Hoppa yfir valmynd
29. júlí 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Á­gætt skyggni á Ís­lands­miðum

Það eru blik­ur á lofti í alþjóðahag­kerf­inu vegna verðbólguþrýstings og stríðsátaka. Ísland fer ekki varhluta af þessari stöðu og helsta viðfangsefni hagstjórnarinnar er að vinna bug á verðbólgunni og verja kaupmáttinn. Þrátt fyrir að óveðursský séu handan sjóndeildarhringsins, þá er engu að síður ágætt skyggni á Íslandsmiðum, þar sem nokkrar hagstærðir vinna með okkur. En lítum fyrst á stöðu og horfur alþjóðahagkerfisins:

Seðlabankar hækka vexti og hagvaxtarspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lækkar

Seðlabankar heimsins hafa hækkað sína stýrivexti, líkt og sá íslenski en hér hafa vextir farið úr 0,75% í 4,75% í nokkrum skrefum frá maí 2021. Bandaríski seðlabankinn hækkaði vexti nýverið um 0,75% og standa þeir í um 2,5%. Á sama tíma hefur landsframleiðsla Bandaríkjanna dregist saman um 0,9% á öðrum ársfjórðungi ársins og er þetta annar ársfjórðungurinn þar sem mælist samdráttur. Þrátt fyrir það mælist atvinnuleysi í landinu aðeins 3,6% og því telur seðlabankastjórinn hagkerfið ekki komið í kreppu. Tiltrú þýska viðskiptalífsins á hagkerfinu þeirra hefur versnað talsvert vegna vaxandi ótta við verðbólgu og orkuskort. Þar sem framboð af orku og afhendingar hennar frá Rússlandi er ófyrirséð, skapar það mikla óvissu og dregur úr fjárfestingum og minnkar hagvöxt. Þetta getur leitt til alvarlegrar kreppu í Evrópu á næstu misserum. Ný hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kom út í vikunni en þar var hagvaxtarspáin lækkuð. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að hagvöxturinn í ár verði 3,2 prósent og 2,9 prósent á næsta ári. Meginorsakirnar eru vaxandi verðbólga á heimsvísu og hægagangur í efnahagslífinu í Kína og Bandaríkjunum. Þó er vert að benda á að verð á hveiti hefur lækkað um nærri 40% frá hámarki sínu í maí. Olíuverð hefur einnig lækkað að undanförnu ásamt því að aðfangakeðjur eru að jafna sig.

Þróttur í íslenska hagkerfinu

Efnahagskerfið á Íslandi hefur tekið vel við sér eftir farsóttina. Drifkraftur hagkerfisins er góður og spár gera ráð fyrir miklum hagvexti í ár eða 5,1% og tæpum 3% árið 2023. Lausafjárstaða þjóðarbúsins er sterk og verulega hefur dregið úr atvinnuleysi. Ferðaþjónustan er mikilvægur þáttur í að drífa hagvöxtinn áfram en gert er ráð fyrir um 1,6 milljón ferðamanna heimsæki Ísland á þessu ári. Aðrar útflutningsgreinar hafa einnig dafnað vel eins og sjávarútvegur og stóriðja vegna mikilla verðhækkana á afurðum þessara atvinnugreina. Að sama skapi er einnig ánægjulegt að sjá að útflutningstekjur af hugverkaiðnaðnum hafa aukist eða farið úr því að nema tæpum 8% af gjaldeyristekjum í rúm 16% á síðustu árum. Þessi þróun er mikilvæg og fjölgar stoðunum undir utanríkisviðskiptum landsins.

Kaupmáttur launa allra á Íslandi hækkaði á árinu 2021 og þær skattalegu aðgerðir sem hefur verið hrint í framkvæmd miða allar að því að draga úr skattbyrði hjá þeim sem lægstar tekjur hafa. Á Covid-tímanum jókst kaupmáttur um 4,4% að raunvirði og var það í samræmi við fyrirætlanir stjórnvalda að verja efnahag heimila og fyrirtækja við upphaf farsóttarinnar. Í stuttu máli má segja að vel hafi tekist til. Atvinnuleysi mælist nú um 3,8% og skuldir heimilanna hafa lækkað. Að auki er gert ráð fyr­ir að aðhalds­samri pen­inga­stefna og rík­is­fjár­mál muni leiða til þess að á næsta ári lækki verðbólg­an.

Þættir sem vinna með Íslandi

Í ná­granna­lönd­un­um er mik­ill ótti við að fram und­an sé tíma­bil sam­spils stöðnun­ar og verðbólgu (e. stag­flati­on). Sem stendur eru eng­in merki eru uppi um slíka stöðnun í okk­ar hag­kerfi. Nokkr­ir veiga­mikl­ir þætt­ir ættu einnig að vinna með efna­hags­kerf­inu. Í fyrsta lagi eru heild­ar­skuld­ir rík­is­sjóðs rúm­lega 40% af lands­fram­leiðslu, en til sam­an­b­urðar eru skuld­ir Þýska­lands um 60% og Ítal­íu um 140%. Áætlað er að skulda­hlut­fall rík­is­sjóðs verði komið í 33,4% í árs­lok 2023. Er­lend­ar skuld­ir rík­is­sjóðs eru mjög lág­ar og auk þess er hrein er­lend staða þjóðarbús­ins með allra besta móti í ljósi mik­illa eigna hag­kerf­is­ins erlendis. Í öðru lagi er Ísland með sjálf­stæða pen­inga­stefnu sem þýðir að við get­um hreyft stýri­vexti hraðar en mörg önn­ur ríki og sér í lagi í sam­an­b­urði við þau sem eru aðilar að mynt­banda­lagi Evr­ópu. Þess má geta að verðbólga inn­an ein­stakra ríkja banda­lags­ins nem­ur allt að 20%. Ítal­ía greiðir 1,9 pró­sentu­stig­um meira en Þýska­land í vöxt­um af láni til tíu ára, nærri tvö­falt meira en sem nem­ur álag­inu í árs­byrj­un 2021. Ljóst er að sama vaxta­stefn­an á ekki við öll ríki Evr­ópu­sam­bands­ins og munu þau skuld­sett­ustu geta lent í veru­leg­um erfiðleik­um. Í þriðja lagi, vegna góðs geng­is út­flutn­ings­grein­anna, hef­ur gjald­miðill­inn okk­ar staðist ágjöf­ina sem felst í óviss­unni og hefur verið stöðugur. Í fjórða lagi er Ísland stór­fram­leiðandi á þeim vör­um sem vönt­un er á; ann­ars veg­ar mat­væl­um og hins veg­ar orku. Sök­um þessa er verðbólg­an minni en ella væri.

Að lok­um, þá hef­ur hag­stjórn­in verið sveigj­an­leg und­an­farið og verið í aðstöðu til að nýta rík­is­fjár­mál­in til að styðja við hag­kerfið á far­sótt­ar­tím­um. Nú þarf að draga úr þátt­töku þess í út­gjöld­um og fjár­fest­ing­um til að halda aft­ur af verðbólg­unni. Þannig að segja má að staðan sé nokkuð ásættanleg. Næstu aðgerðir í efna­hags­stjórn­inni munu all­ar miða að því að ná utan um verðbólgu­na og ef all­ir leggjast á árarnar í þeirri veg­ferð, þá mun okk­ur farn­ast vel. Hins vegar er það alveg ljóst í mínum huga að byrðarnar þurfa að dreifast jafnt í samfélaginu. Heimili landsins eru hornsteinn samfélagsins og því verður að vera í forgangi að verja þau.

Höfundur er Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta