frá stofnun þess hafa lífskjör aukist verulega og þjóðartekjur á hvern íbúa eru með þeim mestu í veröldinni. Staða Íslands er sterk í sögu- og alþjóðlegu samhengi, þegar flestir velsældarmælikvarðar eru kannaðir. Slíkur árangur er ekki sjálfgefinn, heldur liggur þrotlaus vinna kynslóðanna sem byggt hefur landið honum að baki.

 

Manngildi ofar auðgildi

Frjálsar kosningar eru hornsteinn lýðræðissamfélags. Virk lýðræðisþátttaka er eitt af því sem hefur einkennt íslenskt samfélag. Margir stíga sín fyrstu skref í félagsstörfum með þátttöku í starfi stjórnmálahreyfinga með það að leiðarljósi að hafa jákvæð áhrif á samfélagið sitt. Í meira en heila öld hefur Framsókn fylgt þjóðinni og verið farvegur fyrir fólk til þess að taka þátt í stjórnmálastarfi. Sýn Framsóknar grundvallast á samvinnuhugsjóninni; að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman og aukið styrk sinn. Samvinna byggist ekki aðeins á trausti milli aðila heldur einnig á góðum og málefnalegum umræðum sem leiðar til farsælla niðurstaða.

Við trúum því að jöfn tækifæri séu eina leiðin til tryggja sanngirni í samfélaginu. Brýnt er að dreifa valdi, án tillits til auðs, stéttar, kyns eða annarra breyta. Manngildi ofar auðgildi. Allar rannsóknir sýna að öflugt menntakerfi tryggi mestan jöfnuð og það viljum við tryggja.

 

Rætur samvinnuhugsjónarinnar og frelsið

Fyrstu regnhlífar samvinnuhugsjónarinnar, samvinnufélögin, litu dagsins ljós á Bretlandi. Það var hópur vefara árið 1844 í bænum Rochdale á Norður-Englandi sem kom á laggirnar fyrsta samvinnufélaginu. Vefararnir stóðu frammi fyrir lélegum starfsaðstæðum, bágum kjörum og háu hráefnisverði. Í stað þess að starfa hver í sínu horni formgerðu þeir samvinnu sína með samvinnufélagi, samnýttu framleiðsluþætti og juku þannig slagkraft sinn til þess til þess að stunda viðskipti. Þeir opnuðu verslun, eða kaupfélag, og deildu hlutdeild í velgengni verslunarinnar með viðskiptavinum sínum sem meðlimir í félaginu. Viðskiptavinirnir öðluðust jafnan atkvæðarétt í félaginu og áttu þannig sameiginlegra hagsmuna að gæta. Samvinnufélög urðu að samhjálp til sjálfsbjargar og höfðu almannaþjónustu að leiðarljósi með áherslu á nærumhverfið. Fyrstu kaupfélögin voru hluti af þjóðfrelsisbaráttu okkar Íslendinga. Bændur í Þingeyjarsýslu voru vel lesnir í evrópskum frelsisfræðum og árið 1882 stofnuðu þeir fyrsta kaupfélagið til að ráða sjálfir verslun og viðskipum. Þar voru allir jafnir og sameinaði þetta nýinnflutta form sjálfstæði, framfaravilja og lýðræði. Í kjölfarið óx samvinnuhreyfingunni fiskur um hrygg hérlendis, samvinnufélögum fjölgaði ört um allt land og urðu þau fyrstu keppinautar erlendra kaupmanna hér á landi.

 

Kröfur tíðarandans

Þrátt fyrir áskoranir og öldudali, sem samvinnuhreyfingin hérlendis gekk í gegnum á árum áður, hefur þörfin fyrir sterka samvinnuhugsjón sjaldan verið jafn rík og nú. Fyrirmyndarsamvinnufélög eru rekin hér á landi og samvinnuhreyfingin hefur haldið áfram að dafna erlendis, til að mynda í Evrópu og vestanhafs. Þannig eru Bandaríkin merkilegur jarðvegur nýsköpunar í samvinnustarfi. Jafnvel fyrirtæki í tæknigreinum, hugbúnaði og fjölmiðlun sækja fyrirmyndir í kaupfélög og gera þannig samvinnu og lýðræði að hornsteinum. Ungar og upplýstar kynslóðir okkar tíma sækja innblástur í samvinnuformið og álíta það spennandi valkost til að takast á við áskoranir samtímas. Klasastarfsemi og samvinnuhús af ýmsu tagi eru dæmi um það. Krafa tímans er enn meira sjálfstæði, sterkari réttur almennings og samfélags, framfarir á öllum sviðum með lýðræði og jafnrétti að leiðarljósi – rétt eins og í Þingeyjarsýslu forðum daga.

 

Fjölbreyttir farvegir til árangurs

Með ofangreint í huga mun viðskiptaráðherra meðal annars hrinda af stað endurskoðun á lögum um samvinnufélög á kjörtímabilinu til að auðvelda fólki við að vinna að sameiginlegum hugarefnum sínum. Samvinnufélagsformið getur verið hentugur farvegur fyrir fólk til þess að takast á við áskoranir og bæta samfélagið. Heimurinn stendur frammi fyrir fjölmörgum úrlausnarefnum sem ekki verða leidd til lykta nema með samvinnu, hvort sem um er að ræða í umhverfismálum, menntamálum, alþjóðaviðskiptum eða öðru. Stjórnvöld eiga að tryggja eldhugum og hugsjónafólki fjölbreytta farvegi til þess að takast sameiginlega á við slík útlausnarefni.

 

Samfélag er samvinnuverkefni

Tæpum 106 árum frá því að Framsóknarflokkurinn var stofnaður, höldum við enn tryggð við þá samvinnuhugsjón sem flokkurinn spratt upp úr. Það er ekki sjálfsagt fyrir stjórnmálaafl að ná svo háum aldri. Framsókn er fjöldahreyfing og 13.000 félagar í flokknum, hringinn í kringum landið, eiga það sameiginlegt að vilja vinna samvinnuhugsjóninni brautargengi og stuðla að uppbyggilegum stjórnmálum út frá miðjunni. Sem miðjuflokkur leggur Framsókn áherslu á praktískar og öfgalausar lausnir sem eru til þess fallnar að bæta líf fólks ásamt því að geta unnið með ólíkum stjórnmálaflokkum til þess að bæta samfélagið ásamt því að sýna sterka forystu í ríkisstjórnarsamstarfi. Það hefur flokkurinn margoft gert með góðum árangri; að brúa bilið milli ólíkra sjónarmiða við aðra flokka til þess að ná árangri fyrir land og þjóð. Við í Framsókn segjum gjarnan að samfélag sé samvinnuverkefni og í því er fólginn mikill sannleikur.

 

Vilji fólksins

Stjórnmálaflokkur þarf á hverjum tíma að geta rýnt sjálfan sig með gagnrýnum hætti, aðlagast nýjum áskorunum samtímans, hlustað á grasrót sína og virt vilja félagsmanna. Það sama á við um þjóðfélag sem vill ná langt. Sú staðreynd að við getum fjölmennt á samkomur víða um land til þess að fagna þessum merka áfanga, sem fullveldið er í sögu þjóðarinnar, er ekki sjálfgefið. Sú elja og þrautseigja sem forfeður okkar sýndu í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar lagði grunninn að þeim stað sem við erum á í dag. Lýðveldið Ísland á sér bjarta framtíð og Framsókn mun halda áfram að vinna í þágu samfélagsins með hugmyndafræði samvinnunnar að leiðarljósi. Þau tækifæri sem eru fyrir hendi til þess að sækja fram fyrir samfélagið eru fjölmörg. Það er okkar sameiginlega verkefni sem þjóðar að grípa þau og tryggja að Ísland verði áfram í fremstu röð meðal þjóða heims og fagni fullveldi sínu um ókomna tíð. Í þessum efnum geymir saga samvinnustarfs á Íslandi og víðar um veröldina dýrmæta lærdóma – fjársjóð á vegferð okkar til framtíðar. Við óskum landsmönnum öllum gleðilegrar þjóðhátíðar.

Sigurður Ingi er innviðaráðherra og formaður Framsóknar. Lilja Dögg er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar. Ásmundur Einar er mennta- og barnamálaráðherra og ritari Framsóknar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta