Framtíðin ræðst af menntun
Ein mikilvægasta fjárfesting hvers samfélags er í menntun. Rannsóknir sýna að með aukinni menntun eykst nýsköpun og tækniþróun, sem leiðir til aukinnar hlutdeildar í heimsviðskiptum, meiri framleiðni og aukins gjaldeyrisforða! Frá iðnbyltingunni hefur verðmætasköpun fyrst og fremst verið drifin áfram af menntun, nýsköpun, tæknilegum framförum og sanngjörnu markaðshagkerfi.
Því bárust íslensku samfélagi sérstaklega jákvæðar fréttir í liðinni viku, um að brotthvarf á framhaldsskólastigi hafi ekki mælst minna og brautskráningarhlutfall ekki hærra í tölum Hagstofunnar, sem ná aftur til nýnema ársins 1995! Þannig höfðu nærri 62% þeirra tæplega 4.500 nýnema sem hófu nám árið 2016 útskrifast árið 2020. Rúm 18% voru enn í námi, án þess að hafa útskrifast. 19,9% nýnema haustsins 2016 hafa hætt námi á sama tímabili. Til samanburðar nam þetta hlutfall 29,6% árið 2007 hjá nýnemum hjá þeim sem hófu nám 2003. Aukinheldur mældist brotthvarf á meðal innflytjenda á framhaldsskólastiginu það minnsta frá því mælingar hófust, sem eru einnig virkilega jákvæðar fréttir, þótt enn sé talsvert starf óunnið í þeim efnum. Um 46% innflytjenda sem hófu nám í dagskóla á framhaldsskólastigi haustið 2016 höfðu hætt námi án þess að útskrifast fjórum árum síðar.
Þetta er þróun í rétta átt sem ég gleðst mikið yfir, en baráttan gegn brotthvarfi var eitt af helstu áherslumálum mínum í tíð minni sem menntamálaráðherra á síðasta kjörtímabili. Með margháttuðum aðgerðum var þessari áskorun mætt. Meðal annars var 800 milljónum króna forgangsraðað í þágu nemenda í brotthvarfshættu. Framúrskarandi samstarf við skólastjórnendur, kennara og nemendur er stór breyta í þessari þróun. Þá var markvisst unnið að því að auka aðgengi framhaldsskólanemenda að geðheilbrigðisþjónustu og fjárframlög til framhaldsskólanna aukin, þannig að framlög á hvern nemanda höfðu aldrei verið jafn há.
Það skiptir máli að nemendur finni sína fjöl og finni löngun til þess að velja sér áhugavert nám við hæfi og klára það. Fjölbreytni náms á framhaldsskólastigi hefur aukist jafnt og þétt en yfir hundrað námsbrautir eru í boði við framhaldsskóla landsins.
Á síðasta kjörtímabili tókst einnig sérlega vel til að snúa vörn í sókn fyrir verk-, iðn- og starfsnám með aðgerðaáætlun mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Markmið áætlunarinnar er að auka áhuga ungmenna á starfs- og tæknimenntun og þar með fjölga einstaklingum með slíka menntun á vinnumarkaði. Í aðgerðaáætluninni var meðal annars lögð áhersla á að efla kennslu grunnskólanema í verk-, tækni- og listgreinum; jafna stöðu iðnmenntaðra í framhaldsnámi; einfalda skipulag starfs- og tæknináms; bæta aðgengi á landsbyggðinni og styrkja náms- og starfsráðgjöf. Skemmst er frá því að segja að algjör aðsóknarsprenging hefur orðið í námið og færri komast að en vilja – sem nú er orðið eitt helsta viðfangsefni framhaldsskólastigsins. Það er af sem áður var, þegar vandamálið var að ná í nægjanlega stóra nemendahópa í námið.
Ánægðum nemendum vegnar betur, sem styrkir samfélagið okkar til langs tíma og um leið samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavísu. Menntun er máttur!