Það sem Hugin og Munin yfirsást á flugi sínu
Lilja Alfreðsdóttir fer yfir aukningu í framlögum til stóru málaflokka ríkisins frá 2017-2021.
Ég hef gaman að lestri Viðskiptablaðsins en blaðið gegnir mikilvægum hlutverki á íslenskum fjölmiðlamarkaði með miðlun fjölbreyttra frétta af viðskipta- og efnahagsmálum. Nýverið birti ritstjórn blaðsins færslu undir skoðanadálknum Huginn og Muninn undir heitinu ,,Framsóknarstefna 21. aldarinnar‘‘. Þar var fundið að gagnrýni minni á háar arðgreiðslur stórfyrirtækja á sama tíma og ég tel mikilvægt að allir leggist á árarnar til þess að halda aftur af verðhækkunum til að ná tökum á verðbólgunni sem hefur hækkað skart á undanförnum mánuðum.
Það sem vakti þó sérstaka athygli mína í færslu blaðsins var fullyrðingin um að undirrituð ,,væri rausnarleg á útdeilingu skattfjár til þeirra málaflokka sem heyra undir ráðuneyti hennar‘‘. Þetta er áhugaverð staðhæfing sem vert er að ræða frekar. Þegar raunaukning rammasettra útgjalda ríkisins er skoðuð frá 2017-2021 eftir málaflokkum kemur í ljós að framlög til þeirra málaflokka sem ég fór fyrir á tímabilinu, mennta- og menningarmál, jukust um 10%. En það er minnsta hlutfallslega aukningin til stóru málaflokka ríkisins eins og hægt er að sjá á meðfylgjandi mynd.
Þrátt fyrir þessa staðreynd er ég einstaklega stolt af þeim árangri sem náðist fyrir þá fjármuni sem úthlutað var til minna málefnasviða. Með markvissri stefnumótun og forgangsröðun fjármuna á umræddu tímabilinu náðist mikill árangur á ýmsum sviðum. Þannig náðist að snúa vörn í sókn fyrir verk- og iðnnám með aðgerðum á síðasta kjörtímabili en langþráð sprenging hefur orðið í aðsókn í námið. Fjármunum var forgangsraðað til þess að takast á við eina stærstu áskorunum framtíðarinnar, yfirvofandi kennaraskort, sem tókst gríðarlega vel með stóraukinni aðsókn í kennaranám fyrir öll skólastig. Nýtt námslánakerfi var samþykkt eftir 30 ára bið sem hefur það að markmiði að hvetja nemendur til að ljúka námi sínu á tilsettum tíma og endurgreiðslukerfi fyrir útgáfu bóka á íslensku var komið á sem hefur sannað gildi sitt með verulegri aukningu í útgáfu svo aðeins örfá dæmi séu tekin. Þá get ég ekki lokið máli mínu án þess að nefna eitt af eftirlætis umfjöllunarefnum Viðskiptablaðsins, styrki til einkarekinna fjölmiðla, sem var komið á að norrænni fyrirmynd til þess að styrkja umgjörð þeirra. Það er ánægjulegt að sjá Viðskiptablaðið sem og aðra einkarekna fjölmiðla sækja um styrkina til þess að efla mikilvæga starfsemi sína.
Það skiptir máli að bera virðingu fyrir skattfé og að árangur náist af þeim aðgerðum sem því er varið til. Sú ,,rausnarlega útdeiling skattfjár‘‘ sem ég hef staðið í samkvæmt Hugin og Munin er kannski ekki svo rausnarleg eftir allt saman í samanburði við ýmsa aðra málaflokka. Hins vegar hefur hún svo sannarlega skilað árangri fyrir íslenskt samfélag og það er það sem skiptir máli.
Höfundur er Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.