Ný straumhvörf í kvikmyndagerð á Íslandi
Straumhvörf urðu í umhverfi kvikmyndagerðar árið 1999 þegar lög um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi voru samþykkt. Með þeim var rekstrarumhverfi kvikmyndageirans eflt með 12% endurgreiðsluhlutfalli á framleiðslukostnaði hérlendis. Síðan þá hefur alþjóðleg samkeppni á þessu sviði aukist til muna og fleiri ríki hafa fetað í fótspor Íslands þegar kemur að því að auka samkeppnishæfni kvikmyndageirans með það að markmiði að laða að erlend verkefni og efla innlenda framleiðslu. Það er í takt við þá áherslu stjórnvalda víða í heiminum að efla skapandi greinar og hugvitsdrifin hagkerfi sem skara fram úr.
Það er skýr sýn ríkisstjórnarinnar að Ísland eigi að vera í fararbroddi í því að efla skapandi greinar og hugverkadrifinn iðnað. Með það í huga er ánægjulegt að segja frá að frumvarp um hækkun endurgreiðsluhlutfalls úr 25% í 35% í kvikmyndagerð er nú á lokametrum þingsins. Markmið þess er að styðja enn frekar við greinina með hærri endurgreiðslum til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi. Verkefnin þurfa að uppfylla þrjú ný skilyrði til að eiga kost á 35% endurgreiðslu. Í fyrsta lagi verða þau að vera að lágmarki 350 m.kr að stærð, starfsdagar hér á landi þurfa að vera að lágmarki 30 og fjöldi starfsmanna sem vinna beint að verkefninu þarf að vera að lágmarki 50.
Markmið lagasetningarinnar frá 1999 hefur gengið eftir en umsvif kvikmyndagerðar hafa aukist allar götur síðan. Kvikmyndagerð hefur verið áberandi í íslensku menningar- og atvinnulífi og hefur velta greinarinnar þrefaldast undanfarinn áratug og nemur nú um 30 milljörðum króna á ársgrundvelli en vel á fjórða þúsund starfa við kvikmyndagerð. Sífellt fleira ungt fólk starfar við skapandi greinar eins og kvikmyndagerðina enda er starfsumhverfið fjölbreytt og spennandi og ýmis tækifæri til starfsþróunar hér innanlands sem og erlendis. Þá er einnig óþarft að telja upp öll þau stórverk sem tekin hafa verið upp að hluta hér á landi með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á ferðaþjónustuna og ímynd landsins. Þannig kom til dæmis fram í könnun Ferðamálastofu frá september 2020 að 39% þeirra sem svöruðu sögðu að íslenskt landslag í hreyfimyndaefni, þ.e. kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og tónlistarmyndböndum, hefði m.a. haft áhrif á val á áfangastað.
Hærra endurgreiðsluhlutfall hér á landi mun því valda nýjum straumhvörfum í kvikmyndagerð hér á landi og auka verðmætasköpun þjóðarbúsins. Með kvikmyndastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 hafa stjórnvöld markað skýra sýn til að ná árangri í þessum efnum – enda hefur Ísland mannauðinn, náttúruna og innviðina til þess að vera framúrskarandi kvikmyndaland sem við getum verið stolt af. Ég er þakklát fyrir þann þverpólitíska stuðning sem er að teiknast upp við málið á Alþingi Íslendinga og er ég sannfærð um að málið muni hafa jákvæð áhrif á samfélagið okkar.
Höfundur er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.